Færsluflokkur: Bloggar
Miðvikudagur, 31. janúar 2007
Hvítasunnukirkjan og málefni samkynhneigðra
Hvítasunnukirkjan er stórmerkileg og afar virðingarverð kirkja. Hún er á heimsvísu miklu fjölmennari en lútherska kirkjan og í örum vexti. Ég sótti nokkrum sinnum guðsþjónustur og samverur fyrir ungt fólk í hvítasunnukirkjunni í Strasbourg. Þær voru mjög fjölmennar og líflegar, og hygg ég, að hvítasunnuhreyfingin og skyldir söfnuðir séu einu kirkjudeildirnar í Frakklandi, sem fjölgi í. Lútherska og kalvínska kirkjan í landinu eru agnarsmáar og þó að kaþólska kirkjan í Frans hafi sögulega séð verið gríðarstór og áhrifamikil, hefur hún nú um langt skeið átt erfitt uppdráttar. Ekki síst er það prestaskortur, sem hrjáir hana þar, líkt og svo víða annars staðar. Einn góðan veðurdag mun þessi risavaxna kirkja neyðast til að slaka á kröfum sínum um skírlífi presta, í því skyni að tryggja sér nægilegan fjölda klerka.
Það er ánægjulegt, að hvítasunnuhreyfingunni skuli að einhverju leyti hafa tekist það, sem hefðbundnari kirkjudeildir hafa átt erfitt með á seinni árum: að vinna Evrópubúa til fylgis við fagnaðarerindi Jesú Krists. Þó ber að athuga, að líflegar og fjölmennar samkomur segja ekki alla söguna. Mestu varðar hinn kenningarlegi grundvöllur, þ.e. hvað boðað er. Öfugt við t.d. lúthersku kirkjuna leggjast hvítasunnumenn gegn barnaskírn og skíra aðeins fullorðið fólk niðurdýfingarskírn. Þá leggja þeir mikla áherslu á helgun, þ.e. að líf og öll breytni hins kristna manns mótist sem mest af trú hans á Krist. Um síðarnefnda atriðið er ekki nema gott eitt að segja. Hið fyrrnefnda felli ég mig alls ekki við, en ætla ekki að gera það að umtalsefni hér. Niðurdýfingarskírn virðist hafa hentað sumum vel til eflingar á sínu trúarlífi.
Leiðinlegt var, að fylgjast með árásum yfirlæknisins á Vogi á dögunum á starf íslensku hvítasunnuhreyfingarinnar með áfengis- og fíkniefnasjúklingum. Ekki hef ég heyrt annað, en að þar sé unnið gott starf og af heilindum í kærleika Jesú Krists. Í vinnu minni á áfengisdeild Landspítalans síðasta sumar heyrði ég engan sjúkling, sem dvalið hafði á Hlaðgerðarkoti eða notið annarrar þjónustu Samhjálpar, hallmæla því starfi, heldur þvert á móti. Margir voru þakklátir þeim kærleika, sem þeir höfðu fundið hjá hvítasunnumönnunum, og jafnvel höfðu þeir sjálfir komist þar til trúar á frelsarann, þó að vímuefnabölið hafi ekki vikið endanlega frá þeim. En ekki tel ég heldur, að allir sjúklingar á Vogi hafi komið þaðan út vímulausir fyrir lífstíð!
Það er spurning, hvort félagsfræði trúarbragðanna myndi skilgreina hvítasunnusöfnuðina á Íslandi sem sértrúarsöfnuði (e. sects) eða sem kirkjudeildir (e. denominations). Eitt einkenna sértrúarsafnaða samkvæmt þessum kokkabókum er mjög eindregin afstaða gegn og aðgreining frá umheiminum og hegðun hans. Í einu dagblaðanna í gær mátti lesa um guðsmann nokkurn frá Bandaríkjunum, sem hafði hneigst að eigin kyni, en frelsast frá þeim "ólifnaði" með aðstoð trúarinnar. Var maðurinn í frétt blaðsins nefndur "afhommari", en hann var staddur hér á Íslandi í boði eins af íslensku hvítasunnusöfnuðunum, til að aðstoða samkynhneigða Íslendinga við að losna úr viðjum hneigða sinna. - Ég er hræddur um, að koma þessa manns til landsins verði viðkvæmu almenningsáliti á hvítasunnukirkjunni ekki til framdráttar. Með þessum hætti staðfestir hún vilja sinn til að vera sértrúarsöfnuður og lifa í spennu við hið illa samfélag í kringum sig.
Gríðarmargt jákvætt er, við starf hvítasunnukirkjunnar, eins og fram hefur komið. Ég set hins vegar spurningarmerki við þá stefnu, að hyggjast leysa menn úr viðjum ástar á eigin kyni. Í öllu falli myndi ég ekki kæra mig um, að nokkur reyndi að losa mig úr fjötrum ástar á konunni minni! En hitt kann vel að vera, að slík "afhommun" sé einhverjum kærkomin. Vonandi er það þá af þeirra eigin hvötum, en ekki vegna þess, að trúarleiðtogar þeirra hafi innrætt þeim neikvæða afstöðu til eigin tilfinninga.
Þjóðkirkjan hefur reynt að sýna ábyrga afstöðu og fara bil beggja í málefnum samkynhneigðra. Hún hefur leitast við að vera umburðarlynd og opna hommum og lesbíum faðm sinn, t.d. með svonefndum "Regnbogamessum" í samstarfi við Samtökin ´78. - En um hjónaband samkynhneigðra getur ekki verið að ræða, þrátt fyrir að margir íslenskir prestar hafi lýst vilja sínum í þá átt, nú síðast yngsti starfandi sóknarprestur landsins, sr. Hildur Eir Bolladóttir, í viðtali í Dagblaðinu um helgina. Vitanlega eiga íslenskir prestar að blessa sambúð homma og lesbía, og getur sú athöfn líkst mjög brúðkaupi gagnkynhneigðra hvað snertir form, fegurð, bæn og kærleika. En eins og staðan er í dag væri óábyrgt af Þjóðkirkjunni, hvað hjónaband samkynhneigðra snertir, að skera sig svo mjög úr flokki samstarfskirkna sinna annars staðar í heiminum, og gengi gegn grundvallarskilningi alheimskirkjunnar á hjónabandinu. Mestu skiptir, að varðveita eininguna innan Þjóðkirkjunnar, og forða henni frá illdeilum og klofningi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 29. janúar 2007
Enn um kirkju og skóla
Enn verður Vinaleiðin í Garðabæ tilefni fjölmiðlaumfjöllunar í dag. Rétt eins og í fréttinni í Blaðinu á dögunum um "trúboð" Neskirkju í Melaskóla, stígur nafnlaus móðir fram á sjónarsviðið í Fréttablaðinu í dag. Hún ber aðstandendur Vinaleiðarinnar þungum sökum, þar sem hún segir ósamræmi hafa verið í orðum sr. Jónu Hrannar Bolladóttur, sóknarprests í Garðaprestakalli og forkólfs Vinaleiðarinnar þar í bæ, og í verkum skólaprests Hofsstaðaskóla, sr. Hans Guðbergs Alfreðssonar. Hún heldur því fram, að sr. Jóna Hrönn hafi fullyrt í sjónvarpsviðtali að morgni 9. janúar sl., að aðstandendur Vinaleiðarinnar kæmu ekki inn í bekki grunnskólans, en sr. Hans Guðberg hafi sama dag komið inn í bekk dóttur hennar til að kynna þar Vinaleiðina sem valkost fyrir nemendur.
Orð sr. Jónu Hrannar úr þessu sjónvarpsviðtali eru prentuð í Fréttablaðinu í dag. Ég fæ ekki skilið þau öðruvísi en svo, að í þeim liggi, og það með réttu, að starfsemi Vinaleiðarinnar, þ.e. sálgæsla skólaprests og skóladjákna við nemendur, eigi sér ekki stað innan kennslutíma bekkjanna. Hin eiginlega starfsemi þessara vígðu þjóna er ekki sami hluturinn og að kynna þá sömu starfsemi fyrir nemendum. Nemendur geta reyndar ekki nýtt sér þjónustuna nema vita af henni, eins og liggur í augum uppi! - Auk þessa gagnrýnir hin nafnlausa móðir, að skólapresturinn hafi leyft sér að ræða við nemendurna um "sárin á sálinni," sem kristin sálgæsla gæti hugsanlega átt sinn þátt í að lækna.
Sem betur fer fær sr. Hans Guðberg tækifæri til að skýra málin í Fréttablaðinu í dag. Það gerir hann vel og fagmannlega eins og búast mátti við. Sömuleiðis er birt yfirlýsing frá sr. Jónu Hrönn um málið.
Það er grafalvarlegt mál, að borið sé aðstandendum Vinaleiðarinnar á brýn, að þeir fari með ósannindi, eða starfi af óheilindum. Verst er þó, að slíkt sé gert í skjóli nafnleysis. Eflaust er tilgangur þess, að vernda dóttur konunnar. Það eru gild rök. En ég efast um, að hetjum Íslendingasagnanna hefði þótt sérstaklega drengilegt, að vega úr launsátri.
Garðbæingum er, hygg ég, lítill sómi að því, að nafnlausar mæður í bænum vegi með aðdróttunum að starfsheiðri þeirra, sem taka sér fyrir hendur að aðstoða þau börn, sem eiga um sárt að binda í bænum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 27. janúar 2007
Um predikun, sem allir fá að lesa
Ég hljóp laglega á mig í gær.
Predikun mín er víst komin á vefinn, en er hins vegar ekki sýnileg á forsíðu hans. Til að finna hana þarf að grafa upp höfundarnafn mitt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 25. janúar 2007
Netspjall um nafngift á nýjustu kirkjunni
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 23. janúar 2007
Te
Te er vinsælasti drykkur heims að undanskildu vatni. Temenning hefur á undanförnum árum fest í sessi í æ ríkari mæli á Íslandi, og hef ég tekið eftir, að stöðugt fleiri kaffidrykkjumenn kjósa að auka neyslu tes á kostnað kaffis, ekki síst síðla dags.
Sjálfur hef ég aldrei drukkið kaffi, en hef í bráðum áratug, eða frá unglingsaldri, verið tedrykkjumaður. Oftast nær drekk ég "pokate" eins og kalla má hina fljótlegustu gerð drykkjarins, en finnst þó gott við sérstök tilefni, svo sem þegar teáhugasama gesti ber að garði, að brugga mér te úr telaufum í þartilgerðri könnu. Tebruggskönnu góða fékk ég í brúðargjöf.
Það er miður, að ekki virðast allir veitingamenn, eða aðrir, sem starfa við að bjóða upp á kaffi og meðlæti við ýmis tilefni, hafa áttað sig á auknum áhuga landans á tei. Oftar en ekki þarf ég að spyrja þann, sem ber fram kaffi á hlaðborði, hvort ekki sé á boðstólum heitt vatn og tepokar. Mæti ég þá gjarnan undrun. Hlutaðeigandi mættu hafa í huga, að það er sérstaklega gott að fá sér tebolla eftir góða máltíð, eða með vel útilátnu brauð- og kökuhlaðborði. Mér finnst teið róa magann og gefa fyllingu og notalega tilfinningu. Auk þess er te meinhollt, sér í lagi óspillt af mjólk.
Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja alla lesendur síðunnar til að skoða sinn hug, og vera ósparari á að bjóða fram te sem valkost, þegar kaffi er borið á borð, og uppörva aðra til að gera slíkt hið sama.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 22. janúar 2007
Íþróttir fyrir Alla
Þeir sem mig þekkja vita, að ég er lítill áhugamaður um íþróttir. Segja má, að viðhorf mitt til að fylgjast með íþróttakappleikjum sé svipað og viðhorf flestra Íslendinga til kirkjugöngu: Þetta er ágætt á stórhátíðum.
Viðurkennast verður, að íþróttaáhugi minn er svo lítill, að ég vissi reyndar ekki að stórhátíð væri í uppsiglingu. Það varð mér til happs að fara í mat til foreldra minna nú í kvöld, því að sjálfsögðu sátu systkini mín spennt við sjónvarpsskjáinn - og raunar mamma líka. Ég var næstum því búinn að missa af "jólunum". Það er nú ósköp gaman að vinna. - En hver er annars þessi Alli?
Íslendingar gjörsigruðu Evrópumeistaralið Frakka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 22. janúar 2007
Sveittur við "Stefið"
Á þessari önn sit ég fimm áfanga við guðfræðideild, og sótti ég í síðustu viku fyrstu fyrirlestrana í þeim öllum. Líst mér vel á námsefni og kennslufyrirkomulag á öllum stöðum enda virðast kennararnir allir áhugasamir um kennsluna.
Í því skyni að geta örugglega lokið embættisprófi í guðfræði á áætluðum tíma, vorið 2008, tek ég nú á misserinu tvo áfanga í nýjatestamentisfræðum hjá dr. Jóni Ma. Ásgeirssyni, prófessor. Raunar er það svolítill hópur nemenda, sem er í þessum sömu sporum. Kennarinn er þekktur fyrir mikinn metnað fyrir hönd nemenda sinna, og ber vitanlega að fagna því, en jafnframt að gera ráð fyrir töluverðu vinnuálagi í áföngum hans, umfram það, sem gengur og gerist. Annar þessara áfanga í Nýja testamentinu er ritskýring á Jóhannesarguðspjalli, en það guðspjall hefur lengi verið eitt af mínum uppáhaldsritum í Biblíunni. Það er því ánægjulegt að fá tækifæri til að glíma við það. Hinn áfanginn nefnist Stef í guðfræði Nýja testamentisins - Dauðinn milli Jesú og Páls, og er í honum fjallað um rannsóknir fræðimanna á ritningarstöðum, sem tengjast ólíkri túlkun ýmissa hópa í frumkristni á dauða Jesú.
Eitt verkefna okkar í "Stefinu", eins og þessi áfangi er oftast kallaður, er að skila munnlegri og skriflegri greinargerð um fræðilega ritgerð, er tengist námsefninu. Ég ákvað að leggja strax á djúp Stefsins og ríða á vaðið með þessa kynningu, og sit því þessa stundina sveittur við að ljúka við kynninguna, sem ég á að skila á morgun. Í ritgerðinni, sem ég er að glíma við, eru einmitt tekin fyrir ummæli Jesú, "Hver sem ber ekki sinn kross og fylgir mér, getur ekki verið lærisveinn minn" og færð rök fyrir aldri þeirra og tengslum við heimspekihefðir fornaldar. Þetta er eins og búast mátti við spennandi en jafnframt afar krefjandi verkefni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Föstudagur, 19. janúar 2007
Fjármálin íhuguð
Þó að guðfræðin og kirkjunnar mál séu mitt helsta hugðarefni, verður víst líka að leiða hugann að veraldlegri efnum. Flest þurfum við að reka heimili og námsfólk hefur ekki alltaf mikið á milli handanna í því skyni. Ég var því sérstaklega ánægður með að fá í kvöld tækifæri til að sækja námskeið í fjármálum heimilanna, sem KFUM & KFUK bauð félagsfólki upp á á gjafverði, eða 500 kr. fyrir 2ja klst. námskeið. Er ég næstum viss um að ég hef fengið jafngóð ef ekki betri heilræði í fjármálum á þessu hræódýra hraðnámskeiði og margir aðrir fá á fokdýrum námskeiðum í stórum fyrirlestrasölum.
Leiðbeinandi í kvöld var Sigurjón nokkur Gunnarsson, banka- og KFUM-maður. Á námskeiðinu fór hann yfir ýmsa þætti er varða heimilisrekstur og það, sem mætir manni í fjármálunum á lífsleiðinni, svo sem heimilisbókhald, lántöku og lánamöguleika, lífeyrissparnað, tryggingar og fleira. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki verslunarskólagenginn maður og kann lítið fyrir mér í bókhaldi, hvað þá í frumskógum bankaheimsins. Kom mér námskeiðið að þeim mun meira gagni. Reyndar hafði ég lúmskt gaman af því þar að auki, og þeirri hugsun skaut í kollinn á mér, hvort að ég hefði e.t.v. átt að leggja viðskiptafræðina fyrir mig í stað guðfræðinnar! Sú hugsun hvarf þó fljótt - en nauðsyn aurafræðanna er ótvíræð...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 19. janúar 2007
Fjármálin íhuguð
Þó að guðfræðin og kirkjunnar mál séu mitt helsta hugðarefni, verður víst líka að leiða hugann að veraldlegri efnum. Flest þurfum við að reka heimili og námsfólk hefur ekki alltaf mikið á milli handanna í því skyni. Ég var því sérstaklega ánægður með að fá í kvöld tækifæri til að sækja námskeið í fjármálum heimilanna, sem KFUM & KFUK bauð félagsfólki upp á á gjafverði, eða 500 kr. fyrir 2ja klst. námskeið. Er ég næstum viss um að ég hef fengið jafngóð ef ekki betri heilræði í fjármálum á þessu hræódýra hraðnámskeiði og margir aðrir fá á fokdýrum námskeiðum í stórum fyrirlestrasölum.
Leiðbeinandi í kvöld var Sigurjón nokkur Gunnarsson, banka- og KFUM-maður. Á námskeiðinu fór hann yfir ýmsa þætti er varða heimilisrekstur og það, sem mætir manni í fjármálunum á lífsleiðinni, svo sem heimilisbókhald, lántöku og lánamöguleika, lífeyrissparnað, tryggingar og fleira. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki verslunarskólagenginn maður og kann lítið fyrir mér í bókhaldi, hvað þá í frumskógum bankaheimsins. Kom mér námskeiðið að þeim mun meira gagni. Reyndar hafði ég lúmskt gaman af því þar að auki, og þeirri hugsun skaut í kollinn á mér, hvort að ég hefði e.t.v. átt að leggja viðskiptafræðina fyrir mig í stað guðfræðinnar! Sú hugsun hvarf þó fljótt - en nauðsyn aurafræðanna er ótvíræð...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 17. janúar 2007
Engan hrærigraut!
Aftur verður efni á vefnum trú.is mér tilefni bloggskrifa. Að þessu sinni var ég að lesa þennan forvitnilega pistil Péturs Björgvins Þorsteinssonar, djákna í Glerárkirkju á Akureyri. Í pistlinum, sem ber heitið Trú sannfæringunni, fjallar hann um erindi dansks sérfræðings í þvertrúarlegu samtali, Frederiksens nokkurs, í Skálholti fyrir nokkru. Það kann að koma einhverjum á óvart að Daninn telji lykilinn að því, að slíkt samtal verði árangursríkt, alls ekki felast í að menn tileinki sér gagnrýnislaust það, sem þekkilega hljómar úr trúarbrögðum annarra. Þvert á móti er leið gagnkvæms skilnings, umburðarlyndis og virðingar í þessum efnum einmitt sú, að menn séu trúir sannfæringu sinni og þekki sína eigin trúarhefð. Hafragrautur er bragðgóður, en hrærigrautur trúarbragða öllu síðri!
Ég fagna þessari niðurstöðu mjög, enda tel ég bráðnauðsynlegt að kristnir menn, líkt og fylgjendur annarra trúarbragða eða lífsskoðana, leitist við að kynnast sinni eigin trúarhefð og standa styrkum fótum í trú sinni. Fráleitt er að draga samasemmerki milli þröngsýni og þess, að hvika ekki frá sannfæringu sinni. En forsendu slíkrar sannfæringar álít ég vera annars vegar þekkingu á kenningu trúarinnar og hins vegar þjálfun í hinu trúarlega atferli, þ.e. helgihaldinu. Það er því full ástæða til að taka undir upphafsorðin í pistli Péturs Björgvins, þar sem hann vitnar til Frederiksens og segir: "Kirkjan á að koma því skýrt á framfæri hvað kristindómurinn er."
Kirkjan á ekki að vera feimin við fagnaðarerindið og að koma því á framfæri. Hún verður að vita, á hvern hún trúir - þann, sem sjálfur segist "vegurinn, sannleikurinn og lífið" (Jóh. 14.6).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)