Færsluflokkur: Bloggar

Einkennilegt frumvarp sjálfstæðismanna

Enn einu sinni hafa frjálshyggjumenn á þinginu lagt fram hið afleita frumvarp sitt um afnám á einkasölu ríkisins á léttvíni og bjór. Ekki get ég sagt annað en það, að ég vona og bið, að nú í fjórða skipti verði það fellt, og þar með láti þeir sér segjast.

Það eru gömul sannindi og ný, að aukið aðgengi á áfengi hefur í för með sér aukna neyslu, ekki síst meðal yngri aldurshópa. Og þó að ég vilji alls ekki fara aftur til fortíðar og banna bjórsölu (reyndar finnst mér persónulega bjór vera bragðvondur, en það er önnur saga), er það staðreynd, sem vert er að benda á, að áfengisneysla Íslendinga hefur aukist umtalsvert frá því að bjórinn var leyfður. (Viðurkennt skal þó, að fleira kann þar að hafa komið til.) Sí og æ reyna talsmenn áfengissölu í matvöruverslunum að bera okkur Íslendinga í þessum efnum saman við þjóðir sunnar í Evrópu, þar sem vínmenning er allt önnur. Sá samanburður er ómarktækur.

Ég hef ekki orðið var við annað, en að þjónusta Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins sé fullnægjandi hvað snertir framboð á léttvíni og bjór, og einnig hvað varðar afgreiðslutíma. Það er ekki hægt að kalla það "mannréttindabrot", þó að menn geti ekki náð sér í vínflösku á öllum tímum sólarhringsins.

Þar við bætist, að ætli matvöruverslanir sér að selja léttvín og bjór, þurfa þær heldur betur að taka til í sínum starfsmannamálum. Ekki veit ég, hvernig þær færu að því, eins og atvinnuástandið er gott í landinu. Hér á ég auðvitað við hinn unga aldur afgreiðslumannanna.

Verslanir standa sig þó misvel í þessum efnum, Krónan sýnu verst finnst mér. Fari ég í Krónuna hér vestur í bæ, sé ég sjaldan eða aldrei lögráða starfsmann. Á dögunum, þegar ég var þar, var opið á þremur afgreiðslukössum. Gat ég ekki séð, að nokkur afgreiðslupiltanna þriggja væri fermdur, svo barnalegir voru þeir að sjá. Með fullri virðingu fyrir þessum drengjum, sem eflaust gera sitt besta, myndi ég ekki treysta því, að þeir færu að banna ungmennum á framhaldsskólaaldri, eða jafnvel enn yngri, að kaupa sér vín eða bjór í Krónunni.


Borgarstjóri "vísiterar" KFUM og KFUK

Það var sérstaklega ánægjulegt að taka þátt í sameiginlegum fundi aðaldeilda KFUM & KFUK í Reykjavík í gær, en reyndar hef ég ekki verið sérlega duglegur við að mæta á slíka fundi, sem að öllu jöfnu eru kynskiptir. Tilefnið var þó sérstakt í gær þegar borgarstjóri Reykvíkinga, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, heimsótti félagshús samtakanna við Holtaveg. Átti hann fyrst fund með forystumönnum KFUM & KFUK á Íslandi og sumarbúða félagsins, og var að því búnu heiðursgestur á samveru aðaldeildanna, sem hátt á annað hundrað manns sótti.

Sr. Ólafur Jóhannsson, sóknarprestur í Grensáskirkju og fv. formaður KFUM í Reykjavík, stýrði samverunni, og annar fyrrverandi formaður félagsins, frændi minn sr. Jón Dalbú Hróbjartsson prófastur og sóknarprestur í Hallgrímskirkju, hafði hugvekju. Talaði hann um tengsl hins veraldlega valds, trúarinnar og verslunarinnar og nauðsyn allra sviðanna í samfélaginu, og að þau styrktu hvert annað án þess þó að fara hvert inn á annars verksvið. Íhugunartexti hans var guðspjallsfrásögnin um það, þegar Jesús velti við borðum víxlaranna og tollheimtumannanna í musterinu, og sagði hann nauðsynlegt, að bænahúsin fengju að vera án kaupskaparins og hinnar veraldlegu umsýslu, og hve nauðsynlegt væri einnig að við hefðum öll okkar herbergi til að ganga inn í til bæna - hjarta okkar og kirkju.

Fleira var á dagskránni, Helga Magnúsdóttir söng fallega fyrir okkur við undirleik Bjarna Gunnarssonar og Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir hafði upphafsorðin. Hennar fjölskylda hefur verið mjög áberandi í starfi KFUM & KFUK enda var langafi hennar, Sigurbjörn Þorkelsson í Vísi, í stjórn KFUM í Reykjavík yfir hálfa öld! - Heiðursgestur kvöldsins, borgarstjórinn okkar, hélt fallega tölu um ágæti æskulýðsstarfs KFUM & KFUK og lumaði á frásögn af eigin þátttöku af KFUM-starfi sem drengur. Lofaði hann því jafnframt, að beita sér fyrir því, að borgin léti ekki sitt eftir liggja fjárhagslega til að styðja við bakið á því starfi. Ekki nefndi hann neinar tölur í því samhengi, eins og einhverjir höfðu vonast eftir, en fylgi hugur máli hjá Vilhjálmi þarf félagsskapurinn okkar engu að kvíða. Ekki má gleyma að vitanlega var risið úr sætum og sungið hraustlega á milli atriða. Alltaf finnst mér jafngaman að syngja Áfram, Kristsmenn, krossmenn í svona hópi, þar sem vel er tekið undir, og var einnig gaman að heyra að borgarstjóri reyndist sama sinnis!

Eftir hinn formlega AD-fund afhjúpaði borgarstjóri nýtt merki hins sameinaða félags, KFUM & KFUK á Íslandi. Þó að ég sé sammála gagnrýni frúar minnar á hvernig að þeim málum, þ.e. valinu á merkinu, hefur verið staðið, þykir mér nýja merkið hafa marga kosti og gaman að sjá að það var þegar komið í umferð, t.d. á bolum starfsmanna og á munnþurrkunum, sem notaðar voru í kaffinu eftir fundinn. Hygg ég, að þetta efni komi frá Danmörku líkt og nýja merkið.

Einhverjir telja ámælisvert, að opinberir aðilar, ríki eða sveitarfélög, veiti kristinni æskulýðshreyfingu á borð við KFUM & KFUK á Íslandi styrki til sinnar starfsemi. Það er ekkert launungarmál, að markmið samtakanna er ekki hvað síst að boða börnum og unglingum fagnaðarerindið um frelsarann Jesú Krist. En samtökin okkar hafa mjög breiða skírskotun og vilja stuðla að heilbrigðu líferni barna og unglinga. Allt starf samtakanna miðar að því, að einstaklingurinn sé heilbrigður á líkama, sál og anda og sé heill, bæði gagnvart fagnaðarerindinu og í daglega lífinu. Séra Magnús Runólfsson, framkvæmdastjóri KFUM í Reykjavík 1935-1961, lagði einmitt mikla áherslu á þessi heilindi í boðun sinni til drengjanna í KFUM. Markmið samtakanna er að veita ungu fólki grunn til að byggja á í lífinu, með trúna á hinn krossfesta og upprisna Krist að leiðarljósi, en einnig heilindi í hverju verki, jákvæðni og bjartsýni í hans nafni.

Þúsundir Íslendinga eiga góðar minningar úr sumar- og vetrarstarfi KFUM & KFUK. Vonandi bætast margar þúsundir barna og unglinga enn í þann hóp á ókomnum árum.


Skemmtilegt framtak

Þetta finnst mér skemmtilegt framtak hjá læknanemum og örugglega til þess fallið að minnka ótta barna við að fara til læknis. Mér fannst reyndar alltaf ágætt að fara til tannlæknis, því að þá fékk ég verðlaun. Seinna hætti ég að fá verðlaun og fór að borga sjálfur fyrir tannlæknisferðirnar. Þá hættu þær nú að vera eins skemmtilegar.

En kannski gætum við guðfræðinemar tekið læknanemana okkur til fyrirmyndar og reynt að minnka fordóma fólks gagnvart kirkjunni (og þeir fordómar hefjast mjög snemma hjá börnum og unglingum, Guð veit hvaðan þeir koma) með því að hafa "bangsamessur" eða eitthvað í þá átt Smile


mbl.is Veikir bangsar fá bót meina sinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gætu samkynhneigðir menn orðið prestar í íslensku Þjóðkirkjunni?

Já, kynnu margir að svara hiklaust. Og biskupinn okkar hefur sjálfur lýst því yfir opinberlega, að hann sjái því ekkert til fyrirstöðu að vígja samkynhneigðan mann til prestsþjónustu í Þjóðkirkjunni.

Samt er þessi spurning það ritgerðarefni, sem ég basla við ásamt fleirum í Trúarbragðarétti þessa dagana. Mannréttindasáttmálar og stjórnarskrá og lög lýðveldisins Íslands eiga að veita okkur innblástur.

Það getur verið vont að skrifa ritgerð, þar sem svarið við rannsóknarspurningunni fæst á fyrstu mínútum vinnunnar, og eiga þá eftir að teygja niðurstöðuna á margar blaðsíður.


Viðburðaríkur sunnudagur

Gærdagurinn var viðburðaríkur. Hvíldardagurinn var þríheilagur hjá mér og þó hvíldist ég lítið.

Þar sem sóknarpresturinn í Grafarholtsprestakalli fer sínar eigin leiðir var æskulýðsdagurinn í Grafarholtssókn haldinn hátíðlegur í gær, viku eftir Æskulýðsdag Þjóðkirkjunnar. Hófst dagurinn því með fjölskyldumessu í Ingunnarskóla kl. 11, þar sem börnin voru í aðalhlutverki, sungu, spiluðu og léku leikrit. Var stundin býsna vel sótt miðað við leiðinlegt veður. Að messu lokinni héldum við Hlín í heimsókn til tengdaforeldra minna, sem búa í Grafarholtinu (og það meira að segja við hina virðulegu Biskupsgötu!). Þá var komið að seinni messu dagsins í Grafarholti, æskulýðsmessu kl. 16, þar sem við höfðum fengið tónlistarhóp frá KSS til að koma og leiða tónlist fyrir unglinga á ýmsum aldri. Krakkar úr unglingastarfinu höfðu málað altaristöflur út frá guðspjalli dagsins og nokkur fermingarbörn lásu úr ritgerðum sínum um það, hvernig þau ímynduðu sér endurkomu Krists.

Var þetta einnig vel heppnuð stund, sem ég þurfti því miður að yfirgefa snemma þar sem ég þurfti að fara með öðrum nemendum úr námskeiðinu Kirkjudeildafræði við guðfræðideild á samkomu hjá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu. Má lesa um þá heimsókn á síðunni hjá Jóni Ómari, bekkjarbróður mínum og stórvini.

Þurfti ég einnig að yfirgefa Fíladelfíu fyrr en aðrir þar sem sunnudagslærið hjá mömmu beið og síðan sýning hjá Íslenska dansflokknum kl. 20, en miða á hana hafði Hlín unnið á árshátíð félagsráðgjafanema á laugardagskvöldinu. Verð ég að viðurkenna, að þetta var í fyrsta skipti, sem ég sótti slíka danssýningu, og hefði ég líklega ekki haft hugmyndaflug til að panta mér miða á hana af sjálfsprottnum áhuga. En þetta reyndist hin merkasta sýning, eða öllu heldur sýningar, því að tvö dansverk voru flutt. Hið fyrra virtist mér lýsa þróun lífveru frá frumveru að mökunardansi, en hið síðara var rammpólitísk ádeila á nýtingu Íslendinga á umhverfisauðlindum sínum. Var það ekki síður athyglisvert verk en hið fyrra, en misnotkun á þjóðsöngnum okkar fór þó fyrir brjóstið á okkur skötuhjúunum.

Í Fréttablaðinu í morgun las ég svo viðtal við bekkjarbróður minn úr grunnskóla, sem gerir það gott þessa dagana sem nuddnemi og tvífari Leonardos Di Caprio. Gaman að því!


Guðsþjónusta og messa

Ég vil þakka Jóhanni Þorsteinssyni fyrir athugasemd sína um færslu mína hér að neðan um óhefðbundna útvarpsmessu fyrir viku síðan. Ég vil þó vekja athygli hans og annarra lesenda á því, að ekki er alls kostar rétt, að altarisganga þurfi að fara fram í guðsþjónustu, til að hægt sé að tala um messu. Sú hefð hefur reyndar myndast, en í Embættisgjörð Einars Sigurbjörnssonar (s. 165) segir engu að síður:

"Messa er athöfn, þar sem saman fer prédikun orðsins og þjónusta við Guðs borð. Af sögulegum ástæðum fer ekki alltaf fram altarisganga innan lútherskra kirkna. Samt sem áður hefur orðið messa festst við höfuðguðsþjónustu safnaðarins á sunnudegi, sem byggð er upp af hinum sígildu messuliðum vestrænnar messu... Óhætt er því að auglýsa messu, enda þótt altarisganga fari ekki fram."

Þá segir í Handbók kirkjunnar frá 1981, s. 7 (Til aðgæslu við messugjörð): "Messan er samfélag um orð Guðs og borð ásamt tilbeiðslu og bæn... Messa er, þótt þriðja þætti hennar sé sleppt (messa án altarisgöngu)."

Okkur Jóhanni og öðrum ætti því, héðan í frá sem hingað til, að vera óhætt að tala um fjölskyldumessur, æskulýðsmessur og ýmsar aðrar messur, jafnvel þó að ekki fari þar fram altarisganga.


Bragðgóður saltfiskur og skemmtilegt erindi í Neskirkju í hádeginu

Það er ýmislegt líf í kirkjum borgarinnar á virkum dögum - og reyndar líka um helgar, ef út í það er farið. Nú í hádeginu fór ég ásamt hópi guðfræðinema að snæða föstumáltíð, sem boðið er upp á í safnaðarheimili Neskirkju í hádeginu á föstudögum föstunnar. Það er ljúffengur saltfiskur, en í dag var hann eldaður með rúsínum og sesamfræjum og borinn fram með ofnbökuðum kartöflum, salati og góðu brauði. Því brauði hafði ég reyndar kynnst áður með þeirri súpu, sem gjarnan er á boðstólum í hádeginu þar. Súpa dagsins er jafnan bragðgóð í Neskirkju og alls ekki dýr, frekar en fiskurinn - og hluti saltfiskverðsins rennur til Hjálparstarfs kirkjunnar.

Stundin hófst með því, að viðstaddir sungu saman sjómannasálminn "Líknargjafinn þjáðra þjóða" og báðu borðbæn sr. Hallgríms, Þurfamaður ert þú, mín sál. Þá var snætt og svo drukkið kaffi og te og undir lok máltíðarinnar hlýtt á skemmtilegt og fróðlegt erindi Ólafs Hannibalssonar um þorskinn frá ýmsum hliðum. Er Ólafur þýðandi bókarinnar "Ævisaga þorsksins".


Prestarnir og þjóðfélagið

Sumir prestar eru afar duglegir við að láta til sín taka í þjóðfélaginu. Í dag heyrði ég í Síðdegisútvarpi Rásar 2 viðtal við sr. Bjarna Karlsson, sem er duglegur prestur við Laugarneskirkju og afar indæll maður. Hann hefur gert sér far um að vera sýnilegur í samfélaginu og láta rödd sína heyrast við ýmis tilefni.

Bjarni var í útvarpinu að segja frá sjálfshjálparhópi, sem hann hefur beitt sér fyrir að stofna í sinni kirkju, fyrir þá sem dvöldu á upptökuheimilum í bernsku og kunna að eiga þaðan óþægilegar minningar. Fram kom að þegar hafa 15 skráð sig í hópinn, og einnig kom fram að hann er starfræktur á forsendum kristinnar sálgæslu, en er ekki hugsaður sem meðferðarúrræði. Sr. Bjarni dvaldi sjálfur á upptökuheimili sem drengur, reyndar sem barn starfsmanna, og er málið því hugleikið. Finnst mér þetta framtak frábært og ekki frekari orða þörf um það. En fleira var rætt í útvarpinu.

Í útvarpsviðtalinu gagnrýndi sr. Bjarni stjórnvöld fyrir aðgerðaleysi í málefnum fórnarlamba úr Byrginu og Breiðuvík. Sérstaklega tiltók hann ummæli nafna síns, Bjarna Össurarsonar, yfirlæknis á vímuefnadeild Landspítalans, þessu tengd, en hann hefur sagt að ekki yrði sérstaklega reynt að hafa upp á viðkomandi einstaklingum, heldur vissu menn hvert bæri að leita, og áhersla væri lögð á að veita þeim þjónustu, sem leituðu þangað af sjálfsdáðum. Röksemdafærsla sr. Bjarna í gagnrýni sinni vakti sérstaka athygli mína, en hún var á forsendum kristins mannskilnings og kærleikshugsjónar. Séra Bjarni taldi ummæli doktors Bjarna til marks um viðhorfið í samfélaginu, þar sem hver yrði að sjá um sjálfan sig. Slíkt viðhorf stangaðist á við kristið siðferði. Að boði Krists ætti að fara og leita að þessu fólki, sem e.t.v. væri svo veikt að það gæti ekki leitað sér hjálpar sjálft.

Ekki veit ég, hvort viðhorfið ég vilji gera að mínu, séra Bjarna eða doktors Bjarna. Ég starfaði á vímuefnadeildinni síðasta sumar og er þess fullviss, að doktor Bjarni og félagar þar starfa af miklum heilindum, þó að alltaf megi eitthvað bæta. En ummæli séra Bjarna fundust mér ekki síður merkileg vegna þess, að þar steig fram á sjónarsviðið prestur með ákveðna sýn á tiltekið hitamál í þjóðfélaginu, og studdi mál sitt með greinargóðum hætti rökum kristinnar trúar. Það var líkt og rödd séra Bjarna væri orðin spámannleg og þá ekki að hætti þeirra, sem þykjast geta séð inn í framtíðina, heldur í þeirri merkingu, sem tengist spámönnum hins forna Ísraels, sem innblásnir af orði Guðs gagnrýndu misskiptingu, skeytingarleysi og ranglæti í þjóðfélagi sínu.

Í kvöldfréttum Stöðvar 2 var svo greint í alllöngu máli frá bréfi séra Axels Árnasonar, sóknarprests á Stóra-Núpi í Árnesþingi, þar sem hann gagnrýndi harðlega fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í Þjórsá. Það er svo sem ekki í frásögur færandi að prestar hafi skoðun á slíku máli og er hver frjáls til þess. Það sem er sérstakt við þessa gerð séra Axels, og reyndar mjög umdeilanlegt, er að hann tekur í bréfinu sérstaklega fram að hann riti það "í nafni embættis síns" og sem "sálnahirðir" sóknarbarna sinna í nágrenni fyrirhugaðra framkvæmda.

Ættu prestar að ganga fram fyrir skjöldu með þeim hætti, sem séra Bjarni og séra Axel hafa gert, og greina frá skoðunum sínum á viðkvæmum og umdeildum þjóðfélagsmálum, jafnvel í nafni embættis síns?

Rök með því gætu t.d. verið þau, að þar með teldu þeir sig vera að fylgja boði Krists og Ritningarinnar, og að kristileg samviska þeirra knýi þá til þess arna.

Rök á móti því gætu t.d. verið þau, að þar með væru þær að skipa sér í flokk í hitamáli, sem líklegt er til að ólíkar skoðanir séu á, einnig innan þeirra safnaðar, og það gæti valdið erfiðleikum í samskiptum sóknarbarna og prests.

Þetta er svona "eintal sálarinnar", vangaveltur mínar en án niðurstöðu! Það væri gaman að heyra, hvaða skoðun menn hafa á þessu máli.


Heimapróf að ná hámarki

Eins og lesa hefur mátt um á heimasíðu annars guðfræðinema situr nokkur hópur úr guðfræðideild með sveittan skallann þessa dagana við heimapróf í námskeiðinu Stef í guðfræði Nýja testamentisins: Dauðinn á milli Jesú og Páls. Reyndar gætu utanaðkomandi lesendur heimasíða margra guðfræðinema eflaust ímyndað sér, að í guðfræðideild læsu menn ekkert nema nýjatestamentisfræði. Og reyndar fer svo mikil vinna í þá grein guðfræðinnar að stundum hefur maður þessa tilfinningu sjálfur!

Hvað sem því líður eru spurningar heimaprófsins snúnar og kröfurnar harðar um framsetningu og efnistök. En allt tekur enda og í kvöld sé ég fram á að ljúka verkefnum heimaprófsins og skila því á morgun. Hvort ég er einhverju nær um dauðahugmyndir Jesúhefðarinnar, tilurð Kriststrúarsafnaða eða annað sem spurt var um, er svo annað mál!


Skemmtileg og óhefðbundin útvarpsmessa

Ég hef sjaldan tækifæri til að hlusta á útvarpsmessur í beinni útsendingu, þar sem sunnudagaskólinn minn í Grafarholtinu á yfirleitt tíma minn allan á sunnudagsmorgnum. En sem betur fer er Ríkisútvarpið orðið svo vel vefvætt að nú geta menn hlustað á útvarpsmessurnar á Netinu, eins og svo margt annað útvarpsefni, þegar manni hentar í svolítinn tíma eftir útsendingu.

Í þessum töluðu orðum er ég að hlusta á útvarpsguðsþjónustu dagsins, sem send var út frá Digraneskirkju. Í tilefni æskulýðsdags Þjóðkirkjunnar var messan með óhefðbundnu sniði, léttri tónlist og mikilli þátttöku barna og unglinga í söfnuðinum. Heyrðist mér æskulýðsfulltrúi kirkjunnar, Anna Arnardóttir, hafa veg og vanda af messunni ásamt sr. Magnúsi Birni Björnssyni. Hún predikaði einnig með aðstoð krakkanna og stjórnaði léttum söng ásamt undirleikurum.

Líklega eru hlustendur útvarpsguðsþjónusta flestir íhaldssamir á messuform og messusöng. Og fyrir mína parta kýs ég auðvitað helst klassíska messugjörð og sálma. En það er líka nauðsynlegt að nýta æskulýðsdaginn eins og sem flest önnur tækifæri til að muna eftir börnum og unglingum í kirkjunni okkar.

Það er ekki lítið fyrirtæki að halda utan um þátttöku svo margra barna og unglinga í útvarpsmessu. Það útheimtir án efa gríðarlega undirbúningsvinnu. En vel tókst til í morgun og vil ég óska Önnu og félögum í Digranessöfnuði til hamingju með þessa líflegu æskulýðsmessu, sem við útvarpshlustendur fengum einnig að njóta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband