Færsluflokkur: Bloggar
Miðvikudagur, 20. desember 2006
Á lokaspretti prófanna
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Þriðjudagur, 19. desember 2006
5 dagar til jóla
Ekki er veðrið upplífgandi í dag. Eftir afar fallegt og jólalegt veður um helgina tók að hlána og rigna og nú minnir gegnvot háskólalóðin fremur á skólabyrjun að hausti en jólapróf. En til áminningar um árstímann er dagurinn með alstysta móti, vart orðið bjart um hádegisleytið þegar tekur að skyggja að nýju. Svona er að búa á Íslandi og óhætt að segja að maður njóti sumarblíðunnar og sólarhringsbirtunnar betur þegar vetrarmyrkrið er um garð gengið. Eins og gjarnan hefur verið bent á eiga spádómsorð spámannsins Jesaja um fæðingu frelsarans sérlega vel við á Íslandi um þetta leyti árs: Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós (Jes. 9.2). Þessi orð tilheyra helgihaldi aðfangadagskvölds og vekja trúarvonina um ljósið frá Betlehem - hið eilífa ljós Krists. En skyldi íslenska þjóðin hafa gleymt því ljósi? Skyldu margir hér lifa í því eilífa myrkri, að þekkja ekki Krist? Eflaust er það svo. Góð kirkjusókn á Íslandi á aðventu og jólum vekur þó vonir um, að þjóðin okkar vilji leita ljóss heimsins.
Við hjónin fórum í bíó í gærkvöldi og sáum fallega mynd um atburði jólaguðspjallsins, "Nativity Story" eða Fæðingarsaga. Það var þó leiðinlegt, og kannski til marks um hve Íslendingar eru farnir að taka jólin út snemma, að sex dögum fyrir jól var þessi jólamynd komin í minnsta salinn í Háskólabíó. Mér þykir myndin að mörgu leyti trúverðug lýsing á fæðingu Jesú og aðdraganda hennar og fylgir hún að mestu frásögnum Biblíunnar. Er það mikill kostur, enda þarf þar engu við að auka né nokkuð frá að draga. Sérstaklega kunni ég vel að meta hvernig kvikmyndin forðaðist að draga upp glansmynd af þessum atburðum. Hún lýsir glímu Maríu og Jósefs við þau óvæntu straumhvörf, sem verða í lífi þeirra við boðun engilsins, hinu erfiða ferðalagi til Betlehem og frumstæðum aðstæðum þar, og einnig grimmd Heródesar og hermanna hans. Þannig fá áhorfendur að sjá mynd af andstæðunum milli illsku og drottnunarfýsni hins veraldlega valds Rómverja annars vegar, og þeim kærleiksríka mætti Krists hins vegar, sem opinberast í veikleika nýfædds barns - en er þó hið endanlega vald á himni og á jörðu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Mánudagur, 18. desember 2006
Sorglegar fréttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sunnudagur, 17. desember 2006
Þriðji sunnudagur í aðventu
Þriðji sunnudagur aðventunnar hófst hjá mér í morgun með því að hlusta á morgunandakt séra Þorbjörns Hlyns Árnasonar, prófasts á Borg á Mýrum, á Rás 1. Guðspjallstexti dagsins fjallar um Jóhannes skírara, sem boðar komu Drottins, en allir ritningartextar aðventunnar benda á einn eða annan hátt á komu Krists. Jóhannes skírari boðaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda og hvatti menn til að berjast gegn hvers konar rangsleitni og kúgun. Það er full ástæða til að hafa þann boðskap í heiðri á aðventunni og minnast þess þannig að hún er jólafasta.
Guðsþjónustu sótti ég svo í Seljakirkju kl. 14, þar sem Ólafur Jóhann Borgþórsson, eða Óli Jói, predikaði. Hann lauk guðfræðinámi í vor, starfar við barna- og æskulýðsstarf Seljakirkju og er mikill öðlingur eins og ég hef aðeins fengið að kynnast. Var predikun hans góð, um og í anda Jóhannesar skírara, og hvatti Óli Jói áheyrendur til að leggja áherslu á innihald jólanna en ekki umbúðir. - Mér þótti þó sérkennilegt að hvorki séra Þorbjörn né Óli Jói predikuðu út af þeim guðspjallstexta, sem endurskoðuð lestraskrá þjóðkirkjuvefjarins gerir ráð fyrir, þ.e. frásögn Lúkasar af Jóhannesi (Lk. 3), heldur frásögn Matteusar (Mt. 11).
Ekki má gleyma að kl. 11 í dag var glatt á hjalla í Ingunnarskóla, þar sem ég stjórnaði jólaballi sunnudagaskólans í Grafarholti. Mættu yfir 70 börn og foreldrar og skemmtu sér hið besta, ekki síst þegar jólasveinninn Bjúgnakrækir mætti á staðinn, smáfólkinu til einskærrar kátínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 16. desember 2006
Mikið að gera í samkvæmislífinu
Það var óvenjumikið að gera í samkvæmislífinu hjá okkur hjónum í gærkvöldi. Við vorum boðin í afmæli til Þóru, vinkonu okkar, sem er með okkur í KSF og í kristniboðs- og biblíuleshópnum Seröfum. Fyrst ætluðum við þó að kíkja í misserislokagleði útskriftarnema í félagsráðgjöf, en þangað var boðið í heimahús í Hafnarfirðinum kl. 19. Mættum við um kl. 19:30 og vorum fyrst á staðinn og var boðið til stofu meðan húsráðendur luku við að undirbúa veitingar. Skemmst er frá því að segja að í stofunni sátum við, ýmist tvö ein eða með húsráðanda, í hálfan annan klukkutíma. Það var sem sagt enginn annar mættur í teitið þegar við þurftum að fara í afmælið upp úr kl. 21! Ég veit ekki hvorum þótti þetta vandræðalegra, okkur eða húsráðanda, og vona að fleiri gestir hafi tekið að láta sjá sig eftir að við fórum - annars hefur aumingja maðurinn þurft að drekka alla bolluna einn! Í afmælinu var hins vegar fjöldi manns og glatt á hjalla langt fram eftir kvöldi. - Í dag er ég svo kominn á fullan sprett í lestri fyrir síðasta prófið á önninni, Trúfræði I, sem verður á fimmtudaginn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 15. desember 2006
Jólastundir í skólum Grafarholtsins
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 14. desember 2006
Gagnleg nútímapostilla
Ekki alls fyrir löngu hóf göngu sína nýr vefur á vegum Þjóðkirkjunnar, trú.is, þar sem m.a. birtast reglulega nokkrar þeirra predikana, sem fluttar eru í kirkjum landsins á sunnudögum. Ég hef verið ötull lesandi þessarar síðu á undanförnum mánuðum og það er fróðlegt að kynna sér útleggingar ólíkra kennimanna kirkjunnar á guðspjallstextum kirkjuársins.
Nú rétt í þessu var ég að lesa predikun sr. Arnar Bárðar Jónssonar, sóknarprests í Neskirkju, frá síðasta sunnudegi. Ritningarlestrar annars sunnudags aðventunnar eru helgaðir endurkomu Krists og dómi yfir mönnunum. Þetta er viðkvæmt efni, að margra dómi óþægilegt umfjöllunarefni og kann að láta undarlega í eyrum kirkjugesta nútímans. En Erni Bárði tekst sérlega vel upp í þessari predikun þar sem hann dregur upp mynd af endalokunum og hinum hinsta dómi með skýra sýn á vonarboðskapinn um fyrirgefningu syndanna og miskunn Guðs fyrir Jesúm Krist. Hann hafnar verkaréttlætingunni líkt og Lúther gamli og bendir áheyrendum sínum í því sambandi á tvö lykilorð: að trúa og að vaka. Full ástæða er til að hvetja til lesturs þessarar predikunar.
Örn Bárður er reyndar einn af mínum uppáhaldspredikurum í íslensku kirkjunni og er margt af honum að læra. Ég hef veitt því eftirtekt hvernig hann grundvallar boðun sína á biblíulegri kenningu og kristinni játningahefð en tengir fagnaðarerindið samfélagsumræðunni svo eftir er tekið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fimmtudagur, 14. desember 2006
Skemmtilegur félagsskapur
Ég hef verið svo lánsamur þrátt fyrir - og að hluta til einmitt vegna þess - að vera í miðjum próflestri, að eyða síðustu tveimur kvöldum í afar skemmtilegum félagsskap.
Á þriðjudagskvöldið sótti ég söngæfingu hjá litlum karlasönghóp í fjölskyldu minni, en þar syng ég með frændum mínum og frænkumökum undir styrkri stjórn föður míns. Hópurinn kallar sig Vini Hjördísar, en Hjördís þessi er móðursystir mín, Hjördís Þorgeirsdóttir, konrektor MS, sem verður fimmtug á þriðja í jólum og er stefnan sett á að syngja þá henni til heiðurs. Það er skemmtilegt að syngja með þessum hópi og söngæfing reyndist ágæt upplyfting í próflestri, enda fór ég þangað með góðri samvisku eftir að hafa lesið vandlega fyrir siðfræðiprófið í gærmorgun.
Í gærkvöldi hittist svo góður hópur úr námskeiðinu um Davíðssálmana heima hjá mér á Eggertsgötunni til að fara yfir nokkra sálma, svara gömlum prófspurningum og ræða almennt um námsefnið. Var það bæði gagnlegt og ánægjulegt enda þeir Grétar Hrafn, Jón Ómar, Stefán Einar og Þráinn, mínir ágætu félagar og vinir úr deildinni, allt sérlega ljúfir og skemmtilegir drengir, auk þess að vera vel lesnir í fræðunum. Nú eftir hádegið tekur svo ritskýringarprófið við og treystum við á að prófspurningarnar verði sanngjarnar hjá kennara okkar, dr. Gunnlaugi A. Jónssyni, prófessor í Gamlatestamentisfræðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 13. desember 2006
Milli prófa
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Þriðjudagur, 12. desember 2006
Ganga í próflestri
Próflestur tekur mestallan tíma minn þessa dagana, sem eðlilegt er. Yfirleitt sit ég daginn langan við lestur í V. stofu Aðalbyggingar Háskólans, þar sem guðfræðinemar hafa sitt athvarf á prófatímanum. Það er þó auðvelt að þreytast við langa setu. Því brá ég mér áðan í stuttan göngutúr um miðborgina, í því skyni að anda að mér fersku lofti. Um leið svipaðist ég um eftir jólagjöf fyrir eiginkonuna.
Ég kom við í Eymundsson í Austurstræti, en þar er alltaf notalegt að koma og líta í góðar bækur. Nokkuð margar bækur voru þar á borðum tengdar guðfræði, kristindómi og kirkjusögu og var það ánægjulegt að sjá. Gluggaði ég m.a. í bók séra Ágústs Sigurðssonar um kirkjustaði á Vestfjörðum. Þó að ég hafi nú ekki áhuga á að lesa bók af slíku tagi spjaldanna á milli var gaman að fletta í henni og skoða myndirnar. Athygli mína vakti að í umfjöllun um Staðarprestakall í Súgandafirði var sagt að því hefði þjónað í nokkur ár síra Sigríður Guðmarsdóttir sem nú sé sóknarprestur í Guðríðarkirkjuprestakalli og sókn í Grafarholti. Það er greinilegt að séra Ágúst ætlar sér að ákveða nafn óbyggðu kirkjunnar í Grafarholtshverfi áður en íbúarnir fá nokkuð sagt þar um!
Ekki stóðst ég heldur freistinguna að skoða nýútkomna bók Þórunnar Valdimarsdóttur um Matthías Jochumsson, Upp á sigurhæðir, þó að ég hafi lúmskan grun um að hún verði meðal jólagjafa minna í ár! Fletti ég strax upp á kaflanum um Þjóðhátíðina 1874, en meðal áhersluatriða í lesefni fyrir próf í Davíðssálmunum, sem ég fer í á fimmtudag, verður einmitt 90. sálmurinn. Er hinn frábæri þjóðsöngur okkar eftir séra Matthías ortur út af hluta þess sálms, sem fjallar um eilífð Guðs og hverfulleika mannsins. Það reyndist þó lítið fjallað um þjóðsönginn í kaflanum en tekið fram að við frumflutning hans við hátíðarmessu í Dómkirkjunni 2. ágúst 1874 hafi séra Matthíasi þótt hann sem hljómandi málmur og hvellandi bjalla. Þar vitnar hann til 13. kafla 1. Korintubréfs, þar sem Páll postuli lýsir með þessum orðum hversu innantómt líf kristins manns er án kærleikans. Það var reyndar skemmtileg tilviljun að í hátölurum bókabúðarinnar hljómaði í þann mund sem ég las í bók Þórunnar dægurlag með texta postulans um kærleikann!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)