Rosa gaman að drukkna í brúðkaupum

Þegar við Hlín vorum að undirbúa brúðkaupið okkar fyrir réttum tveimur árum, hittum við að máli prestinn sem við báðum um að gifta okkur, séra Önnu Sigríði Pálsdóttur, þá prest í Grafarvogskirkju, nú í Dómkirkjunni í Reykjavík. Hún spjallaði við okkur um eitt og annað sem tengdist hjónabandinu og brúðkaupsundirbúningnum. Eitt af því, sem kom fram hjá henni (og kannski skaut hún þessu að þar sem brúðguminn var prestlingur), var að hún sagðist hafa það sem vinnureglu að gifta aldrei oftar en tvisvar sama daginn, til að geta einbeitt sér að fullu að hverri athöfn.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í biðröðinni á kassanum hjá vinum mínum Baugsfeðgunum í dag, þegar ég rak augun í Séð og heyrt (ætli þeir eigi það ekki líka orðið?). Á forsíðunni brosti fríkirkjupresturinn Hjörtur Magni við lesendum undir yfirskriftinni: "Er að drukkna í brúðkaupum" - "Tískuprestur!" Ekki stóðst ég freistinguna að líta í blaðið, þar sem fram kom að brúðkaupstæknirinn við Tjörnina væri bókaður langt fram í tímann og sumir þyrftu að gifta sig um morgun eða kvöld til að komast að hjá rétta prestinum. Var reyndar rætt um að einmitt Baugsbrúðkaupið í Fríkirkjunni í fyrra hefði orðið mörgum pörum fyrirmynd. Gaman að því.

Ekki ætla ég að fullyrða um það, hve vel Hirti Magna tekst til með athafnirnar sínar fjölmörgu. Ég hef nú bara aldrei verið í athöfn hjá honum, svo að ekki hef ég forsendur til að meta það. En ósköp var ég samt feginn að vita, að brúðkaupið okkar Hlínar var ekki tíunda athöfn prestsins okkar þá helgina, enda gaf hún sig heila og óskipta í stundina og hafði undirbúið ræðu sína af kostgæfni. Og ekki langar mig heldur að verða í framtíðinni tískupresturinn, sem er "að drukkna í brúðkaupum!" Held ég reyni frekar að temja mér reglur Önnu Sigríðar. Og hið sama hlýtur að gilda um útfarirnar. (Reyndar held ég að sé lítil hætta á að ég komist í tísku, a.m.k. er ég fulllangorður til þess að sögn eiginkonunnar...)

Sú spurning vaknar líka, hvaða tilgangi það þjónar, að sami presturinn annist svo margar athafnir. Er það í öllum tilfellum nauðsynlegt að koma til móts við óskir fólksins, sem biður um athöfnina, um prest? Nú starfa yfir 150 prestar á Íslandi - reyndar bara einn þeirra í Fríkirkjunni í Reykjavík, en kirkjan er til allrar hamingju ennþá lánuð þjóðkirkjuprestum eftir þörfum. Flestir þeirra gætu létt hér undir. Er það ekki voðalega slítandi fyrir fríkirkjuprestinn að standa í öllum þessum brúðkaupum? Eða gefur það honum svo mikið með einhverju móti, að hann vilji engri athöfn sleppa?

Óska að lokum Hirti Magna alls hins besta í brúðkaupsönnum sumarsins og öllum hans brúðhjónum bjartrar framtíðar!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lutheran Dude

ekki gleyma að presturinn okkar gaf sér tíma til að mæta í veisluna líka! Annars verð ég bara mjög fegin ef þú verður ekki tískuprestur, þá löngu (hehe) ræðurnar þínar geti verið skemmtilegar...

Lutheran Dude, 17.4.2008 kl. 08:31

2 Smámynd: Ágúst Böðvarsson

Sæll Þorgeir!!

Mér þykir fyrir því að ég skildi ekki mæta til að spila síðastliðinn sunnudag. Steingelymdi þess. En er núna hjá henn i Margréti þórhildi í góðu yfirlæti... ...þ.e. í Danaveldi að skoða köben... Veit ekki hvort prestarnir hér drukkna mikið í brúðkaupum...?

Ágúst Böðvarsson, 17.4.2008 kl. 09:02

3 Smámynd: Stefán Bogi Sveinsson

Þú átt eftir að komast í tísku, ég er sannfærður um það. Taktu þá þessar ráðleggingar þér til fyrirmyndar: http://www.baggalutur.is/frettir.php?id=2516

Stefán Bogi Sveinsson, 17.4.2008 kl. 15:35

4 Smámynd: Þorgeir Arason

Allt í góðu með síðasta sunnudag Ágúst, hefði auðvitað verið skemmtilegt en Björn Tómas reddaði þessu vel - Skemmtið þið hjónin ykkur nú vel í Baunaveldi! (Eins og mér sýnist raunar af bloggsíðunni hjá ykkur.)

Og já Stefán Bogi, ég held að þessi blaðberi verði fyrirmynd mín í lífinu...

Þorgeir Arason, 17.4.2008 kl. 21:33

5 identicon

Er hjartanlega sammála þér Þorgeir!  Fletti einmitt þessu sama blaði í biðröð við kassann í Bónus í gær.  Ég held að það séu skelfileg örlög að verða tískuprestur, ekki síst vegna þess að það sem kemst í tísku dettur einhvern tímann úr tísku og þá getur verið erfitt að lifa.  Á eins og þú dýrmætar minningar frá brúðkaupsdegi okkar hjóna um prest sem sinnti okkur af heilum hug, ekki bara þann dag, heldur hefur allar götur síðan sýnt okkur vináttu.

Ninna Sif (IP-tala skráð) 18.4.2008 kl. 12:22

6 Smámynd: Sigríður Jósefsdóttir

Mér finnst nú skipta meira máli að þekkja til prestsins, heldur en að hann sé "í tísku".  Var ekki sr. Pálmi í tísku um tíma?  Þetta kemur og fer.  Allavega tókst sr. Jakobi vel upp við að gifta okkur Ómar á sínum tíma (Stefán Bogi getur vottað það, þar sem hann var viðstaddur, en fékk ekki að vera bílstjóri), það hefur allavega lafað í rúm fimm ár, og ekki útlit fyrir neinar breytingar þar á.  Saknaði þín við samsönginn í fermingarmessunni í dag, en við tökum bara upp þráðinn á fimmtudaginn...

Sigríður Jósefsdóttir, 20.4.2008 kl. 16:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband