Færsluflokkur: Bloggar
Fimmtudagur, 7. febrúar 2008
Samningar standi - eða hvað?
Það er athyglisvert að lesa ítarlega frétt á mbl.is nú í kvöld um málefni prestssetursjarðarinnar Laufáss. Svo virðist sem fjölskylda látins sóknarprests vilji ekki standa við þann samning, sem gerður var, þegar hið mjög svo óvenjulega leyfi var veitt til að reisa annað íbúðarhús á jörðinni fyrir son prestsins heitins og fjölskyldu hans. Og nú er sveitarstjórinn kominn í málin, undirskriftasöfnun í gangi til stuðnings prestssyninum og enn eitt vandræðamálið fyrir kirkjuna í uppsiglingu - að því er virðist!
Eða hvað?
Nú þekki ég alls ekki til í Laufásprestakalli eða í Eyjafirði yfir höfuð. Og séra Pétri heitnum eða hans fólki hef ég aðeins kynnst í gegnum sálmana hans góðu og fallegu, "Í bljúgri bæn," "Frá Guði er líf mitt" o.s.frv. Alltaf jafngott að syngja þá.
En mér sýnist ósköp einfaldlega, að samningur hafi verið gerður, býsna óhefðbundinn samningur raunar, sem nú þurfi að standa við. Laufás er væntanlega eign Prestssetrasjóðs fyrir hönd kirkjunnar. Tilboð Prestssetrasjóðs um að bóndinn og prestssonurinn fái að leigja jörðina til búrekstrar í fjögur ár sýnist í því ljósi vera býsna rausnarleg teygja á fyrri samningum, en ekki "óaðgengilegir afarkostir", svona utan frá séð.
Auðvitað er sárt að bústólpi þurfi að missa jörð, sem eflaust hefur verið byggð upp af dugnaði og elju. Auðvitað vilja sveitungarnir koma í veg fyrir það, og hjálpa nágranna sínum til að geta búið áfram. Það er ósköp eðlilegt. Og ekki síður er eðlilegt, að hinn dugandi bóndi, prestssonurinn í Laufási, vilja fá að vera þar áfram, í sínu húsi á sinni jörð - nema bara það, að jörðin er víst alls ekki hans...
En hvað er í raun og veru verið að fara fram á, með því að biðla til biskups um að bóndinn verði áfram í Laufási með sitt hús og sinn búskap, væntanlega um ókomna tíð? Að Laufásprestakall, sem ekki hefur verið auglýst frá andláti séra Péturs heitins, verði ekki auglýst laust til umsóknar í núverandi mynd, þ.e. með þeim réttindum og skyldum, sem því fylgir fyrir sóknarpresta að sitja prestssetursjarðir. Og að verðandi sóknarprestur í Laufási - já, raunar sóknarprestar þar um ófyrirséða framtíð - (þ.e. verði brauðið á annað borð auglýst á næstunni), þurfi að búa þar sem eins konar gestir inni á jörð bóndans! Skyldi mörgum prestum þykja það fýsilegur kostur?
Ég geri varla ráð fyrir, að Grenvíkingum sé síður hlýtt til kirkju sinnar en gengur og gerist með Íslendinga. Eigi að síður felur þetta vinarbragð við sveitungann í sér, að setja bæði Þjóðkirkjuna og ekki síst verðandi sóknarprest í Laufási í afar óþægilega stöðu, fyrir það eitt að vilja að staðið sé við samninga. Sé það raunverulegur vilji Grenvíkinga, að setja væntanlegan sóknarprest sinn í þá stöðu, sem hér hefur verið lýst, hygg ég varla að þá langi mikið að hafa prest í sinni sveit.
Það er víst oft ástæða fyrir hlutunum, og svo hlýtur einnig að vera í þessu tilfelli. Ég segi nú bara svona...
Gert að flytja húsið frá Laufási | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Sunnudagur, 3. febrúar 2008
Stúdentamót KSF og sunnudagur
Ég sótti stúdentamót KSF í Ölveri um helgina, þ.e. mótið stóð alla helgina en ég kom heim á laugardagskvöldinu til að sinna mínum góða sunnudagaskóla í morgun. Skemmst frá því að segja að þetta var afar vel heppnuð helgi í góðum hópi. Að vísu vorum við óvenjufá að þessu sinni, aðeins innan við 20, en það kom ekkert að sök, kannski andinn í hópnum hafi bara orðið innilegri fyrir vikið. (Ég var reyndar fullur af nostalgíu frá mótinu fyrir fjórum árum á sama stað, en það var víst í framhaldi af því sem við Hlín mín fórum að stinga saman nefjum
Á mótinu að þessu sinni fluttu sr. Guðni Már Harðarson skólaprestur og Hrönn Sigurðardóttir, guðfræðingur og kristniboði, ræður undir yfirskriftinni "Ég og þú, Guð." Áhersla fræðslunnar var því á hið persónulega samband einstaklingsins við Guð, kristna íhugun og bæn og hvernig það samband á að endurspeglast í samfélagi okkar við aðra menn og í kærleiksríkri framkomu. Í gærkvöldi var lofgjörðarstund með fyrirbænum og vitnisburðum og var hún indæl í alla staði. Jesús segir að Guðs ríki sé eins og fjársjóður, dýrmæt perla. Í samfélagi í Jesú nafni, hvort sem er í kirkjunni eða í félagsskap á borð við Kristilegt stúdentafélag, er eins og maður fái að upplifa brotabrot af þessum fjársjóði.
Og það er heldur enginn smáræðis fjársjóður sem ég fæ að upplifa í sunnudagaskólanum mínum í Grafarholti, yndislegir foreldrar og börn sem koma þangað, syngja saman hreyfisöngvana, hlusta á Orð Guðs og biðja saman. Alltaf jafnerfitt að koma sér fram úr rúminu fyrir kl. 9 á sunnudagsmorgnum, alltaf jafngaman að vera kominn á fullt í sunnudagaskólanum og syngja með börnunum. Eitt finnst mér sérstaklega skemmtilegt, hversu margir feður eru duglegir að koma með börn sín í sunnudagaskólann og taka virkan þátt. Ekki svo að skilja að það sé ekki gaman að mæðrunum (og ömmunum, frænkunum og stóru systrunum!) en hve feðurnir eru áberandi er eftirtektarvert og mjög ánægjulegt.
Eftir sunnudagaskólann í dag var okkur þar svo boðið í snemmbúið bolludagskaffi eftir messuna í Þórðarsveigi 3 og vorum við nokkur sem nýttum okkur það. Rjómabollan rann ljúflega niður í Þorgeirsmaga...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Fimmtudagur, 3. janúar 2008
Gleðilegt ár!
Óska öllum sem þetta lesa gleðilegs nýs árs. Hef átt ánægjulega hátíðisdaga eins og vanalega, át, bóklestur, heimsóknir til ættingja og kirkjuferðir hafa skipst á.
Ég prédikaði hér í Grafarholtinu á sunnudegi milli jóla og nýárs og set ræðuna hér í viðhengi, enda var ég bara nokkuð ánægður með hana hjá mér á endanum eftir erfiða fæðingu!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 21. desember 2007
Jólin koma
Þá eru þrír dagar til jóla og best að skella inn færslu áður en jólafrí tekur við á blogginu. Prófin eru nú afstaðin hjá okkur hjónum báðum, og jólaundirbúningurinn er í algleymingi. Búið að baka, skreyta, þrífa og kaupa jólagjafirnar. Eftir er að pakka inn, skrifa jólakortin (alveg erum við á síðasta snúningi með það!) og búa til snjókarl. Hið síðastnefnda gæti þó reynst erfitt miðað við desembertíðina í ár, en ekki útséð með að úr rætist.
Foreldrar mínir og 67% systkina minna voru hér í kvöld að þamba jólateið góða úr Te&kaffi (takk fyrir ábendinguna, Ninna!) með smákökum og sýna spilagaldra - það er yngsti bróðir minn, sem er mjög efnilegur 12 ára galdrakarl. Í ljós kom að hann og eiginkonan eiga þetta áhugamál sameiginlegt, gaman að svona uppgötvunum! Ungi töframaðurinn gat aðeins æft sig á bróður sínum með trikkin fyrir jólin, og það verður bara að segjast eins og er að hann er greinilega búinn að æfa sig vel, því að ég áttaði mig ekki á hvernig hann fór að því að gera helminginn af þessum brellum sínum!
Tengdaforeldrarnir komu svo færandi hendi hér síðla kvölds með lokaritgerðina mína heita úr prentvélunum, en prentarinn tengdafaðir minn er ritgerðareddari fjölskyldunnar. Um er að ræða fimm eininga kjörsviðsritgerð í lítúrgískum fræðum (eða litúrgískum eins og pabbi telur réttari stafsetningu) og ber heitið: Per omnia saecula saeculorum. Um kollektubæn messunnar í sögu og samtíð. Reyndar var ritgerðin að mestu leyti skrifuð í sumar, en af ýmsum ástæðum dróst lokafrágangur hennar til þessarar stundar. Það kemur þó lítið að sök enda er útskrift mín vitanlega ekki fyrirhuguð fyrr en í vor, en gott að ljúka þessu af fyrir jól. Ég verð að segja að ég er bara býsna sáttur við útkomuna á ritgerðinni, að því þó undanskildu að mér var bent á eina leiðinlega villu eftir að ritgerðin var farin í prentun. Þar sem ég hafði þó heimild fyrir viðkomandi rangfærslu, og hún skipaði mjög veigalítinn sess í efni ritgerðarinnar, ákvað ég í samráði við leiðbeinanda minn að láta það eiga sig. Ekkert rit verður nokkurn tíma fullkomið, allra síst námsritgerðir.
Svo verð ég að segja ykkur annað: Eitt er það, sem tilheyrir jólaundirbúningnum hjá mér og hefur gert í nokkur ár, en það er að taka eina til þrjár 3ja klst. vaktir, eftir því sem hentar á hverju ári, á sölubás Kristniboðssambandsins (SÍK) í Kringlunni. Þar hafa verið til sölu jólakort, pakkamiðar og fleira í þeim dúr til styrktar kristniboðinu og svo friðarljós Hjálparstarfs kirkjunnar, sem margir nota um jólin, t.d. til að setja á leiði ástvina. Þetta er afar mikilvæg tekjulind fyrir kristniboðsstarfið, enda er það að langmestu leyti fjármagnað með frjálsum framlögum einstaklinga og félagasamtaka og með fjáröflunarleiðum á borð við þessa. Og ekki hefur sambandið þurft að borga neitt fyrir söluplássið, heldur verið upp á náð og miskunn Kringluyfirvalda komið. - Ég verð að viðurkenna, að þessar söluvaktir hef ég ekki tekið af sjálfboðaliðahugsjóninni fyrir kristniboðið einni saman, heldur ekki síður mér til skemmtunar, enda hittir maður gjarnan fjölda fólks við þetta tækifæri, sem er í jólainnkaupunum í Kringlunni, jafnvel fólk sem maður hefur ekki hitt lengi. Það er líka gaman að sitja við rólegan sölubás og njóta jólastemmningarinnar og fylgjast með mannlífinu - fólki á hlaupum í jólaundirbúningnum.
En ég fékk leiðinlegt símtal fyrr í vikunni. Þar var á ferðinni hún Kristín Bjarnadóttir kristniboði og stórvinkona okkar, að segja mér að því miður þyrfti ég ekki að mæta í Kringluna á söluvaktina í dag, því að SÍK hefði verið tilkynnt með örstuttum fyrirvara, að nú þyrfti sambandið að víkja með sinn bás úr Kringlunni síðustu vikuna fyrir jól. Atlantsolía þyrfti að komast að þessa vikuna, og sá aðili greiddi stórfé fyrir plássið. Raunar buðust kristniboðarnir þá víst til að greiða til að halda plássinu, en því var hafnað, enda líklega vitað mál að frjáls félagasamtök sem ynnu að líknarstarfi gætu aldrei greitt viðlíka upphæðir og bensínsala eða annað gróðafyrirtæki. - Og þegar við skruppum í Kringluna í dag í verslunarleiðangur (við hefðum nú kannski átt að fara annað í mótmælaskyni, en svona er maður nú lítið samkvæmur sjálfum sér!) tók ég eftir, að Karmelsysturnar úr klaustrinu í Hafnarfirði, sem ávallt hafa haft sinn sölubás nálægt Hagkaupum með kertum, krossum og öðrum varningi sem þær vinna sjálfar, voru einnig horfnar á braut. Ekkert pláss fyrir nunnur eða kristniboða í Kringlunni síðustu vikuna fyrir eina af þremur aðalhátíðum kristinna manna. Merkilegt mál.
Hvað sem því líður gleðst ég eins og ævinlega yfir því að fá að fagna heilögum jólum. Drottinn kemur til okkar í auðmýkt í manninum Jesú Kristi, og hann kemur í hjarta okkar allra, sem við honum viljum taka. Guð gefi okkur öllum náð til þess á helgri hátíð. Gleðileg jól!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Föstudagur, 14. desember 2007
Illviðri á aðventu
Mikið var ég feginn þegar ég fór á fætur í morgun, að hafa verið búinn að ákveða að vera heima í dag! Þvílíkt ofviðri, í þriðja skiptið á örfáum dögum. Í síðasta stormi fauk glæný ábreiða af grillinu okkar veg allra veraldar svo að ég hef haft sérstakar gætur á grillinu sjálfu í dag, að það fjúki ekki hreinlega í burtu í heilu lagi. Líklega forðar þungur gaskúturinn því frekar en aumar festingarnar mínar...
Ég notaði óveðursdaginn í smákökubakstur og tókst bara ágætlega upp, svona miðað við að eiga hvorki hrærivél né þeytara að minnsta kosti. Að vísu er spurning hvort maður hefði mikið að gera við hrærivélina en þeytari gæti komið sér vel, ef einhver skyldi eiga eftir að kaupa jólagjöf fyrir okkur hjúin! Svo er velkomið að líta við í Þórðarsveignum og smakka á afrakstri smákökubakstursins.
Annars hélt ég upp á að hafa lokið fyrra prófinu mínu í þessari desembertörn á þriðjudagskvöldið síðasta með því að sækja sameiginlegan aðventufund aðaldeilda KFUM og KFUK að Holtavegi 28. Ræðumaður þar var dr. Sigurbjörn Einarsson biskup, en það er löngu orðin hefð að hann flytji hugvekju á aðventufundi félagsins. Þó hef ég ekki sjálfur farið áður á slíkan fund og hafa prófannir yfirleitt haldið mér uppteknum, en taldi tímabært að bæta úr málum að þessu sinni. Ekki brást biskupnum bogalistin frekar en fyrri daginn og var unun að hlýða á hugleiðingu hans ásamt vel á annað hundrað öðrum gestum. Lagði biskup út af orðum Davíðssálms 119: "Þitt orð er lampi fóta minna og ljós á vegi mínum" og orðum Jesú í Lúkasarguðspjalli (11.28): "Sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það." Fjallaði því biskup um þann fjársjóð, sem Biblían geymir, í tilefni af útkomu nýrrar þýðingar, og hve dýrmætt er að höndla þann fjársjóð í lífi sínu. Þegar við opnum Biblíuna með einlægt hjarta er nefnilega hin sanna aðventa - koma Drottins (adventus Domini) - því að þá kemur Kristur til okkar í orði sínu, eins og biskup komst svo stórkostlega að orði. Biskup sagði einnig áhrifamikla sögu af konu í einu fyrrum austantjaldslandanna, sem var framarlega í kommúnistaflokknum í landi sínu. Hún þurfti þó vegna rannsókna í málvísindum að lesa Biblíuna á gotnesku, en slitur úr heilagri ritningu er það eina sem varðveitt er á þeirri fornu tungu, þökk sé trúboðsbiskupnum Wulfila frá 4. öld. Í lestrinum lukust orð Ritningarinnar upp fyrir konunni með þeim hætti, að hún fór að laumast í kirkju og þrá samfélagið við Drottin. Slíkt samfélag var henni, kommúnistanum sjálfum, forboðinn ávöxtur og dauðasök ef upp hefði komist, þó að sagan hafi reyndar endað vel, þ.e. með hruni kommúnismans skömmu eftir að konan komst til trúar.
Skyldi sá dagur koma í okkar landi, að við þurfum að laumast í kirkju, læðupokast til að lesa Guðs orð, því að kristnu nafni og áhrifum fagnaðarerindisins hefur verið útrýmt úr samfélagi okkar? Það er ekki óhugsandi. - Gleymum því ekki, að trúfrelsi er fyrst og fremst frelsi til trúar, frelsi til að iðka trú sína, tilbiðja Guð sinn og lesa helgar bækur, og einnig til að ræða um trúarsannfæringu sína við hvern þann, sem hlusta vill. Guð gefi okkur alla daga slíkt frelsi á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Þriðjudagur, 11. desember 2007
Próflestur og aðventustúss
Þá er próflesturinn í algleymingi. Reyndar fer ég aðeins í tvö próf í þessum desembermánuði, sem er nokkuð undarlegt miðað við það sem maður á að venjast. Ástæðan er sú að allir áfangarnir mínir þrír í kennslufræðinni í haust hafa verið próflausir, auk þess sem einum af þremur áföngum mínum í guðfræðinni lauk með heimaprófi um mánaðamótin, eins og ég sagði víst frá hér að neðan.
Fyrra prófið mitt verður nú eftir hádegið, í Guðfræði Gamla testamentisins hjá dr. Gunnlaugi A. Jónssyni. Það hefur verið einkar skemmtilegt að geta sökkt sér ofan í kennslubókina, "Theology of the Old Testament," mikinn doðrant eftir Walter Brueggemann, en kennari fullyrðir að hún sé ein af þremur helstu ritum um efnið á 20. öld, og sú nýjasta. Sérstaklega finnst mér gaman að sjá hvernig höfundur setur upp spennuna milli hinnar "hörðu" guðsmyndar Gamla testamentisins (hinn heilagi faðir, konungur, alvaldur, jafnvel hefnigjarn) og svo hinnar "mjúku" (Guð sem móðir og hirðir, ástríðufullur kærleikur Guðs á þjóð sinni og sköpun o.s.frv.). Þetta er merkilegt í ljósi Ritningarinnar allrar, en Brueggemann dregur einmitt enga dul á, að hann er kristinn maður, sem vill lesa Gamla testamentið sem hluta af Biblíunni allri.
Seinna prófið mitt verður svo reyndar ekki fyrr en eftir rúma viku, í áfanganum Trúfræði III þann 19. desember nk. Því bregður svo óvenjulega við, að næstu þrjá daga ætla ég að hvíla mig frá skólanum - sem ekki hefur gerst áður um miðjan desember svo ég muni eftir - áður en ég sný mér að því að lesa trúfræðina. Hef ég á næstu dögum hugsað mér að baka tvær smákökusortir, dunda við jólahreingerningu, sinna ýmsu í tengslum við vinnuna og taka tvær stuttar vaktir á sölubás Kristniboðssambandsins í Kringlunni. (Allir að drífa sig þangað að kaupa jólakort og friðarljós til styrktar kristniboði og hjálparstarfi!) Það er alltaf jólalegt að standa þar á básnum í nokkra tíma og eiginlega orðinn ómissandi hluti aðventunnar hjá mér, þó að áður hafi ég ekki gert það fyrr en eftir próf eða um 20. des.
Jæja, það er best að koma sér að lokasprettinum í lestrinum...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 7. desember 2007
Raddheilsa kennara - alvarlegt vandamál
Í Fréttablaðinu 1. nóvember sl. birtist aðsend grein eftir dr. Valdísi Ingibjörgu Jónsdóttur raddmeinafræðing. Ekki lét þessi grein mikið yfir sér, og ekki hefur efni hennar fengið mikla athygli í fjölmiðlum. Eigi að síður er hér rætt um mjög alvarlegt vandamál, raddheilsu kennara, undir yfirskrifitinni: "Erum við að brjóta lög á leikskólum?".
Engum dylst, hve mikilvægt það er fyrir kennara að fara vel með þetta eitt helsta atvinnutæki sitt, röddina. Þetta gildir um kennara á öllum skólastigum, þó að raddmeinafræðingurinn beini kastljósi sínu að leikskólastiginu í þessari grein, og talar um að hávaði á leikskólum fari allt of oft yfir þolanleg mörk, og það bitni á raddheilsu kennaranna. Þó virðist löggjöfin ekki viðurkenna, að hér sé raunverulegur vandi á ferðinni, eins og dr. Valdís segir: "Vandamálið er að engin löggjöf virðist vera til varðandi hávaða sem fylgir starfsemi í menntastofnunum." Þetta er undarlegt, enda hygg ég, að þó að auðvitað séu það fyrst og fremst lág laun sem hreki kennara úr starfi, séu erfiðar vinnuaðstæður á borð við mikinn hávaða og að þurfa að reyna mjög á röddina í starfi, ekki til þess fallnar að hvetja kennara til að halda áfram störfum sínum. Þar að auki hafa raddmein kennara auðvitað mjög slæm áhrif á skólastarfið sjálft vegna t.d. aukinnar hættu á veikindafjarvistum og að kennarar geti ekki beitt sér til fulls vegna raddmeina.Tölurnar, sem dr. Valdís nefnir í grein sinni úr leikskólum á Akureyri, eru líka sláandi. Aðeins það að fimmtungur leikskólakennara hafi farið í veikindaleyfi vegna raddmissis er ótrúlegt. Það merkir, að séu 1000 leikskólakennarar starfandi á Íslandi (og ég hef ekki hugmynd um, hvort sú tala fer nærri lagi, líklega er hún í lægri kantinum) þá hafa 200 leikskólakennarar verið frá vinnu um lengri eða skemmri tíma vegna raddmeina.
Skyldu þá ekki vera nein úrræði til úrbóta? Greinarhöfundur nefnir sérstaklega endurskoðun á hönnun skólabygginga, og virðist það nú vera raunin a.m.k. að einhverju leyti með nýjar skólabyggingar að hugað sé að þessu. Þannig er Ingunnarskólinn nýi í Grafarholtinu að nokkru hannaður með þetta í huga, en hann var vígður haustið 2005. Salur þess skóla er t.d. mjög hljóðgleypandi.
Þá nefnir greinarhöfundur einnig skólastefnu, sem eflaust skiptir miklu máli og er kannski úrslitaatriði. Hvaða aðstæður í skólastarfinu eru það, sem leiða til þess að börnin valda svo miklum hávaða? Greinarhöfundur kastar í lokin fram þeirri staðreynd, að í Hjallastefnuleikskólunum mælist mun lægri hávaði en í almennum leikskólum, en útfærir það ekki nánar. Það verður heldur ekki gert hér, enda hef ég auðvitað enga töfralausn í þessu efni.
Hins vegar finnst mér þetta mikilvægt umhugsunarefni, og e.t.v. mætti bæta við hugmyndirnar til úrbóta, að í einum og einum skóla eru kennarar byrjaðir að nota hljóðkerfi við kennslu. Í sunnudagaskólanum hjá mér - reyndar í salnum góða í Ingunnarskóla! - ber ég sjálfur alltaf þráðlausan hljóðnema, og finnst mér það mjög þægilegt, enda þarf ég þá ekki að beita röddinni öðruvísi en vanalega, þó að ég sé að tala við stóran hóp fólks og jafnvel ólæti í sumum börnunum. Auk þess gleypir salurinn hávaðann í börnunum svo vel, að enginn þarf að hafa áhyggjur af honum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Laugardagur, 1. desember 2007
Blóðappelsínute yfir heimaprófi í aðventubyrjun
Nú er árstími heitra drykkja genginn í garð. Mín fyrstu kynni af áfengum drykkjum - svo heitið geti - voru einmitt á jólamörkuðunum í Strasbourg fyrir réttum þremur árum, þegar ilmurinn af heitu jólavíni, Gluckwein, var of lokkandi til að íslenski guðfræðistúdentinn gæti staðist freistinguna í nöprum kuldanum. Já, kuldinn var kaldur á meginlandinu en jólavínið heitt og gott!
En eins og þeir sem mig þekkja, vita líklega flestir, er minn eftirlætisdrykkur te. Þessa stundina sit ég við tölvuna, nýbúinn að hella upp á blóðappelsínute, sem faðir minn færði mér er hann kom frá Englandi í gær eftir rannsóknarleyfi haustsins í Jórvík - hinni eldri, ef svo má segja. Teið er einkar bragðgott, ferskt og hæfilega blandað af sætu og súru.
Það kemur sér reyndar venju fremur vel núna að hafa dálæti á heitu tei, því að ég er með skæða hálsbólgu, sem hefur rænt mig röddinni síðan á fimmtudag. Man vart eftir að hafa áður þjáðst af svo óskaplegum raddmeinum! Hygg þó að ég sé aðeins byrjaður að skána, en hef gengið svo frá málum, að ég þurfi ekki að syngja neitt í sunnudagaskólanum á morgun! Það voru mér reyndar vonbrigði, að geta vegna slakrar raddheilsu ekki sungið í tenórnum í stúdentamessu í Háskólakapellunni í morgun, á fullveldisdaginn, eins og ég hafði áformað - en ég hlustaði vel og naut söngsins og messunnar allrar. Stefán Einar stórvinur minn, skólafélagi og bróðir í Kristi prédikaði skörulega og tæpitungulaust, eins og hans var von og vísa. Messan er aðgengileg á Netinu, ég hvet fólk til að hlusta. Kannski get ég búið til tengil á messuna - já hver veit!
Það er víst líka hægt að lesa prédikunina á heimasíðu Stefáns Einars sjálfs.
Annars er heimapróf í fullum gangi nú yfir helgina í áfanganum Siðfræði stríðs og friðar. Það gengur nú bara þokkalega að klambra saman svörum við spurningunum og ætti því að vera lokið fyrir tilsettan skilafrest á mánudaginn. Verst að geta ekki notið fyrsta sunnudags í aðventu sem skyldi fyrir prófönnunum, en það er svo sem gömul saga og ný eftir tæpan áratug í menntaskóla- og háskólanámi!
Fyrsti í aðventu er alltaf í miklu uppáhaldi hjá mér, það er svo sérstaklega hátíðlegur dagur, fyrsti dagur kirkjuársins og aðventukvöld í mörgum kirkjum. Síðan eru margir sérlega fallegir sálmar sem tengjast þessum degi. Hér er mitt uppáhald fyrir þennan dag. Þessi sálmur útleggur guðspjall dagsins, um innreið Drottins Jesú í Jerúsalem á pálmasunnudag (Matteus 21), með því að tengja það við efni úr Davíðssálmi 24. Það er við hæfi að íhuga tengsl Gamla og Nýja testamentisins á þeim degi, sem við kveikjum á Spádómakertinu á aðventukransinum. Kollekta fyrsta sunnudags aðventunnar er líka alveg sérstök:
Vér biðjum þig, Drottinn: Kom í krafti þínum og veit oss vernd, að vér leysumst úr þeim háska sem yfir oss vofir vegna synda vorra og frelsumst fyrir hjálpræði þitt, því að þú lifir og ríkir með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda. - Amen.
Bloggar | Breytt 2.12.2007 kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Miðvikudagur, 28. nóvember 2007
Fermingarferðir og skólafrí - undarleg tilmæli
Það er ánægjulegt að sjá á frétt mbl.is og 24ra stunda í dag, að skólastjórnendur taka við sér og sjá, hve undarleg tilmæli menntamálaráðuneytis eru, um að meina grunnskólum að gefa nemendum í áttunda bekk leyfi í 1-2 daga til að sækja fermingarfræðsluferðalag.
Foreldrar sækja um leyfi fyrir börn sín í örfáa daga til ýmissa hluta, eins og skólastjóri Flúðaskóla nefnir: til að fara í réttir, á skemmtanir, til útlanda o.s.frv. Ekki má gleyma, að foreldrar sækja gjarnan um frí til að börnin geti sinnt íþróttaiðkun sinni - farið í keppnisferðalög. Foreldrar ættu því einnig að geta sótt um leyfi í svo stuttan tíma til að barnið þeirra, sem hyggst fermast í Þjóðkirkjunni, sæki ferðalag kirkjunnar.
Það kann að koma einhverjum nemendum illa að missa úr skólanum í 1-2 daga, eigi þeir erfitt uppdráttar í náminu. Foreldrar verða að vega slíkt og meta hverju sinni. Skólanum ber algjör skylda til að sinna þeim nemendum, sem ekki kjósa að sækja um leyfi til fermingarferðalaga, hvort sem er af námslegum ástæðum,eða vegna þess að þeir hyggjast ekki fermast í Þjóðkirkjunni. Frí fyrir hluta barnanna, jafnvel fyrir 95% nemendahópsins, jafngildir ekki fríi fyrir kennarana. Þetta vita allir, helst af öllu kennararnir, en það er ein samviskusamasta stétt landsins að mínu áliti.
Ef til vill er það, líkt og skólastjóri Flúðaskóla bendir á, sú staðreynd, að prestar hafa gjarnan sótt um leyfi fyrir heilu fermingarhópana sína, í stað þess að hvert foreldri sæki um fyrir sitt barn, sem fer fyrir brjóstið á mönnum. Vilji menn meira skrifræði inni í skólunum, í því fólgið að afgreiða e.t.v. 60-80 leyfisumsóknir, í stað einnar fyrir allan hópinn, verður svo að vera. Kirkjan heldur sínu striki.
Kirkjan fær ekki skólafrí | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
Sunnudagur, 11. nóvember 2007
Ánægjuleg fjölskyldustund í söfnuðinum
Með ánægjulegri verka minna við að halda utan um barnastarf Grafarholtssóknar, er þátttaka í reglulegum fjölskylduguðsþjónustum safnaðarins. Þar mætast messan og sunnudagaskólinn í stórri fjölskylduhátíð, en ein slík var einmitt haldin í Ingunnarskóla nú kl. 11 í morgun. Í skólanum fer barnastarf safnaðarins að mestu fram, en alls er safnaðarstarfið nú dreift á þrjá staði í hverfinu, og mun svo verða uns kirkja hefur verið vígð í Grafarholti. Fjölskyldumessurnar eru skemmtilegar að því leyti til, að þar mætast ýmsir aldurshópar, allt frá alyngstu börnunum til eldra fólksins í hverfinu.
Oft syngur Barnakór Grafarholtssóknar í fjölskyldumessum og var svo einnig í morgun. Raunar voru börnin í kórnum aðeins átta í morgun enda settu veikindi, íþróttamót og fleira strik í reikninginn. Það kom þó ekkert að sök enda sungu börnin undurfallega lög frá ýmsum heimshornum í tilefni af Kristniboðsdegi Þjóðkirkjunnar. Í tilefni af þeim degi sýndi ég einnig myndir frá Keníu og sagði frá lífinu þar og ekki síst kristniboðs- og hjálparstarfinu. Samskot voru tekin til starfsins og hygg ég að nokkur þúsund krónur hafi safnast. Þá var einnig skírn í upphafi messunnar, og var það í fyrsta skipti sem skírt er við fjölskyldumessu í Grafarholtssókn. Kirkjuleysið veldur því, að langflestir foreldrar í Grafarholti kjósa enn um sinn að láta skíra börn sín heima við. En ánægjulegt var, að lítill drengur væri skírður á sjálfan Kristniboðsdaginn. Svo fengu allir kristniboðsblað eða -almanak með sér heim, og djús og kex á leiðinni út.
Aðsóknin í barnastarfið og guðsþjónusturnar er auðvitað upp og ofan í Grafarholtinu eins og annars staðar. En messan í morgun var býsna fjölmenn, og lögðu um 120 manns, börn og fullorðnir samtals, leið sína í kirkju. Höfðum við gert ráð fyrir talsvert færra fólki og máttu ég og meðhjálpararnir tveir hafa hraðar hendur við að bera aukastóla yfir í aðalsal skólans, þar sem messan var haldin. Gleðilegt vandamál!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)