Séra Magnús og fagnaðarerindið

Á fimmtudagskvöldið var veittist mér sú ánægja að fá að flytja erindi og hugvekju á fundi hjá aðaldeild KFUM í Reykjavík. Yfirskrift kvöldsins var "Fallnir stofnar-Magnús Runólfsson" og talaði ég út frá efni BA-ritgerðar minnar í guðfræði frá því nú í haust, "Blóðskuld og bölvan mína...." - Um ævi og trú séra Magnúsar Runólfssonar (1910-1972).

Það var einstaklega gleðilegt að fá að ræða þetta efni við karlahópinn í AD KFUM, en nokkur hluti félaganna þar er kominn á þann aldur að minnast séra Magnúsar vel og vera jafnvel í hópi "drengjanna" hans. Á það ekki síst við um þá karlmenn í KFUM, sem fæddir eru um og fyrir 1930. Einn þeirra er Hermann Þorsteinsson, sem gert hefur íslenskri kristni margþætt gagn á 20. öldinni, m.a. sem formaður sóknarnefndar Hallgrímskirkju um árabil, en er nú 85 ára gamall. Hafði hann eftirminnileg upphafsorð á fundinum, þar sem hann dró upp úr pússi sínu gamlar myndir af séra Magnúsi og séra Friðriki Friðrikssyni, og talaði af einstakri hlýju um þessa menn, sem leiddu sig til fylgis við Krist og kross hans á sínum tíma.

Orð Hermanns höfðu mikil áhrif á mig og vöktu mig til umhugsunar. Menn á borð við Hermann minnast séra Magnúsar og séra Friðriks með þessari sérstöku hlýju og kærleika vegna þess, að þeir leiddu þá til Drottins og til lífsins í honum. Þeir gáfu börnum og unglingum tíma sinn og alúð sem erindrekar Krists á jörðu. - Þetta er holl áminning fyrir okkur, sem nú störfum með börnum og unglingum innan kirkjunnar og KFUM & KFUK, mörgum áratugum eftir andlát séra Magnúsar og séra Friðriks. Stöndum við okkur sem skyldi í okkar starfi? Mun einhver, sem leiddur hefur verið til kærleika Krists, minnast okkar með hlýju þess vegna eftir hálfa eða heila öld?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband