Sveittur við "Stefið"

Á þessari önn sit ég fimm áfanga við guðfræðideild, og sótti ég í síðustu viku fyrstu fyrirlestrana í þeim öllum. Líst mér vel á námsefni og kennslufyrirkomulag á öllum stöðum enda virðast kennararnir allir áhugasamir um kennsluna.

Í því skyni að geta örugglega lokið embættisprófi í guðfræði á áætluðum tíma, vorið 2008, tek ég nú á misserinu tvo áfanga í nýjatestamentisfræðum hjá dr. Jóni Ma. Ásgeirssyni, prófessor. Raunar er það svolítill hópur nemenda, sem er í þessum sömu sporum. Kennarinn er þekktur fyrir mikinn metnað fyrir hönd nemenda sinna, og ber vitanlega að fagna því, en jafnframt að gera ráð fyrir töluverðu vinnuálagi í áföngum hans, umfram það, sem gengur og gerist. Annar þessara áfanga í Nýja testamentinu er ritskýring á Jóhannesarguðspjalli, en það guðspjall hefur lengi verið eitt af mínum uppáhaldsritum í Biblíunni. Það er því ánægjulegt að fá tækifæri til að glíma við það. Hinn áfanginn nefnist Stef í guðfræði Nýja testamentisins - Dauðinn milli Jesú og Páls, og er í honum fjallað um rannsóknir fræðimanna á ritningarstöðum, sem tengjast ólíkri túlkun ýmissa hópa í frumkristni á dauða Jesú.

Eitt verkefna okkar í "Stefinu", eins og þessi áfangi er oftast kallaður, er að skila munnlegri og skriflegri greinargerð um fræðilega ritgerð, er tengist námsefninu. Ég ákvað að leggja strax á djúp Stefsins og ríða á vaðið með þessa kynningu, og sit því þessa stundina sveittur við að ljúka við kynninguna, sem ég á að skila á morgun. Í ritgerðinni, sem ég er að glíma við, eru einmitt tekin fyrir ummæli Jesú, "Hver sem ber ekki sinn kross og fylgir mér, getur ekki verið lærisveinn minn" og færð rök fyrir aldri þeirra og tengslum við heimspekihefðir fornaldar. Þetta er eins og búast mátti við spennandi en jafnframt afar krefjandi verkefni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það fer þér svo vel að vera sveittur.  Allir kennararnir eru alltaf að tala um það.

Grétar (IP-tala skráð) 22.1.2007 kl. 19:27

2 identicon

Blessaður Þorgeir!

 Þér fórst kynningin vel úr hendi í morgun og settir standardinn hátt (ef maður má sleppa). Nú bíðum við þess að svitna vel og takast á við sama verkefni en ég hef sem betur fer fengið eldskírnina hjá Jóni í ritskýringunni. Nú bíður stefið.

Stefán Einar Stefánsson (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 18:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband