Færsluflokkur: Bloggar
Mánudagur, 9. apríl 2007
Páskar
Gleðilega páska!
Á páskadagsmorgun sótti ég árdegismessuna í Langholtskirkju, og var það í fyrsta skipti, sem ég er viðstaddur guðsþjónustu í þeirri kirkju. Þó að ekki sé alltaf gaman að vakna fyrir kl. 7 á páskadagsmorgni, þá er alltaf jafnánægjulegt og ómissandi að fara í kirkju á þessum helgasta morgni ársins. Ekki spillti tónlistin í Langholtskirkju fyrir í gærmorgun. Þar var óvenjufjölmennt í kórnum eða um 40 manns, og gaman að sjá hve margir ungir söngvarar voru þar. Jón Stefánsson lék vitanlega á tignarlegt orgel kirkjunnar og stjórnaði kórnum, sem söng bæði hefðbundna páskasálma og hátíðartón sr. Bjarna Þorsteinssonar, og í lokin Hallelúja-kórinn úr Messíasi Handels. Það er nú ekki leiðinlegt að byrja páskadaginn á að hlusta á slíka tónlist. Sr. Jón Helgi Þórarinsson messaði af öryggi og söng einnig með kórnum í lokin. Var það skemmtileg sjón að sjá hann stilla sér upp hjá karlaröddunum í fullum skrúða og taka undir þennan volduga söng.
Ekki get ég þó sagt að slegist hafi verið um sætin í kirkjunni, þó að slæðingur af fólki hafi verið þar. Það rifjaðist upp fyrir mér, að þegar ég var að byrja í kirkjukórnum á Seltjarnarnesi voru ævinlega tvær hátíðarguðsþjónustur á páskadag, árdegismessa kl. 8 og svo eftirmiðdagsmessa kl. 14. Nú hefur messan kl. 14 verið felld niður í Seltjarnarneskirkju. Því miður virðist kirkjusókn almennt fara minnkandi á páskum, a.m.k. hér á höfuðborgarsvæðinu. Ekki voru heldur mörg börn eða foreldrar í páska-sunnudagaskólanum í Grafarholtinu. Æ fleiri nýta páskahelgina í ferðalög, og gaman væri að vita, hvort prestar á landsbyggðinni veittu því eftirtekt, að ferðafólkið fjölmennti í kirkjur þeirra á páskum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 4. apríl 2007
Hjá Vottum
Bloggdugnaður þessa dagana lýsir löngum setum við ritgerðarskrif. En setutíminn á safninu jafngildir ekki unnum stundum, því skal áfram bloggað.
Síðla á mánudagskvöldið fengum við nokkur úr guðfræðideild, sem sitjum áfangann Kirkjudeildafræði á þessu misseri, tækifæri til að vera viðstödd samkomu í Ríkissal Votta Jehóva. Var þetta hin athyglisverðasta stund, og enn frekar fyrir þær sakir, að þetta var að mér skildist mesta hátíðarsamvera ársins hjá þeim Vottum, minningarhátíð um kvöldmáltíð Jesú með lærisveinum sínum.
Á samveruna mættu hátt í tvö hundruð manns og var samkomusalurinn í Árbænum því svo gott sem fullur af fólki. Samveran hófst og henni lauk á söng úr bókinni "Syngið Jehóva lof," en aðalefni hennar var flutningur biblíutengdrar ræðu. Hafi ég rétt skilið, þá eru slíkir fyrirlestrar meginefni samkomanna almennt hjá Vottum Jehóva. Ræðurnar, sem fluttar eru, eru samdar í höfuðstöðvum alheimshreyfingarinnar í New York, en þýddar á ýmis tungumál. Kom fram á mánudagskvöldið, að ræðan, sem þá var flutt, hafði þegar verið lesin í Afríku og Asíu, en eftir átti að lesa hana í Bandaríkjunum og víða í Evrópu á sambærilegum samkomum.
Vottar Jehóva skilgreina sig sjálfir sem kristið trúfélag, sem byggi á Biblíunni, en víkja allverulega og í fjölmörgum grundvallaratriðum frá hefðbundinni kenningu og biblíutúlkun alheimskirkjunnar, sbr. samkirkjulegar trúarjátningar frá frumkirkjunni á borð við Níkeujátninguna og Postullegu trúarjátninguna, sem ekki eru viðurkenndar. Fjallaði ræðan á mánudaginn um "mesta mikilmenni sögunnar" eins og það var orðað, Jesúm, um áætlun Jehóva guðs með hann og dauða hans, og um þá minningarmáltíð, sem safnast var um þetta kvöld. Þá var rætt um þá 144.000 manna hjörð, sem Vottarnir álíta að hafi verið sérstaklega valin til að komast til himna eftir heimsendi, en hann er í nánd. (Aðrir Vottar munu fá eilíft líf í ríki Jehóva á jörðu eftir þennan atburð.) 144.000 manna hjörðin fylltist að mestu fyrir árið 1935, en þó eru um 8.000 manns núlifandi, sem tilheyra þeim hópi af ýmsum ástæðum. Aðeins þeir mega neyta brauðsins og vínsins í minningarhátíðinni um kvöldmáltíð Jesú, og er enginn úr þeim hópi á Íslandi. Þess vegna gekk brauðið og vínið um salinn á mánudagskvöldið, án þess að nokkur snerti á því.
Samveran var öll hin fróðlegasta. Fannst mér hún, þrátt fyrir söng, bænir og "máltíðina," sem enginn neytti af, fremur líkjast kennslustund en guðsþjónustu. Megináherslan hvíldi á fræðslu um kenningu trúfélagsins, og kom það einnig fram í söngnum. - Verð ég að viðurkenna, að þó að þetta hafi allt verið athyglisvert, hef ég ekki hugsað mér að byrja að venja komur mínar í Ríkissalinn í Hraunbænum - kann betur við bæði kenningu og helgihald í Þjóðkirkjunni!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 3. apríl 2007
Arna og altarið
Ekki gerist það oft að ég hlægi mig máttlausan yfir greinum dagblaðanna. Þetta gerðist nú samt í morgun og er rétt að segja frá því hér.
Í sérblöðum dagblaðanna um páska og fermingar er oft rætt við presta eða aðra kirkjunnar menn. Á dögunum var einmitt rætt við Jón Ómar skólabróður minn og góðvin í fermingablaði Blaðsins. Í dag, þegar ég sá Fréttablaðið og að þar væri sérblað um páska, var ég þess einmitt fullviss, að þar væri rætt við prest. Ekki brást það og viðtalið var við séra Örnu Grétarsdóttur, prest í Seltjarnarneskirkju.
Þetta var áhugavert viðtal og góð myndin af séra Örnu. Gaman var sérstaklega að lesa um messuna, sem hún mun annast í minni gömlu kirkju á skírdagskvöld. Þar bakar hún brauðið sjálf fyrir altarisgönguna, í stað þess að nota hefðbundnar oblátur. Ég hef einu sinni sótt slíka messu hjá henni og þetta er falleg og áhrifarík stund.
Stundinni lýkur með afskrýðingu altarisins, svonefndri Getsemane-stund. Eitthvað hefur nú blaðamaðurinn misskilið það hugtak því að í viðtalinu segir: "Þá tökum við af altarinu og afskrifum það."
Já, ég skellihló þegar ég sá, að ætti að afskrifa altari Seltjarnarneskirkju.
Þú verður að fyrirgefa Arna, þú hefur væntanlega ekki fengið að lesa viðtalið yfir!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 2. apríl 2007
Kyrravika
Þá fer helgasti tími kirkjuársins í hönd. Pálmasunnudagur er að baki og kyrravika eða dymbilvika hafin með upprisugleði páskanna handan við hornið. Ósjálfrátt setur mann hljóðan við það eitt að heyra nöfn þessarar heilögu viku, kyrruviku. Hvers þörfnumst við frekar en kyrrðar?
Það er stórkostlegt að geta kyrrt hugann frammi fyrir Guði og íhugað atburði skírdags og föstudagsins langa, þegar Drottinn dó á krossi okkar vegna. Guð kristinna manna er nefnilega ekki ópersónulegur guð, heldur lifandi og kærleiksríkur frelsari, sem þolir angist og gengur í dauðann vegna barnanna sinna. Guð hefur gefið okkur réttinn til að hvíla í föðurfaðmi hans ástar.
Kyrrð bænadaganna á undir högg að sækja í samfélaginu okkar. Verslanir, skemmtistaðir og kvikmyndahús vilja í æ ríkari mæli hafa starfsemi sína ótruflaða af þessum helgidögum kirkjunnar. Og það er kannski ekki skrýtið, þegar trúin á það, sem þessir dagar standa fyrir, er tekin að dofna, nefnilega trúin á hjálpræðið fyrir krossdauða Krists. Sumum finnst jafnvel kirkjan sjálf með fermingum sínum, ekki síst á skírdag, vinna gegn kyrrð og íhugun píslarsögunnar um bænadagana. Sjálfur sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að bíða með fermingar og umstang þeirra fram yfir páska.
En samt er það nú svo, að eftir stendur þessi þrá hjartans, þrá aldanna, eftir lifandi Guði, eftir fyrirgefningu hans og kærleika. Þeirri þrá verður ekki svalað nema í faðmi lausnarans.
Víst ertu, Jesús, kóngur klár,
kóngur dýrðar um eilíf ár,
kóngur englanna, kóngur vor,
kóngur almættis tignarstór.
Ó, Jesús, það er játning mín,
ég mun um síðir njóta þín,
þegar þú, dýrðar Drottinn minn,
dómstól í skýjum setur þinn.
Frelsaður kem ég þá fyrir þinn dóm,
fagnaðarsælan heyri' eg róm.
Í þínu nafni útvaldir
útvalinn kalla mig hjá sér. (H. P.)
Guð gefi okkur öllum sinn frið í dymbilviku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 31. mars 2007
Spennuþrunginn aðalfundur á óvæntum stað
Það er ekki á hverjum degi, sem aðalfundir í fámennum nemendafélögum taka á sig svip rafmagnaðrar kosningaspennu. En slíkt var þó uppi á teningnum á aðalfundi Félags guðfræðinema í gær, föstudag.
Allt fór þó fram í hinu mesta bróðerni, en svo virðist sem félagsleg vakning hafi átt sér stað meðal guðfræðinema. Í gegnum tíðina hefur oftar en ekki þurft að ganga á eftir fólki til að bjóða sig fram til helstu embætta á vegum félagsins, en nú fór svo, að kjósa þurfti um flest trúnaðarstörfin í félaginu. Var spennan mikil meðan atkvæði voru talin, ekki síst um embætti formanns og ritara, en aðeins munaði einu atkvæði á frambjóðendum í báðum tilfellum.
Þá var það mér mikið ánægjuefni, sem fráfarandi meðlimi í Kirkju- og kapellunefnd guðfræðinema , að einnig komust færri að en vildu í þá nefnd. Lýsir það vonandi vaxandi áhuga nemenda guðfræðideildar á starfi í Háskólakapellunni. Guð láti gott á vita.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 31. mars 2007
Séra Magnús og fagnaðarerindið
Á fimmtudagskvöldið var veittist mér sú ánægja að fá að flytja erindi og hugvekju á fundi hjá aðaldeild KFUM í Reykjavík. Yfirskrift kvöldsins var "Fallnir stofnar-Magnús Runólfsson" og talaði ég út frá efni BA-ritgerðar minnar í guðfræði frá því nú í haust, "Blóðskuld og bölvan mína...." - Um ævi og trú séra Magnúsar Runólfssonar (1910-1972).
Það var einstaklega gleðilegt að fá að ræða þetta efni við karlahópinn í AD KFUM, en nokkur hluti félaganna þar er kominn á þann aldur að minnast séra Magnúsar vel og vera jafnvel í hópi "drengjanna" hans. Á það ekki síst við um þá karlmenn í KFUM, sem fæddir eru um og fyrir 1930. Einn þeirra er Hermann Þorsteinsson, sem gert hefur íslenskri kristni margþætt gagn á 20. öldinni, m.a. sem formaður sóknarnefndar Hallgrímskirkju um árabil, en er nú 85 ára gamall. Hafði hann eftirminnileg upphafsorð á fundinum, þar sem hann dró upp úr pússi sínu gamlar myndir af séra Magnúsi og séra Friðriki Friðrikssyni, og talaði af einstakri hlýju um þessa menn, sem leiddu sig til fylgis við Krist og kross hans á sínum tíma.
Orð Hermanns höfðu mikil áhrif á mig og vöktu mig til umhugsunar. Menn á borð við Hermann minnast séra Magnúsar og séra Friðriks með þessari sérstöku hlýju og kærleika vegna þess, að þeir leiddu þá til Drottins og til lífsins í honum. Þeir gáfu börnum og unglingum tíma sinn og alúð sem erindrekar Krists á jörðu. - Þetta er holl áminning fyrir okkur, sem nú störfum með börnum og unglingum innan kirkjunnar og KFUM & KFUK, mörgum áratugum eftir andlát séra Magnúsar og séra Friðriks. Stöndum við okkur sem skyldi í okkar starfi? Mun einhver, sem leiddur hefur verið til kærleika Krists, minnast okkar með hlýju þess vegna eftir hálfa eða heila öld?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 26. mars 2007
Álverið og prófasturinn
Ég hef ekki fylgst nema með öðru eyra og auga með síharðnandi kosningabaráttu Alcans í Straumsvík annars vegar og Sólar í straumi hins vegar um stækkun álversins í Hafnarfirði. Lítill áhugi á málinu skýrist líklega af sjálfhverfu, en ég er búsettur í hinum enda höfuðborgarsvæðisins og tel málið mér ekki mjög skylt af þeim sökum (sem er þó auðvitað ekki alls kostar rétt). Daglegar "stórfréttir" Sjónvarpsins af kvörtunum Sólar í straumi yfir aðferðum Alcansmanna við kosningabaráttuna hafa þó ekki farið fram hjá mér, og hafa þær frekar valdið andúð á málstað Sólarmanna en hitt. Nóg um það kvabb.
En ég sperrti eyrun yfir kvöldfréttum Útvarpsins í gær, þegar rætt var við dr. Gunnar Kristjánsson, sóknarprest á Reynivöllum í Kjós og prófast Kjalarnessprófastsdæmis, um málið. Notaði hann biblíulegt orðfæri, og sagði Hafnfirðinga geta haft spámannlega rödd í þessum kosningum, og haft ýmislegt að segja almennt um áframhaldandi þróun og vöxt stóriðju í landinu. Hvatti hann menn til að huga að umhverfinu og andæfði álversstækkuninni.
Ábendingin um spámannlega rödd Hafnfirðinga kann að vera hárrétt hjá prófastinum, og það er skemmtilegt, að viðhorf guðfræðings til málsins sé álitið fréttnæmt. Það eitt og sér segir sína sögu, t.d. um stöðu predikunarinnar, en fregnir af andláti hennar eru stórlega orðum auknar! Hitt er svo annað mál og mjög umdeilanlegt, hvort að áhrifamikill prestur Þjóðkirkjunnar eigi yfir höfuð að ganga fram fyrir skjöldu í máli af þessu tagi og segja sína skoðun. Sjálfur tel ég það fremur af hinu góða en hitt, að prestar lýsi skoðunum sínum á hinum og þessum málum, ekki síst ef skoðanir þeirra eru vel ígrundaðar guðfræðilega. Þó tel ég ekki rétt, að prestar noti predikunarstólinn til að koma slíkum skilaboðum á framfæri. Predikunin er að mínum dómi allt of dýrmæt til að henni eigi að sóa á pólitísk deilumál, nema þau lúti með einhverjum hætti að kjarna fagnaðarerindisins eða ógni beinlínis siðferði safnaðar eða þjóðar.
Stefnir í tvísýnar álverskosningar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Mánudagur, 26. mars 2007
Í Skálholti
Í síðustu viku fékk ég tækifæri til að eyða degi á hinu sögufræga biskupssetri, Skálholti. Það er reisn yfir nafni þessa staðar einu saman, hvað þá yfir staðnum sjálfum, og þangað er gott að koma.
Tilefni ferðarinnar var það, að von var á fermingarbörnum frá Selfossi, úr Flóanum og af Klaustri til daglangrar dvalar þar til náms og menningarauka. Meðal umsjónarmanna barnanna var Stefán Einar, minn ágæti félagi úr guðfræðideild, og fékk hann mig til að vera einnig til halds og trausts á námskeiðinu. Þess má til gamans geta, að Stefán þessi heldur úti bloggsíðu, sem eflaust er í hópi þeirra mest lesnu í landinu.
Það var ánægjulegt að kynnast fyrirkomulagi fermingarnámskeiða í Skálholti, en ég hef starfað á nokkrum slíkum námskeiðum í Vatnaskógi nú seinustu árin. Í Skálholti kynnast börnin m.a. orgeli kirkjunnar og ýmsum hljóðum þess, fornleifasafninu í kjallara kirkjunnar, og vinna með leikræna tjáningu út frá biblíusögu. Stjórnandi námskeiðsins var Gunnar Einar Steingrímsson, BA í guðfræði og æskulýðsfulltrúi, en veg og vanda af skipulagi námskeiðanna hefur dr. Kristinn Ólason, rektor Skálholtsskóla. Var gaman að sjá þennan hálærða mann svo ófeiminn við að grípa í gítarinn og taka þátt í léttum söng með börnunum.
Maturinn í Skálholti var bragðgóður en mjög kunnuglegur úr Vatnaskógi. Ég gæti trúað, að það væri bundið í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar, að fermingarbörn snæddu grjónagraut og flatbökur á námskeiðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 25. mars 2007
Elli kerling bankar upp á
Mér er boðið í tvö 25 ára afmæli í þessari viku. (Kýs að leiða ekki hugann að því að eiginkonan nálgist þennan hjalla hratt.)
Fór svo á KSS-fund í gær og fannst hljómsveitin allt of hátt stillt.
Ellimerki?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 17. mars 2007
Verkefnatíð
Það er mikil verkefnatíð hjá okkur bekkjarsystkinunum í guðfræðideildinni þessa dagana. Mér telst til að þegar allt sé talið, eigi ég að skila vel á annað hundrað blaðsíðum þessa önnina í hinum aðskiljanlegustu verkefnum í ýmsum fögum, allt frá einnar síðu greinargerðum til 25 síðna ritgerða.
En ekki þýðir að barma sér, þó að maður hafi nóg fyrir stafni við skriftir, heldur halda áfram ótrauður. Ekki veitir af að nota tímann vel. Skilaði í gær ritgerðinni í trúarbragðarétti og er nú að byrja á trúfræðiritgerð, sem ber yfirskriftina: "Hvern segja menn mig vera?" og á að fjalla um svör ýmissa guðfræðinga við þessari spurningu Krists. Hef ég ákveðið að bera saman viðhorf þeirra Martins Kahler og Wolfharts Pannenberg um tengslin á milli hins sögulega Jesú og Krists trúarinnar. Það er reyndar huggun harmi gegn á annatímum í skólanum, að viðfangsefnin séu jafnáhugaverð og þetta!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)