Trúleysinginn sem varði Þjóðkirkjuna

Athyglisverð grein eftir Bjarna Harðarson, framsóknarþingmann á Selfossi, í 24 stundum í dag: "Fasismi hinna "umburðarlyndu," þjóðin og kirkjan." Bjarni hefur aldrei farið í felur með efasemdir sínar í trúmálum og að hann standi sjálfur utan trúfélaga. Ég man eftir fallegri minningargrein sem hann skrifaði á sínum tíma við andlát heiðursmannsins séra Guðmundar Óla Ólafssonar, fv. sóknarprests í Skálholti, þar sem hann rifjaði upp orð prestsins er hann kynnti unglinginn Bjarna einhverju sinni sem "fyrrverandi sóknarbarn." Þá hafði það gerst sem Bjarni hafði kviðið, að presturinn góði hafði komist að því, að ungi maðurinn hefði skráð sig úr Þjóðkirkjunni!

Sérstaða Bjarna í afstöðunni til kirkjunnar er sú, að hann er trúleysingi, sem styður Þjóðkirkjuna, en þeir koma í það minnsta ekki margir fram opinberlega þessa dagana. Hann mótmælir þeirri hugmynd, að þjóðkirkjufyrirkomulagið stangist á við trúfrelsissjónarmið, og telur hina trúlausu verða að hafa umburðarlyndi gagnvart heimsóknum þjóðkirkjupresta (sem hann getur reyndar ekki stillt sig um að kalla ríkispresta, en því verður nú reyndar varla mótmælt á grundvelli launaseðla flestra prestanna) í skóla, sjúkrahús og fangelsi. Það geri einfaldlega engum skaða. Þetta verði "hópur manna sem kennir sig við trúleysi" eins og BH orðar það, að skilja. Hann gagnrýnir þennan hóp fyrir það, sem hann nefnir í titli "fasisma hinna "umburðarlyndu"."

Fyrirvarinn sem BH setur við þessu frelsi Þjóðkirkjunnar til athafna er þó að mér virðist tvöfaldur. Í fyrsta lagi leggur hann mikla áherslu á hófsemi og umburðarlyndi prestanna í trúmálum. Hann kærir sig ekki um neinar öfgar í trúar- eða siðferðismálum í íslenskum skólum. Það er eðlileg skoðun, og ekki erfitt fyrir presta að fylgja henni. Samkvæmt upplýsingum frá mínum sóknarpresti hér í Grafarholti, svo dæmi sé tekið, virðist boðskapur hans í leikskólaheimsóknunum einkum bundinn við að innræta börnunum kristið og gott siðferði, svo sem að koma vel fram við náungann og náttúruna, og við að kenna þeim falleg lög. Vona að hér sé rétt farið með. Markmiðið er þá ekki síst að koma á góðum tengslum kirkjunnar og barnanna/ leikskólans. En vandséð er, að kennsla í t.d. einföldum biblíusögum og bænasöngvum myndi falla utan rammans, sem BH setur í greininni um hófsemi og umburðarlyndi.

Í öðru lagi setur BH þann fyrirvara, að önnur trúfélög ættu einnig að hafa sama rétt og Þjóðkirkjan í þessum efnum "svo lengi sem heilbrigt umburðarlyndi ræður hér ríkjum." Búddamunkar og múslimaprestar ættu að njóta sama réttar og þjóðkirkjuprestarnir, óski þeir þess. Á grundvelli jafnræðisreglu er erfitt að mótmæla þessu. Það er enda svo, að vettvangur trúaruppeldis er fyrst og fremst heimilið. Foreldrar, sem vilja innræta börnum sínum tiltekna lífsskoðun, hvort sem það er guðleysi, kristni eða búddismi, gera það með margvíslegum hætti. (Og þeir, sem ekki vilja "innræta" börnum sínum neitt í þessum efnum, heldur hafa "trúarlegt hlutleysi" á heimilinu, innræta nú samt - því að börnin fá þá þau skilaboð, að trúmál skipti engu máli, séu ekki þess verð að vera rædd, hvað þá annað.) 

Markmið heimsókna presta í skólana er þá annars vegar að styðja við trúaruppeldið hjá þeim foreldrum, sem eru sama sinnis og þeir í trúarefnum, þ.e. vilja kjósa börnum sínum kristilegt uppeldi, og hins vegar að kynna trúna fyrir hinum börnunum. Komi þau börn svo heim og vilji ræða eilífðarmálin við pabba eða mömmu er þeim hægur leikur að segja við barnið: "Já, þessu trúir presturinn og margir aðrir, en við foreldrar þínir trúum því ekki." - Hverjum skyldi nú leikskólabarn taka mest mark á, undir eðlilegum kringumstæðum: foreldrum sínum eða prestinum? Og hvort barnið skyldi nú fá betri kennslu í umburðarlyndi, barnið sem aldrei heyrir rætt um trúmál, nema þá í lágum hljóðum (líkt og þau séu allsherjar tabú!) eða barnið sem heyrir um trúmál í skólanum og heima fyrir, fær vitneskju um ólíkar skoðanir manna og tækifæri til að spjalla um þær við fullorðið fólk, foreldra sína og aðra? Við skulum ekki vanmeta börn sem heimspekinga.

Þar við bætist það markmið prestanna með skólaheimsóknum, að koma á framfæri vissum, siðferðilegum skilaboðum, sem fáir ættu að geta mælt í móti, s.s. náungakærleika og umhverfisvernd, auk þess að koma á góðum tengslum milli kirkju annars vegar og barnanna/ skólans hins vegar, sem svo koma sér vel þegar t.d. áfall ríður yfir í skólanum.

Hin hliðin á skoðunum BH skv. greininni í 24 st. í dag er svo sú, að Þjóðkirkjan eigi e.t.v. að vera svo hófsöm og umburðarlynd, að hún megi aldrei láta í sér heyra. Þjóðkirkjan er vissulega stofnun í samfélaginu, sem stendur vörð um bæði siðræn og þjóðleg gildi, stendur fyrir athöfnum sem ramma inn merka atburði í lífi fólks og varðveitir íslenska menningararf. Ekkert af þessu má gleymast. - En hitt má ekki heldur gleymast, að kirkjan byggir tilveru sína á því að vera alþjóðleg hreyfing allra þeirra, sem vilja játa Jesú Krist sem sinn Drottin og frelsara, og vilja ekki þegja yfir boðskapnum um kærleika hans. "Ef þeir þegja, munu steinarnir hrópa" (Lúk 19.40).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæll Þorgeir

Trúarlegar lífsskoðanir eru æri misjafnar.  Annars vegar hefur maður hugmyndina um hina æðri veru sem í sjálfu sér er ekki sérstaklega skaðleg og svo hins vegar trúarlegar siðferðishugmyndir sem geta verið bæði góðar og slæmar.   Sú hugmynd að siðferðið sé óhugsandi án guðs eða stimpilsins "Kristið siðgæði" er sérstaklega skaðleg því hún er ósönn og elur á fordómum gagnvart fólki sem hefur aðra sannfæringu en þá trúarlegu.  Margt í siðferðisboðskap Þjóðkirkjunnar er samhljóma því besta sem veraldleg siðfræði hefur uppá að bjóða en það er það er samt nokkur munur sem ég ætla ekki að fara útí hér. 

Bjarni Harðar, eins og ýmsir aðrir sem vilja vera umfram allt vinalegir við Þjóðkirkjuna, stingur uppá því að öll trúfélög fái að senda sitt fólk í skólana.  Annað sé óverjandi út frá jafnræði.  Þú tekur undir þetta og ályktar að foreldrarnir munu hvort eð er hafa lokaorðið í þessum málum hjá börnunum.  Þetta finnst mér skammt hugsað af tveimur ástæðum.

  1. Skólar eru ekki trúboðsstofnanir.  Ef taka ætti á móti fulltrúum þeirra 30 eða svo trúfélaga sem eru skráð hérlendis í skólana færi mikill tími barnanna forgörðum í að hlusta á aðra en kennara sína.  Þetta fær fljótt út í vitleysu og þetta jafnræði kæmi verulega niður á skólastarfi.  Þetta er bæði rangt út frá markmiði skólans sem hlutlaus veraldleg menntastofnun og óraunhæft sem jafnræðissjónarmið.
  2. Það er alls ekki svo að foreldrar hafi alltaf síðasta orðið varðandi þau áhrif sem börn þeirra verða fyrir, fyrir utan veggja heimilisins.  Margir foreldrar hafa lítið vit og lítinn áhuga á lífsskoðunarmálum og trú.  Margir foreldrar gefa sér ekki tíma til að ræða þessi mál og því er alls ekki víst að hugmyndir trúfélaga sem fengju að boða sitt fyrir framan börnin í skólunum hlytu nokkra umræðu eða aftékkun á heimilunum.  Börn eru áhrifagjörn og fulltrúar hinna ýmsu trúfélaga geta verið sannfærandi í sannfæringu sinni.  Ég byði ekki í það að sumir þeirra kæmust í tæri við börn mín.  Ég vil geta sent börn í skóla vitandi að þau séu einungis frædd af kennurum sínum.

Þjóðkirkjan er með gríðarlegan húsakost og samskiptanet.  Hún hefur öll þau tækifæri sem trúfélag getur haft til að breiða út boðskap sinn.  Hún þarf ekki að troða sér í opinbera skóla einnig þar sem börn eiga að vera í friði fyrir boðun.  Íslenskur menningararfur er ekki bara Þjóðkirkjunnar.  Það er óþolandi hversu tillitlaust margt fólk Þjóðkirkjunnar er gagnvart öðrum áhrifum.  Veraldleg áhrif gegnum þau gildi sem upplýsingin færði okkur eru ekki síðri hinum trúarlegu og því ættu fulltrúar Þjóðkirkjunnar að hætta að tala eins og arfleifð kristninnar sé hin eina í landinu.  Það er alveg í lagi fyrir þá að nota orðin "ásamt" eða "meðal annarra áhrifa" einnig.  Það er enginn að segja Þjóðkirkjunn að þegja en trúlaust fólk sem vill hafa börn sín í friði frá trúboði í skólum vill að það hafi frið fyrir Þjóðkirkjunni og öðrum trúboðum þar.  Ég býst við því að kristið fólk myndi ekki kæra sig um að trúlausir rækju sérstaka starfsemi í skólum (t.d. Vinaleið trúlausra) eða kæmu í skólaheimsóknir, sérstaklega í nafni trúleysis og töluðu um það hversu frábært það væri að vera án guðs. 

Er erfitt að sjá þetta?

Svanur Sigurbjörnsson, 7.6.2008 kl. 13:18

2 Smámynd: Lutheran Dude

Eins og Þorgeir sagði í greinni þá er bara ekki um trúboð að ræða heldur nærveru. Það er tvennt ólíkt!

Lutheran Dude, 7.6.2008 kl. 15:47

3 Smámynd: Þorgeir Arason

Það er greinilegt að orðið "trúleysingi" í titli bloggfærslu vekur áhuga!

Þessi bloggsíða mín er vanalega skoðuð af um 10-15 vinum og kunningjum daglega. Það vekur því athygli mína að þessi tiltekna færsla kalli rúmri klukkustund eftir birtingu á langa athugasemd frá manni, sem mér er með öllu ókunnugur, er augsýnilega bæði vel greindur og áhugasamur um málefnið, sem til umræðu er í færslunni. Ég þakka athyglisvert innlegg hans. Það er velkomið hér eins og önnur málefnaleg innlegg. Raunar ágæt tilbreyting fyrir mig, vanalega er ekki svo mikið "kommentað" hér á síðuna!

Markmið mitt með færslunni "Trúleysinginn sem varði Þjóðkirkjuna" var fyrst og fremst að hugsa upphátt út frá grein Bjarna Harðarsonar, sem var um margt óvenjuleg - eins og höfundurinn, myndi einhver Sunnlendingurinn nú segja! Ætla mér ekki að ræða efni greinarinnar frekar, en hvet menn til að glugga í hana í 24 st. í dag (lau.).

Þorgeir Arason, 7.6.2008 kl. 16:08

4 Smámynd: Anna Valdís Guðmundsdóttir

Hæ, hæ

Ætla nú ekki að blanda mér í þessar umræður hér heldur langaði mig nú bara að þakka fyrir starf þitt í Grafarholtinu sl. vetur. Við eigum eftir að sakna þín, sérstaklega þó Rebekka Rós sem bíður eftir að sunnudagaskólinn byrji aftur. September er eilífð í burtu hjá fjögurra ára... En við komumst ekki á síðustu stundina svo við náðum ekki að segja: takk fyrir okkur og gangi þér vel á nýjum vettvangi!

Kveðja Anna Valdís, Gústi og Rebekka Rós

Anna Valdís Guðmundsdóttir, 8.6.2008 kl. 22:05

5 Smámynd: Þorgeir Arason

Hjartans þakkir fyrir hlýja kveðju sem mér þótti mjög vænt um!

Þorgeir Arason, 9.6.2008 kl. 13:21

6 identicon

Þetta er fín grein hjá Bjarna Harðar. Og þetta er ljómandi færsla hjá þér.

Kveðja 

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 9.6.2008 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband