Fjölskyldudagar

Jæja, lyftir það ekki aðeins andanum að byrja að  blogga aftur svona í sumarbyrjun?

Við hjónin erum stödd syðra þessa dagana en í dag útskrifast litla systir mín (sem er alls ekki lítil lengur) sem MR-stúdent og hlakka ég til að fagna þessum áfanga með henni, enda hygg ég að hún hafi staðið vaktina með sóma í stúdentsprófunum og hyggur nú á inntökuprófin í læknisfræðinni - slær ekki slöku við! Ekki nóg með það heldur verður hún tvítug á morgun og fór fjölskyldan út að borða á Austur-Indíafélaginu fyrr í vikunni í tilefni af því. Tvöfalt til hamingju Kristrún!

Á morgun er svo planið að keyra norður á Akureyri þar sem Lilja frænka mín, stjúpdóttir Sigga föðurbróðir, mun fermast í Akureyrarkirkju á hvítasunnudag. Miklir og gleðilegir fjölskyldudagar. Til hamingju Lilja!


Stúdent - en þó varla...

Í dag uppgötvaði ég að ég veit ekki lengur hvort ég get skilgreint mig sem háskólastúdent. Það rann ekki upp fyrir mér fyrr en einhvern tíma eftir hádegi hvaða dagur var í dag - fullveldisdagurinn og stúdentadagurinn, 1. desember. Ekki hafði mér sumsé hugkvæmst að kveikja á stúdentamessunni í morgun, sem ég hef þó verið fastagestur í síðustu árin og stundum meira að segja verið virkur þátttakandi í undirbúningi hennar. En hyggst njóta messunnar á Netinu við gott tækifæri.

Ég er nú víst enn í námi, er að ljúka kennsluréttindanámi um áramót og hefja MA-nám í guðfræði eftir áramótin. En námið mitt er ósköp bundið við að sitja yfir bókinni og við tölvuna hér heima. Ég gat fyrir tilviljun mætt í eina kennslustund í haust, en annars er lífstakturinn bundinn vinnu og nærsamfélagi. Þetta er undarlegt eftir fimm ár þar sem lífið snerist meira eða minna um háskólann. Saknaði þess óneitanlega í dag því að ekki hefði verið leiðinlegt að vera í Háskólakapellunni í morgun eða á fiskisúpukvöldi guðfræðinema nú í kvöld. Hins vegar er ég ægilega glaður að þegar heimaprófinu mínu í Unglingsárunum verður lokið á föstudaginn er námsskyldum lokið þetta misserið og hægt að hafa tíma til að njóta aðventunnar. Þetta er svona togstreita.

Óska svo stúdentum og landsmönnum öllum til hamingju með daginn.

Óska einnig foreldrum mínum og sjálfum mér til hamingju með daginn af sérstakri ástæðu, en þennan dag fyrir aldarfjórðungi, 1. desember 1983, gengu foreldrar mínir í heilagt hjónaband og litli guttinn þeirra var skírður. Hvort tveggja gerði biskupinn okkar núverandi og kann ég honum mínar bestu þakkir fyrir Smile

Viðbót 2. desember: Var að uppgötva að stúdentamessunni í gær virðist ekki hafa verið útvarpað, a.m.k. finn ég hana ekki á Netinu. Lýsi furðu minni á þessu - varla er þetta liður í sparnaðaraðgerðum Ríkisútvarpsins því ekki þarf að greiða "dagskrárgerðarfólkinu" sem sér um messuna laun!


Obama

Mikið var gaman að vakna í morgun og fá það staðfest, sem allt stefndi í þegar ég fór að sofa kl. 1 í nótt, að fyrsti blökkumaðurinn hefði verið kjörinn valdamesti maður heims. Og það ekki bara einhver blökkumaður, heldur virkilega frambær, vel gefinn og réttsýnn maður - eða það sýnist manni allavega í sjónvarpinu.

Ég fagna því í dag, með meirihluta heimsbyggðarinnar að ég hygg, að jákvæðra breytinga sé að vænta vestanhafs, aukinnar áherslu á velferð og mannréttindi og minni á stríðsrekstur.

Þessi kosningabarátta sýndi líka, að það verður stutt í að kona komist að í Hvíta húsinu.

Þessar breytingar ættu að hafa jákvæð áhrif á allt mannkyn til lengri tíma litið, og ekki síður á hvíta karlmenn en á blökkumenn og konur!


Er pabbi þinn prestur?

Á síðustu árum hef ég talsvert oft verið spurður að því, þegar fólk kemst að því ég er guðfræðingur/ í guðfræðinámi, hvort það séu prestar í fjölskyldu minni. Oftar en ekki er það gert með eftirfarandi spurningu: "Er pabbi þinn prestur?" Nú síðast í gærkvöldi spurði kirkjuvörður Egilsstaðakirkju mig að þessu.

Þetta er ekki óeðlileg spurning, og reyndar bæði áhugaverð og réttmæt. Það eru jú mörg dæmi um hálfgildings "prestafjölskyldur" á Íslandi, bæði nú og í sögunni. Prestsembætti hafa gengið í erfðir allt til þessa dags, og í þættinum Út og suður um daginn var einmitt spjallað við sveitaprest sem var þriðji ættliðurinn í sama prestakallinu. Það er í hæsta máta eðlilegt, að menn vilji vita, hvort ég tilheyri einni slíkri familíu!

En hvers vegna skyldi engum detta í hug að spyrja mig, hvort mamma mín sé prestur? Ég er nógu ungur og rúmlega það til að mamma mín gæti vel verið prestur - hún var að ljúka háskólanámi rúmum áratug eftir að fyrsta konan vígðist til prests á Íslandi. Og hér á Héraði starfa tveir kvenprestar, sem báðar eiga börn sem eru eldri en ég.

Það væri áhugavert að vita, hvort aðrir ungir guðfræðingar fengju sambærilegar spurningar, og hvort ég væri sá eini, sem saknaði spurningarinnar um mömmu. Og skyldi vera munur milli kynja í því, hvaða spurningar menn fá? Þetta er nú bara rannsóknarefni.

Fyrir áhugasama má geta þess, að pabbi minn er alls ekki prestur heldur málfræðingur - en syngur reyndar í kirkjukór.


Skuldir og reikningsskil

Næsta sunnudag, sem er 22. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, fjalla bænir og ritningarlestrar dagsins samkvæmt kirkjuárinu um skuldir og reikningsskil. Ég á að predika við kvöldmessu í Egilsstaðakirkju og hef verið að rýna í textana.

Lexían er úr síðasta kafla 1. Mósebókar, úr endalokum Jósefssögunnar. Þar er Jakob gamli dáinn og bræður Jósefs eru óttaslegnir um að hann muni nota tækifærið og hefna sín á þeim eftir fyrri misgjörðir þeirra. Svar Jósefs er einfalt: Dómurinn er Guðs - ekki okkar. "Óttist ekki því að ekki kem ég í Guðs stað. Þið ætluðuð að gera mér illt en Guð sneri því til góðs."

Pistillinn er úr Filippíbréfinu, kærleiksrík kveðja Páls til safnaðarins (1.3-11) og við fyrstu sýn virðist hann ekki beinlínis viðkomandi þema dagsins. Ég horfði lengi á textann áður en ég fann lykilinn að honum, sem er að mínum dómi í 7. versinu þar sem Páll segir: Ég hef ykkur í hjarta mínu. Merkilegt orðalag, að hafa einhvern í hjarta sínu. Og ef sjálfur Guð hefur okkur í hjarta sínu, skyldum við mennirnir þá ekki eiga að reyna að hafa hvert annað í hjarta okkar?

Guðspjallið er svo hin kunna dæmisaga Jesú um þjónana tvo, talenturnar tíu þúsund og denarana hundrað (Matt 18.21-35). Jesús notar hana til að útskýra fyrir Pétri, að hann eigi ekki að fyrirgefa náunga sínum "sjö sinnum, heldur sjötíu sinnum sjö." Húmorinn í þessu svari og svo hinni fráleitu tölfræði dæmisögunnar (Barclay segir að upphæðirnar jafngildi 2,4 milljónum punda annars vegar og fimm pundum hins vegar) er augljós - og á ótrúlega vel við á þessum tímum.

Það getur þó verið torskilið, að venjulegt fólk skuldi almættinu þvílíkt og annað eins, að því verði helst jafnað við hundruð milljóna á núvirði (ég treysti mér ekki til að framreikna pund í krónur miðað við gengisflöktið þessa dagana!). Eitt svarið við þessu gæti falist í að líta á hinar ógurlegu kröfur, sem Jesús setur fram til okkar í Matteusarguðspjalli, ekki síst í Fjallræðunni, og sjá á hvern hátt þær afhjúpa nekt okkar og ófullkomleika í augum Guðs. Og þó erum við svo undursamleg í hans augum. Þetta er merkilegt.

En sé dæmisagan um þjónana skondin, finnst mér þó enn fyndnara, að á þeim sunnudegi sem þessi merkilegi boðskapur Jesú Krists er til umfjöllunar hjá Þjóðkirkjunni, skuli forstöðumaður utanþjóðkirkjusafnaðar eins í höfuðstaðnum fá til sín gestapredikara úr hópi tónlistarmanna - frábær músikant með eflaust stórgóðan boðskap að færa söfnuðinum - en á þeim forsendum, að nú sé ekki þörf á tali um sektarkennd og syndabyrði, eins og boðun kirkjustofnunarinnar hafi einkennst af, og hafi boðun Jesú Krists alls ekki einkennst af slíku á sínum tíma. Góður þessi.


Kreppumáltíð

Þegar frúin er í handleiðslu og helgarreisu í höfuðstaðnum og ótíðindin dynja á manni úr efnahagslífinu er best að elda sér kreppumáltíð:

Steikt lambalifur, nýjar þingeyskar kartöflur, brún sósa og grænar baunir.

Kostnaður innan við 250 kr. og það verður afgangur í hádeginu á morgun.

Og svo er þetta líka mjög bragðgott.

 

Góða vonar- og bjartsýnishelgi.


Á Héraði

Nú er ég búinn að fá nóg af að hlusta á þessar stanslausu bankafréttir í sjónvarpinu (skrýtin tilfinning að vera orðinn viðskiptavinur ríkisbanka!) og ætli sé ekki best að skrifa nokkur orð hér inn á bloggið eftir býsna langt hlé. Svona að kvitta fyrir að maður sé enn á lífi.

Raunar er ég við hestaheilsu og frúin einnig. Við fluttum búferlum hingað austur á Hérað í byrjun júlí þó að ekki sé hægt að segja að við höfum haft hér fasta búsetu fyrr en við hófum okkar störf hér um miðjan ágúst, heim komin úr sumarbúðum og útlandaþvælingi. Það er best að svara þeim spurningum í eitt skipti fyrir öll sem við höfum fengið að heyra svo ótaloft á síðustu vikum:

Hvernig líkar okkur að búa á Egilsstöðum? Mjög vel.

Ætlum við að búa hér til frambúðar? Við vitum það ekki.

Auðvitað eru ýmis lífsgæði sem skerðast við að búa fjarri höfuðborgarsvæðinu. Mikilvægast er auðvitað að þar eru fjölskyldur okkar beggja og vinirnir allir með tölu - nema Heiðdís og Stefán Bogi, sem við vorum svo heppin að fluttu austur um leið og við. (Fyrir utan félagsskapinn sem er mjög vel þeginn var einkar praktískt að geta fengið einn sendibíl saman!) - Og hér skreppur maður ekki eins auðveldlega eftir því sem vantar eða mann langar í. Svo dæmi sé tekið þarf ég að keyra yfir Lagarfljótið í Fellabakarí eftir volgum rúnnstykkjum á laugardagsmorgni. En hér er bæði ágætis Bónusbúð og Kaupfélag með fínu úrvali, þrjár vídeóleigur, nokkrar hárgreiðslustofur, Subway, fatabúðir, heilsugæsla, apótek, ritfangaverslun og íþróttahús, svo sitthvað sé nefnt af því sem við hjón nýtum okkur hér. Að ógleymdri félagsþjónustu og prófastsdæmi til að vinna fyrir.

Og að sumu leyti eru það aukin lífsgæði að búa úti á landi. Biðröðin í Bónusi er talsvert styttri á Egilsstöðum en í Spönginni. Umferðarteppur á leið til vinnu eru engar og vegalengdir innanbæjar stuttar. Takturinn í samfélaginu er hægari en í bænum, sem hentar mér ágætlega Smile Og svo er hægt að leigja aðeins stærri íbúð fyrir sama pening og minni íbúð á höfuðborgarsvæðinu (þó að munurinn sé reyndar furðulítill eftir allan uppganginn hér eystra) og hægt um vik að fá gesti. Vinir, kunningjar og vandamenn eru velkomnir í heimsókn.


Góð ræða biskups

Það er löngum umhugsunarefni, hvert fjölmiðlar beina athygli sinni. Vissulega er það hálfdapurlegt, að á öðrum degi Prestastefnu sé eina fréttin, sem hægt er að finna á vefmiðlunum um stefnuna, þessi frásögn af skrípaleik Vantrúarmanna. Hann dæmir sig sjálfur. Um hann er ekki annað að segja en það, að orðin "Leyfið okkur bara að vera í friði!," sem svo oft hljóma þegar rætt er um heimsóknir kirkjunnar manna í opinberar stofnanir, gilda bara í aðra áttina að dómi Vantrúar. Þannig er nú það - eigum við ekki bara að brosa í kampinn yfir þessu eins og Hólabiskup á myndinni?

Um annað vildi ég ræða: Fyrir ári síðan loguðu fjölmiðlar í umfjöllun um Prestastefnu, en þá var þar rætt um aðkomu kirkjunnar að blessun sambúðar samkynhneigðra. Það mál er allrar athygli vert, og ég vona, að sem flestir séu sáttir við þá niðurstöðu, sem þar hefur fengist. Það er hins vegar ekki annað hægt en að spyrja, hvers vegna Prestastefnan þetta árið vekur jafnlitla fjölmiðlaathygli og raun ber vitni. Þar eru nefnilega mjög áhugaverð mál til umfjöllunar, sem snerta mun fleiri til lengri tíma litið en samvist samkynhneigðra - nefnilega svo nefnd "innri mál kirkjunnar," þ.e. flest allt það, sem lýtur að helgihaldi og athöfnum kirkjunnar í blíðu og stríðu í samfylgd sinni með fólkinu í landinu.

Ekki þykir mér síður áhugaverð setningarræða biskups á Prestastefnu. Hana má lesa eða hlusta á hér og er þeim tíma vel varið að mínum dómi, enda er ræðan einstaklega góð hvatning til starfsmanna kirkjunnar um að láta ekki deigan síga í að sinna því hlutverki kirkjunnar að biðja með og fyrir, boða og þjóna fólkinu í landinu. Sérstaka ánægju og athygli mína vakti áhersla biskups á aukna sókn í barna-, æskulýðs- og fermingarstörfum kirkjunnar. Hann ræddi um, að kirkjan yrði að axla þá ábyrgð, sem fylgdi því að bera börn landsins til skírnar, og sinna því hlutverki sínu að fræða börn og unglinga um trúna og leiða þau til þátttöku í helgihaldinu. Börn eru enginn fylgihlutur í kirkjustarfinu. Þau eru þar ÓMISSANDI - og mikið var ég glaður, að biskup skyldi brýna presta sína og djákna til þess. Það er líka sérstaklega hvetjandi fyrir okkur, sem erum í eða að ljúka guðfræðinámi, og viljum gjarnan gefa okkur að þessu málefni.


mbl.is Svarthöfði á vegum félagsmanna í Vantrú
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Trúleysinginn sem varði Þjóðkirkjuna

Athyglisverð grein eftir Bjarna Harðarson, framsóknarþingmann á Selfossi, í 24 stundum í dag: "Fasismi hinna "umburðarlyndu," þjóðin og kirkjan." Bjarni hefur aldrei farið í felur með efasemdir sínar í trúmálum og að hann standi sjálfur utan trúfélaga. Ég man eftir fallegri minningargrein sem hann skrifaði á sínum tíma við andlát heiðursmannsins séra Guðmundar Óla Ólafssonar, fv. sóknarprests í Skálholti, þar sem hann rifjaði upp orð prestsins er hann kynnti unglinginn Bjarna einhverju sinni sem "fyrrverandi sóknarbarn." Þá hafði það gerst sem Bjarni hafði kviðið, að presturinn góði hafði komist að því, að ungi maðurinn hefði skráð sig úr Þjóðkirkjunni!

Sérstaða Bjarna í afstöðunni til kirkjunnar er sú, að hann er trúleysingi, sem styður Þjóðkirkjuna, en þeir koma í það minnsta ekki margir fram opinberlega þessa dagana. Hann mótmælir þeirri hugmynd, að þjóðkirkjufyrirkomulagið stangist á við trúfrelsissjónarmið, og telur hina trúlausu verða að hafa umburðarlyndi gagnvart heimsóknum þjóðkirkjupresta (sem hann getur reyndar ekki stillt sig um að kalla ríkispresta, en því verður nú reyndar varla mótmælt á grundvelli launaseðla flestra prestanna) í skóla, sjúkrahús og fangelsi. Það geri einfaldlega engum skaða. Þetta verði "hópur manna sem kennir sig við trúleysi" eins og BH orðar það, að skilja. Hann gagnrýnir þennan hóp fyrir það, sem hann nefnir í titli "fasisma hinna "umburðarlyndu"."

Fyrirvarinn sem BH setur við þessu frelsi Þjóðkirkjunnar til athafna er þó að mér virðist tvöfaldur. Í fyrsta lagi leggur hann mikla áherslu á hófsemi og umburðarlyndi prestanna í trúmálum. Hann kærir sig ekki um neinar öfgar í trúar- eða siðferðismálum í íslenskum skólum. Það er eðlileg skoðun, og ekki erfitt fyrir presta að fylgja henni. Samkvæmt upplýsingum frá mínum sóknarpresti hér í Grafarholti, svo dæmi sé tekið, virðist boðskapur hans í leikskólaheimsóknunum einkum bundinn við að innræta börnunum kristið og gott siðferði, svo sem að koma vel fram við náungann og náttúruna, og við að kenna þeim falleg lög. Vona að hér sé rétt farið með. Markmiðið er þá ekki síst að koma á góðum tengslum kirkjunnar og barnanna/ leikskólans. En vandséð er, að kennsla í t.d. einföldum biblíusögum og bænasöngvum myndi falla utan rammans, sem BH setur í greininni um hófsemi og umburðarlyndi.

Í öðru lagi setur BH þann fyrirvara, að önnur trúfélög ættu einnig að hafa sama rétt og Þjóðkirkjan í þessum efnum "svo lengi sem heilbrigt umburðarlyndi ræður hér ríkjum." Búddamunkar og múslimaprestar ættu að njóta sama réttar og þjóðkirkjuprestarnir, óski þeir þess. Á grundvelli jafnræðisreglu er erfitt að mótmæla þessu. Það er enda svo, að vettvangur trúaruppeldis er fyrst og fremst heimilið. Foreldrar, sem vilja innræta börnum sínum tiltekna lífsskoðun, hvort sem það er guðleysi, kristni eða búddismi, gera það með margvíslegum hætti. (Og þeir, sem ekki vilja "innræta" börnum sínum neitt í þessum efnum, heldur hafa "trúarlegt hlutleysi" á heimilinu, innræta nú samt - því að börnin fá þá þau skilaboð, að trúmál skipti engu máli, séu ekki þess verð að vera rædd, hvað þá annað.) 

Markmið heimsókna presta í skólana er þá annars vegar að styðja við trúaruppeldið hjá þeim foreldrum, sem eru sama sinnis og þeir í trúarefnum, þ.e. vilja kjósa börnum sínum kristilegt uppeldi, og hins vegar að kynna trúna fyrir hinum börnunum. Komi þau börn svo heim og vilji ræða eilífðarmálin við pabba eða mömmu er þeim hægur leikur að segja við barnið: "Já, þessu trúir presturinn og margir aðrir, en við foreldrar þínir trúum því ekki." - Hverjum skyldi nú leikskólabarn taka mest mark á, undir eðlilegum kringumstæðum: foreldrum sínum eða prestinum? Og hvort barnið skyldi nú fá betri kennslu í umburðarlyndi, barnið sem aldrei heyrir rætt um trúmál, nema þá í lágum hljóðum (líkt og þau séu allsherjar tabú!) eða barnið sem heyrir um trúmál í skólanum og heima fyrir, fær vitneskju um ólíkar skoðanir manna og tækifæri til að spjalla um þær við fullorðið fólk, foreldra sína og aðra? Við skulum ekki vanmeta börn sem heimspekinga.

Þar við bætist það markmið prestanna með skólaheimsóknum, að koma á framfæri vissum, siðferðilegum skilaboðum, sem fáir ættu að geta mælt í móti, s.s. náungakærleika og umhverfisvernd, auk þess að koma á góðum tengslum milli kirkju annars vegar og barnanna/ skólans hins vegar, sem svo koma sér vel þegar t.d. áfall ríður yfir í skólanum.

Hin hliðin á skoðunum BH skv. greininni í 24 st. í dag er svo sú, að Þjóðkirkjan eigi e.t.v. að vera svo hófsöm og umburðarlynd, að hún megi aldrei láta í sér heyra. Þjóðkirkjan er vissulega stofnun í samfélaginu, sem stendur vörð um bæði siðræn og þjóðleg gildi, stendur fyrir athöfnum sem ramma inn merka atburði í lífi fólks og varðveitir íslenska menningararf. Ekkert af þessu má gleymast. - En hitt má ekki heldur gleymast, að kirkjan byggir tilveru sína á því að vera alþjóðleg hreyfing allra þeirra, sem vilja játa Jesú Krist sem sinn Drottin og frelsara, og vilja ekki þegja yfir boðskapnum um kærleika hans. "Ef þeir þegja, munu steinarnir hrópa" (Lúk 19.40).


Starfsþjálfun lokið

Það er áföngum að ljúka hjá okkur Hlín báðum. Annan laugardag útskrifumst við bæði frá guðfræðideild, ég með embættisprófið og Hlín með djáknaprófið sem hún hefur nú bætt ofan á félagsráðgjafann. Það er reyndar mjög sjaldgæft að menn fari í 30 eininga djáknanám strax að loknu öðru námi, enn sjaldgæfara að nemendur ljúki því á einum vetri og sjaldgæfast af öllu að gera þetta hvort tveggja og ljúka auk þess samhliða starfsþjálfun djáknaefna hjá kirkjunni. Frúin á því hrós skilið fyrir eljusemi sína í þessum efnum.

Daginn í dag má reyndar telja lokadag starfsþjálfunarinnar hjá okkur báðum hvað snertir kirkjuna. Við höfum verið í starfsnámi, ég undanfarin þrjú ár en Hlín aðeins nú í vetur en á miklum hraða, og lauk því hvoru tveggja í dag með lokaviðtölum okkar við biskup og umsjónarteymi þjálfunarinnar hjá okkur hvoru í sínu lagi. Það er gott að þessum áföngum sé lokið, og nú er aðeins eftir hin formlega útskrift úr starfsþjálfun kirkjunnar, þar sem biskup afhendir okkur allmörgum nemum embættisgengi okkar við hátíðlega athöfn í Dómkirkjunni 3. júlí nk.

Hvort maður er frekar búinn undir þjónustu kirkjunnar nú en þegar lagt var upp í þetta ferðalag starfsþjálfunarinnar, er erfitt um að dæma. Víst er, að þjálfunin hefur verið mikil æfing í frumkvæði, ekki síst hjá mér, þar sem skipulag starfsþjálfunar prestsefna hvílir að mínum dómi að (of) miklu leyti á herðum og frumkvæði okkar prestsefnanna sjálfra.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband