Fjármálin íhuguð

Þó að guðfræðin og kirkjunnar mál séu mitt helsta hugðarefni, verður víst líka að leiða hugann að veraldlegri efnum. Flest þurfum við að reka heimili og námsfólk hefur ekki alltaf mikið á milli handanna í því skyni. Ég var því sérstaklega ánægður með að fá í kvöld tækifæri til að sækja námskeið í fjármálum heimilanna, sem KFUM & KFUK bauð félagsfólki upp á á gjafverði, eða 500 kr. fyrir 2ja klst. námskeið. Er ég næstum viss um að ég hef fengið jafngóð ef ekki betri heilræði í fjármálum á þessu hræódýra hraðnámskeiði og margir aðrir fá á fokdýrum námskeiðum í stórum fyrirlestrasölum.

Leiðbeinandi í kvöld var Sigurjón nokkur Gunnarsson, banka- og KFUM-maður. Á námskeiðinu fór hann yfir ýmsa þætti er varða heimilisrekstur og það, sem mætir manni í fjármálunum á lífsleiðinni, svo sem heimilisbókhald, lántöku og lánamöguleika, lífeyrissparnað, tryggingar og fleira. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki verslunarskólagenginn maður og kann lítið fyrir mér í bókhaldi, hvað þá í frumskógum bankaheimsins. Kom mér námskeiðið að þeim mun meira gagni. Reyndar hafði ég lúmskt gaman af því þar að auki, og þeirri hugsun skaut í kollinn á mér, hvort að ég hefði e.t.v. átt að leggja viðskiptafræðina fyrir mig í stað guðfræðinnar! Sú hugsun hvarf þó fljótt - en nauðsyn aurafræðanna er ótvíræð...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorgeir Arason

Þessi pistill þótti mér svo góður, að ég taldi fulla ástæðu til að birta hann tvisvar. Hér er alls ekki um tæknileg mistök að ræða...

Þorgeir Arason, 19.1.2007 kl. 00:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband