Álverið og prófasturinn

Ég hef ekki fylgst nema með öðru eyra og auga með síharðnandi kosningabaráttu Alcans í Straumsvík annars vegar og Sólar í straumi hins vegar um stækkun álversins í Hafnarfirði. Lítill áhugi á málinu skýrist líklega af sjálfhverfu, en ég er búsettur í hinum enda höfuðborgarsvæðisins og tel málið mér ekki mjög skylt af þeim sökum (sem er þó auðvitað ekki alls kostar rétt). Daglegar "stórfréttir" Sjónvarpsins af kvörtunum Sólar í straumi yfir aðferðum Alcansmanna við kosningabaráttuna hafa þó ekki farið fram hjá mér, og hafa þær frekar valdið andúð á málstað Sólarmanna en hitt. Nóg um það kvabb.

En ég sperrti eyrun yfir kvöldfréttum Útvarpsins í gær, þegar rætt var við dr. Gunnar Kristjánsson, sóknarprest á Reynivöllum í Kjós og prófast Kjalarnessprófastsdæmis, um málið. Notaði hann biblíulegt orðfæri, og sagði Hafnfirðinga geta haft spámannlega rödd í þessum kosningum, og haft ýmislegt að segja almennt um áframhaldandi þróun og vöxt stóriðju í landinu. Hvatti hann menn til að huga að umhverfinu og andæfði álversstækkuninni.

Ábendingin um spámannlega rödd Hafnfirðinga kann að vera hárrétt hjá prófastinum, og það er skemmtilegt, að viðhorf guðfræðings til málsins sé álitið fréttnæmt. Það eitt og sér segir sína sögu, t.d. um stöðu predikunarinnar, en fregnir af andláti hennar eru stórlega orðum auknar! Hitt er svo annað mál og mjög umdeilanlegt, hvort að áhrifamikill prestur Þjóðkirkjunnar eigi yfir höfuð að ganga fram fyrir skjöldu í máli af þessu tagi og segja sína skoðun. Sjálfur tel ég það fremur af hinu góða en hitt, að prestar lýsi skoðunum sínum á hinum og þessum málum, ekki síst ef skoðanir þeirra eru vel ígrundaðar guðfræðilega. Þó tel ég ekki rétt, að prestar noti predikunarstólinn til að koma slíkum skilaboðum á framfæri. Predikunin er að mínum dómi allt of dýrmæt til að henni eigi að sóa á pólitísk deilumál, nema þau lúti með einhverjum hætti að kjarna fagnaðarerindisins eða ógni beinlínis siðferði safnaðar eða þjóðar.


mbl.is Stefnir í tvísýnar álverskosningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Örn Jónsson

Ég held einmitt að umhverfismál og ábyrgð okkar gagnvart náttúrunni eigi mjög vel heima í prédikunum presta. Það get ég fullvissað þig og alla aðra um að dr. Gunnar á Reynivöllum hefur hugleitt þessi mál mjög vel og niðurstaða hans ber sterkri réttlætiskennd hans gott vitni. Hann er laus við allar upphrópanir og klisjur í sínum málflutningi, sem því miður einkennir svo oft þessa umræðu. (Ég er jafnvel sekur um það á stundum að detta í klisjupyttinn) Góðar kveðjur úr Eyjum

Guðmundur Örn Jónsson, 26.3.2007 kl. 21:43

2 Smámynd: Þorgeir Arason

Séra Guðmundur, þakka þér fyrir innleggið, hér er auðvitað ekki spurt um upphrópanir eða klisjur einstakra manna, enda myndi ég aldrei saka hér nokkurn um slíkt, hvorki dr. Gunnar né aðra - og veit að skoðanir hans eru jafnan vel ígrundaðar -heldur hvert sé hið eiginlega eðli predikunarinnar. Ábyrgð mannsins gagnvart sköpunarverkinu er vissulega hluti af hinum kristna boðskap. En í sérhverri predikun hlýtur aðalatriðið engu að síður að vera fagnaðarerindi kristninnar um hvernig Guð beygir sig til okkar í Jesú Kristi og greiðir okkur leiðina til lífsins í krossdauða sínum og upprisu. Við lítum lífið allt í nýju ljósi þegar við höfum komist í snertingu við þann boðskap - við íklæðumst nýja manninum í Kristi! Og við lítum til ráðsmennskuhlutverks okkar í því ljósi. En skoðanir okkar á nýtingu náttúruauðlindanna og meðferð landsins í einstökum málum geta þrátt fyrir það verið ólíkar og eiga varla heima í predikun að mínum dómi.

Þorgeir Arason, 27.3.2007 kl. 13:20

3 Smámynd: Jóhann Þorsteinsson

Það sem mér hefur í gegnum tíðina fundist áberandi er hve ólíkar prédikanir presta eru eftir því hvort messunni er útvarpað eða ekki. Ef um venjulega messu er að ræða fyrir söfnuðinn er oftast lagt út frá guðspjalli dagsins og fjallað um hvernig það á erindi við okkur í dag en svo þegar allir landsmenn eru að hlusta er hlaupið frekar hratt yfir þennan lið og drifið í að tala um hugðarefni viðkomandi prests og hvernig þau eiga sér stoðir í Biblíunni. Skiptir þá engu hvort um er að ræða álver, réttindi samkynhneigðra, stuðning ríkisstjórnar við aldraða og öryrkja eða hvað annað sem að mínum dómi er oftast meira pólítískt heldur en guðfræðilegt. Merkilegt? eða kannski bara mannlegt?

Jóhann Þorsteinsson, 27.3.2007 kl. 22:35

4 Smámynd: Þorgeir Arason

Sammála þessu Jóhann. Þetta finnst mér orðið mjög áberandi.

Þorgeir Arason, 28.3.2007 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband