Færsluflokkur: Bloggar
Þriðjudagur, 16. janúar 2007
Blessað æskulýðsstarfið!
Það er víst kominn miður janúar og tímabært orðið að æskulýðsstarfið, sem heita á að maður beri ábyrgð á, sé sigið í gang. Unglingadeildin hjá okkur í Grafarholti hittist í fyrsta skipti í dag eftir jólafrí og byrjar hægt en örugglega, sex áhugasamir krakkar mættu. Það má því segja að fámennt hafi verið en góðmennt! Ég er svo lánsamur að vera búinn að krækja í kvenleiðtoga til að starfa með mér í staðinn fyrir Hlín, Maríu Gunnlaugsdóttur úr guðfræðinni, sem er mjög áhugasöm og stendur sig stórvel.
Vitaskuld kemur sú dama þó ekki í stað Hlínar nema aðeins í unglingastarfinu! Og ekki get ég sagt að gaman hafi verið að kveðja eiginkonuna á Reykjavíkurflugvelli í morgun þegar hún sigldi á ný með loftskipinu austur. En fjarbúðin okkar er víst bara tímabundin svo að við látum okkur hafa hana að sinni þó að erfið sé.
Margt er líka til að gleðjast yfir í heiminum. Ég skemmti mér ágætlega við að hlusta á fjölbrautaskólana á Selfossi og í Garðabæ mætast í annarri umferð Gettu betur í útvarpinu nú fyrr í kvöld. Þetta var fyrsta viðureignin, sem ég náði að fylgjast með í ár, og fundust mér spurningar Davíðs Þórs Jónssonar nokkuð sanngjarnar á minn eigin mælikvarða, og mörgu virtust liðin líka geta svarað, þ.m.t. allt of mörgu sem ég ekki vissi. Ég get þó státað af að hafa getað svarað örfáum spurningum sem liðin flöskuðu á, t.d. um merkingu nafnsins Benedikt. Greinilegt var á svörum liðanna að latína er lítið kennd í FSu og enn minna í FG, en latneska orðið benedictus þýðir víst "blessaður". Orðið tilheyrir reyndar latneskum texta hinnar klassísku messu, en í einum af undirbúningsliðum altarisgöngunnar er einmitt sungið: "Benedictus qui venit in nomine Domini" eða: "Blessaður sé sá, sem kemur í nafni Drottins" (sbr. Lúkas 19.38).
Kannski væri reynandi, næst þegar einhver heilsar manni: "Blessaður", að svara að bragði: "Benedictus!".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Mánudagur, 15. janúar 2007
Útsölur, Hlín og Amadeus
Eiginkonan hefur verið í bænum nú um helgina vegna málstofu sem hún þurfti að sækja hér í dag og notuðum við tækifærið til að fara saman á útsölur og endurnýja svolítið í fataskápnum okkar. Ekki þyki ég sjálfur mikill smekkmaður þegar kemur að fatavali og er því gott að hafa góða konu með sér í fatakaupum. Ég var svo lánsamur að gera reyfarakaup í fötum á 70% afslætti, auk þess sem við keyptum okkur eldhússtóla með 80% afslætti á rýmingarsölu IKEA. Gaman að því.
Í gærkvöldi skelltum við skötuhjú okkur í Borgarleikhúsið og nutum góðs af getspeki móður minnar, sem vann tvo miða á verkið Amadeus í getraun leikhússins. Þau pabbi voru hins vegar búin að sjá stykkið og buðu því frumburðinum og tengdadótturinni. Amadeus er magnað leikverk og mjög dramatískt, en þar segir frá hirðtónskáldinu í Vínarborg við lok 18. aldar, Antonio Salieri, sem öfundar snilligáfu hins unga Mozarts og gerir allt sem hann getur, til að bregða fyrir hann fæti og veldur loks með óbeinum hætti dauða hans. Skemmst er frá að segja að Hilmir Snær Guðnason var stórkostlegur í hlutverki Salieris en ungir leikarar, Víðir Guðmundsson og Birgitta Birgisdóttir, stóðu sig einnig afbragðsvel í hinun aðalhlutverkum leiksins tveimur, hlutverkum Mozarts og konu hans.
Í dag hófst svo kennsla í guðfræðideild aftur eftir alllangt jólahlé. Fór misserið reyndar rólega af stað hjá mér þar sem ég er aðeins í tímum í einum áfanga á mánudögum, Kirkjudeildafræði, sem dr. Pétur Pétursson kennir. Hann var einmitt leiðbeinandi minn við BA-ritgerð mína í haust. Líst mér vel á þennan áfanga, en í honum munum við kynnast helstu kirkjudeildum, sem fulltrúa eiga í flóru íslenskra trúfélaga og heimsækja nokkra söfnuði í Reykjavík, þ.á.m. rómversk-kaþólsku kirkjuna og rússnesku rétttrúnaðaarkirkjuna. - Í fyrramálið hefst svo kennsla í tveimur námskeiðum, sem viðbúið er að muni taka dágóðan hluta af tíma mínum á önninni, þ.e. ritskýringu Jóhannesarguðspjalls og stefi í guðfræði Nýja testamentisins. Það er dr. Jón Ma. Ásgeirsson sem kennir bæði þessi námskeið og verða þau vonandi spennandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 12. janúar 2007
Vetur konungur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 11. janúar 2007
Kirkjutónlist á Íslandi
Í gær var ég svo lánsamur að vera boðið á frumsýningu nýrrar heimildamyndar Páls Steingrímssonar, þar sem fjallað er um nokkra þætti í sögu kirkjutónlistar á Íslandi. Var það pabbi "gamli" (46 ára!) sem átti tvo boðsmiða og bauð mér með sér, en meðal aðstandenda myndarinnar var einn af samstarfsmönnum hans. Myndin var tekin upp á alllöngum tíma og var aldur sögumannsins, Kristins Sigmundssonar söngvara, því æði misjafn eftir atriðum, jafnvel svo að virtist skeika um 20 árum! Vakti þetta nokkra kátínu bíógesta.
Skemmst er frá að segja að myndin er hin fróðlegasta og hafði ég ánægju af að horfa og hlusta á hana. Þó fannst mér upphafsatriði myndarinnar harla einkennilegt, en þar er líkt og efni hennar hafi breyst, úr kirkjutónlist í trúarlega tónlist almennt, þar sem þar má sjá Eddu Heiðrúnu Backman í gervi Guðríðar Þorbjarnardóttur syngja ákall til jötna, hrímþursa og annarra heiðinna vætta á Grænlandi. Þótti mér þetta atriði lítt passa inn í samhengi myndarinnar.
Myndin er einföld að gerð en engu að síður dýrmæt heimild, bæði um sögu íslenskrar kirkjutónlistar í gegnum aldirnar og um stöðu þeirra mála við upphaf 21. aldarinnar. Sýndar voru nokkrar svipmyndir frá síðari árum í seinni hluta myndarinnar, m.a. frá Kristnihátíðinni á Þingvöllum árið 2000 og úr kór- og safnaðarsöng í íslenskum kirkjum. Vakti þó furðu mína, að þar sem sýndur var hópur að söng, t.d. söfnuður Hallgrímskirkju, voru einatt sýnd löng myndskeið í nærmynd af fólki, sem alls engan þátt tók í söngnum. Þetta rýrir þó ekki á nokkurn hátt heimildargildi myndarinnar, og ánægjulegt var að kvikmyndagerðarmaðurinn skyldi að sýningu lokinni afhenda biskupi Íslands fyrir hönd Þjóðkirkjunnar frumeintak myndarinnar að gjöf, í þeirri von að hún nýtist sem flestum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 10. janúar 2007
Trúboð í skólum
Heilmikið hefur verið rætt um þetta efni í fjölmiðlum á síðustu vikum og mánuðum, ekki síst í tengslum við hina svonefndu Vinaleið, sem er afar jákvætt dæmi um samstarf kirkju og skóla í Mosfellsbæ og Garðabæ með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Í Blaðinu í dag er rætt við móður hér í mínu hverfi, Vesturbænum, og segist hún ósátt við það, sem hún kallar trúboð Neskirkju í Melaskóla.
Reyndar fæ ég alls ekki séð hvernig það getur kallast trúboð í skólum að starfsfólk Neskirkju sæki börn, sem fengið hafa samþykki foreldra til kirkjugöngu, fylgi þeim yfir götuna til samverustundar í kirkjunni og síðan til baka í skóladagvist. Trúboð er þessi starfsemi vissulega og er það vel, enda á kirkjan okkar að vera boðandi kirkja sem boðar af fremsta megni fagnaðarerindi Jesú Krists. Þar hefur kirkjan ekkert til að skammast sín fyrir. Starfsemin fer þó hvorki fram á skólatíma né innan veggja skólans og er því hugtakanotkun konunnar sérkennileg.
Þá geta vart talist góð vinnubrögð af hálfu Blaðsins að leita hvorki álits presta né æskulýðsfulltrúa Neskirkju, heldur aðeins upplýsinga á vefsíðu kirkjunnar. Þess í stað er álitsgjafi í málinu fulltrúi Siðmenntar, og kom vart á óvart að hann skyldi fara hörðum orðum um þessa starfsemi.
Hitt er annað mál, að frá upphafi hefur boðun kristninnar átt sér óvini. Ljóst er að fái þeir, sem lítt er gefið um útbreiðslu fagnaðarerindisins, ástæðu til að ergja sig á starfsemi hinnar boðandi kirkju, hlýtur hún að vera að sinna hlutverki sínu betur en ef umræðuefnin væru engin.
Í Grafarholtinu höfum við hjá kirkjunni reyndar átt gott samstarf við skólana í hverfinu og fer barna- og æskulýðsstarf okkar fram þar, utan skólatíma, og fáum við tækifæri, líkt og t.d. íþróttafélög, til að kynna þá starfsemi fyrir nemendum. Hafa samskipti við starfsfólk skólans almennt verið ánægjuleg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Miðvikudagur, 10. janúar 2007
Grasekkill í bænum
Þá er ég kominn aftur til Reykjavíkur og mál til að setja hér loksins inn fyrstu bloggfærslu ársins 2007. Á nýársdag fór ég með Hlín austur á Fljótsdalshérað, þar sem hún er byrjuð í sinni starfsþjálfun hjá Félagsþjónustunni á Egilsstöðum. Við vorum svo heppin að fá bílfar austur með vini okkar, Friðriki apótekara á Norðfirði, en þess má til gamans geta að hann á býsna glæsilegan jeppa.
Fyrir austan áttum við hjónin einstaklega ljúfa viku saman. Hlín fær að dvelja í Kirkjumiðstöðinni á Eiðum, en þaðan er aðeins 15 mínútna akstur til Egilsstaða. Aðrar eins vegalengdir keyrir fólk víst til vinnu í höfuðborginni. Ég notaði tímann meðan Hlín var í vinnunni til að lesa og fara í gönguferðir í nágrenninu. Veðrið var ljómandi gott mestalla vikuna, milt og lygnt, en fljúgandi hálka á vegum. Það er hins vegar ótrúlegt hversu miklu betur maður finnur fyrir skammdeginu í sveitinni en hér í upplýstri borginni. Var enda áberandi hversu duglegir Héraðsbúar hafa verið við að skreyta hús sín með ljósaseríum um hátíðirnar og lýsa þannig upp umhverfið.
Vel og hlýlega var tekið á móti okkur fyrir austan og þáðum við heimboð á nokkrum stöðum, m.a. hjá frændfólki Hlínar á Eiðum og hjá sóknarprestinum þar. Hjá henni rotuðum við jólin með því að snæða hamborgarhrygg og spila nýja Trivialið - en spurningarnar í því finnast reyndar níðþungar - á þrettándanum.
Við veltum því fyrir okkur þessa daga hvort við gætum hugsað okkur að búa á næstu árum á Austurlandi eða annars staðar en í Reykjavík. Það er alls ekki útilokað fremur en annað og verður framtíðin að leiða það í ljós. Hún er víst lokuð með innsiglum eins og annar guðfræðinemi hefur bent á á bloggsíðu sinni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 31. desember 2006
Dyrnar lokast
Dyrnar lokast í kvöld og aðrar opnast á miðnætti. Tíminn líður og enn eitt árið er að baki.
Árið 2006 hefur verið viðburðaríkt í mínu lífi. Ekki ætla ég að birta hér annál tilveru minnar fyrir árið, en upp úr stendur auðvitað brúðkaup okkar skötuhjúa 29. júlí síðastliðinn, geysilega eftirminnilegur dagur, skínandi gull í minningunni. Og dyrnar halda áfram að opnast, en rétt í þann mund sem ég var að setjast við tölvuna til að rifja upp mitt eigið brúðkaup hringdu góðir vinir okkar Hlínar í okkur til að segja okkur frá trúlofun sinni!
Nýtt ár er fram undan, ný tækifæri og ný fyrirheit. Þó að mitt ár hafi að mestu leyti verið markað gæfusporum og gleðibrosum eru þeir eflaust margir sem minnast gamla ársins - eða gömlu áranna - með sársauka og tárum. Gott er á tímamótum gleði jafnt sem sorgar að minnast orða Krists:
"Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist" (Jóh. 14.27).
Það gladdi mig við morgunmessu í Grafarholti í morgun að sóknarprestur skyldi gerast litúrgískur óþekktarangi og nota þessi orð Krists sem guðspjalls- og predikunartexta en ekki þann texta, sem vefur kirkjunnar gerir ráð fyrir. Þessi orð eru mér sérstaklega hjartfólgin um áramót, enda afi minn vanur að lesa hugvekju út frá þeim fyrir fjölskylduna eftir matinn á gamlárskvöld. Ég vona að ekki verði undantekning á því í kvöld, enda full ástæða til að minnast eilífra fyrirheita Krists um nærveru hans og þann frið, sem ekki er eins og friður heimsins og ekkert megnar frá okkur að taka.
Gleðilegt ár í Jesú nafni!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 30. desember 2006
Rólegir jóladagar
Eins og einhverjir hafa kannski tekið eftir hef ég verið latur við bloggið síðustu daga og fremur kosið að eyða jóladögunum með fjölskyldunni eða jólabókunum en tölvunni. En kominn er tími til að bæta hér dálítið úr.
Allmörgum síðustu daga höfum við Hlín varið með fjölskyldum annars hvors okkar eða beggja. Þó að jólaboðin séu ánægjuleg, maturinn góður og yndislegt að hitta fjölskyldurnar, er líka gott að slaka á bara tvö heima. Við vorum nú í fyrsta skipti saman á aðfangadagskvöld, hjá mínum góðu tengdaforeldrum í Grafarholtinu. Enginn ágreiningur er um matarmál þetta kvöld okkar á milli þar sem bæði erum við vön hamborgarhryggnum góða. Á jóladag og annan í jólum tóku svo við jólaboð, eitt í hvorri fjölskyldu á dag, og stóð matarlyst mín sig bara nokkuð vel undir þessu mikla álagi! Illar tungur myndu segja að ekki hafi verið við öðru að búast...
Á þriðja degi jóla hélt móðursystir mín, Hjördís Þorgeirsdóttir, upp á fimmtugsafmæli sitt með pompi og prakt. Þau hjónin eru stórtæk þegar þau taka sig til og dugði því ekkert minna en að halda 150 manna veislu í Iðnó af þessu tilefni! Var þetta skemmtilegt kvöld og ekki síst gaman að geta sungið afmælisbarninu til heiðurs með karlasöngflokki nokkrum merkum í fjölskyldunni. Foreldrar mínir komu reyndar mikið við sögu þetta kvöld því auk þess að leiða söng karlahópsins stjórnaði pabbi fjöldasöng og mamma hélt ræðu ásamt þriðju systurinni.
Fjórða í jólum fórum við svo aftur í mat til tengdó og að því loknu hittist gamli bekkurinn minn úr MR aftur eftir of langt hlé. Það er forvitnilegt að heyra, hvar bekkjarfélagarnir úr menntó eru staddir í lífinu nú þremur og hálfu ári eftir útskrift, og telja stigin í "fullorðinsleiknum" eins og ein orðaði það. Flestir eru í einhverju háskólanámi, þar af nokkrir í útlöndum, en aðrir í einhverri vinnu og jafnvel búnir að koma sér vel áfram fjárhagslega. Ég er sá eini gifti en einn er í staðfestri samvist og allmörg í sambúð - en enginn úr hópnum kominn með barn (svo vitað sé) þó að við séum öll orðin 23 ára!
Serafar hittust svo í gær hér á Eggertsgötunni til að elda og borða saman, spila og njóta samveru við árslok. Sólveig stjórnaði gerð dýrindiskjúklingaréttar og var gott að fá eitthvað létt í magann eftir ofmagn af reyktu og feitu kjöti síðustu daga (þó að ég kunni vel að meta slíkan mat í hófi!).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 26. desember 2006
Gleðileg jól!
Í dag er glatt í döprum hjörtum,
því Drottins ljóma jól.
Í niðamyrkrum nætursvörtum
upp náðar rennur sól.
Er vetrar geisar stormur stríður,
þá stendur hjá oss friðarengill blíður,
og þegar ljósið dagsins dvín,
:,: oss Drottins birta kringum skín. :,:
Oss öllum mikinn fögnuð flytur
sá friðarengill skær:
Sá Guð, er hæst á himni situr,
er hér á jörð oss nær.
Sá Guð, er ræður himni háum,
hann hvílir nú í dýrastalli lágum,
sá Guð, er öll á himins hnoss,
:,: varð hold á jörð og býr með oss. :,:
Guðs lýður, vertu' ei lengur hræddur
og lát af harmi' og sorg.
Í dag er Kristur Drottinn fæddur
í Davíðs helgu borg.
Hann fjötrum reifa fast er vafinn,
í frelsi barna Guðs svo þú sért hafinn.
Hann þína tötra tók á sig,
:,: að tign Guðs dýrðar skrýði þig. :,:
---
Ekki verður boðskapur jólahátíðarinnar skýrður betur en með þessum sálmi Valdimars Briem.
Gleðileg jól í Jesú nafni!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Laugardagur, 23. desember 2006
Á Þorláksmessu
Þá er prófum lokið og get ég ekki sagt annað en að ég sé bærilega sáttur við frammistöðu mína í þeim. Á fimmtudag gat ég loks farið að snúa mér að jólaundirbúningnum með Hlín, en einnig tókum við tvær vaktir í gær og í fyrradag á sölubás Kristniboðssambandsins í Kringlunni. Það hefur tilheyrt jólaundirbúningnum hjá mér í allmörg ár að standa þar í nokkra klukkutíma og selja jólakort, merkimiða, friðarljós Hjálparstarfs kirkjunnar o.fl. Okkur þótti reyndar ótrúlegt í ljósi veðurs seinustu daga hversu mikið seldist af friðarljósunum að þessu sinni og er greinilegt að Íslendingar láta smámuni á borð við úrhellisrigningu ekki stöðva sig í að kveikja á kertum við leiði ástvina sinna fyrir hátíðina.
Sú hefð hefur myndast fyrir þó nokkru síðan í minni fjölskyldu að soðin er skata 22. desember og síðan hangikjöt á Þorláksmessu - til að losna örugglega við skötulyktina úr húsinu fyrir jól! Hlakka ég alltaf til að borða skötu rétt fyrir jólin, þó að líklega myndi ég ekki vilja borða þennan sérstaka mat oftar en einu sinni á ári. Að þessu sinni var það faðir minn sem tók að sér umsjón skötuveislunnar og var hún því eins og gefur að skilja aðeins fyrir lengra komna, því að eingöngu var á boðstólum vel kæst skata og tindabikkja - enginn saltfiskur eins og mamma hefur yfirleitt soðið með. Tvö systkina minna borðuðu því bara kartöflur og rúgbrauð í kvöldmatnum í gær! Eiginkona mín var því miður á vakt í gærkvöldi og komst ekki í skötuna en ég fékk að taka með smávegis nesti fyrir hana. Reyndar held ég að mamma hafi verið dauðfegin að losna við þennan vel lyktandi mat út úr húsi...
Og nú er líklega ekki rétt að tefja lengur við tölvuna í bili því að lokasprettur jólahreingerningarinnar bíður!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)