Færsluflokkur: Bloggar
Miðvikudagur, 7. nóvember 2007
Guðmundur Jónsson söngvari látinn
Guðmundur Jónsson, óperusöngvari og söngkennari, lést í byrjun vikunnar, 87 ára að aldri.
Andlátsfréttir koma auðvitað aldrei beinlínis á óvart þegar fólk hefur náð vissum aldri. Eigi að síður brá mér við að lesa andlátsfregn Guðmundar, þar sem hann var ótrúlega hress svo langt fram á níræðisaldurinn. Ekki mun ég rekja æviágrip hans hér á síðunni, það gera fjölmiðlarnir. En mig langar til að rifja upp kynni mín af Guðmundi í örfáum orðum, þar sem ég minnist þeirra með svo mikilli hlýju.
Guðmundur var kennari minn í söng við Söngskólann í Reykjavík veturinn 2003-2004, en það var jafnframt fyrsta árið mitt í guðfræði. Guðmundur var hrifinn af því að nemandi hans væri að lesa til prests og lagði á það ríka áherslu við mig, að ég tileinkaði mér skýran framburð í lestri og söng fyrir prestsstarfið. Kennsla hans var reyndar öll hin dásamlegasta. Ég söng, hann hlustaði, lék laglínuna á píanóið, sagði mér að slaka á, hugsa um textann, tók í nefið, söng svo fyrir mig, sýndi mér hvernig ætti að fara að. Rödd hans var ótrúleg, guðdómleg. Mér er til efs að ég muni nokkurn tíma heyra manneskju á níræðisaldri syngja jafnvel og Guðmundur söng fyrir mig í tímunum okkar. Röddin var slök og hjálpaði nemandanum að slaka á, njóta tónlistarinnar, syngja af list. Enn meiru varðaði þó hlýjan í röddinni, hlýja mannsins. Hann lét sig varða um nemendur sína, var ekki sáttur ef ég æfði mig ekki heima, tók ekki framförum. Tímarnir áttu að vera hálftími en Guðmundi fannst ekki taka því að kenna styttra en í 45 mínútur og yfirleitt urðu tímarnir 60 mínútur! Hann taldi mínúturnar ekkert eftir sér.
Svo fékk hann heiðursverðlaun Íslensku tónlistarverðlaunanna 2006. Mikið gladdist ég yfir því. Þá söng hann fyrir salinn - kom öllum á óvart með röddinni sinni sem aldrei virtist verða hrum. Söng hann ekki: "Þitt lof, ó, Drottinn"? Mig minnir það. - Lof sé Drottni, sem gaf okkur Guðmund Jónsson, röddina hans og hlýjuna hans, Drottni sem hann nú syngur lof til eilífðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Miðvikudagur, 31. október 2007
Sögukennari í eina viku
Í upphafi vikunnar var komið að því, sem ég hafði í sannleika sagt dauðkviðið alla önnina: að takast á við æfingakennsluna í sögu í MH í tengslum við kennsluréttindanámið mitt. Ég hafði fram að því setið prúður aftast í kennslustofunni í áhorfinu, sem kallað er, og fylgst með hinum vönu kennurum miðla misáhugasömum nemendunum af visku sinni. Í mesta lagi hafði ég gengið á milli nemenda og athugað hvernig þeim gengi með verkefni þegar kennarinn brá sér að ná í kaffibolla, það ku vera aðstoðarkennsla svo nefnd.
En nú varð ekki lengur undan vikist að spreyta sig á því að vera sjálfur sögukennarinn í eina viku. Raunar kenni ég aðeins fjóra tíma, 2x60 mínútur og 2x95 mínútur, þar sem tímarnir eru svo langir í MH, en kenna á alls í 8x40 mínútur. Það var þó ekki það að standa frammi fyrir hópnum eða leggja fyrir verkefnin sem olli mér kvíðboga, þar sem ég er nokk vanur því hlutverki úr fermingarfræðslunni, sumarbúðunum o.s.frv. Það sem helst gerði mig óöruggan var að ég, guðfræðingurinn, ætti nú að vera orðinn sérfræðingur í sagnfræði! Við úr guðfræðinni erum semsagt sett í sögukennsluna og reyndar hef ég mikinn áhuga á sögu og fannst alls ekki leiðinlegt að takast á við þetta verkefni. Auðvitað hefði ég helst kosið að kenna efni sem tengdist kirkju- eða trúarbragðasögunni. En um það var ekki að ræða, ég fékk úthlutað köflum um stórveldin í Evrópu á 19. öld og fyrri heimsstyrjöldina í framhaldinu, og ekki var um annað að ræða en að bretta upp ermar og hefja lesturinn.
Nú er ég hálfnaður með kvótann, búinn að kenna einum bekk mitt prógramm og á annan eftir. Og þó að ég segi sjálfur frá hefur þetta bara gengið býsna vel hjá mér, krakkarnir eru líka ósköp ljúfir, hlusta vel og vinna verkefnin eins og englar. Í dag brá ég líka á leik í lokin, skipti bekknum í tvennt og stjórnaði spurningakeppni úr efni vikunnar. Ekki var annað að sjá en að þau kynnu vel að meta þetta og voru bara ágætlega að sér eftir tímana hjá mér - nema spurningarnar mínar hafi verið allt of léttar...
Það er ólíklegt að kennsla í framhaldsskólum verði mitt ævistarf. En maður skyldi aldrei segja aldrei, í raun hygg ég að kennsla ætti alls ekki illa við mig og ég kann vel við mig í MH. En breyta þyrfti námskrá framhaldsskóla verulega áður en ég gæti farið að kenna mitt sérsvið þar. Í öllu falli er ég mjög ánægður með að hafa drifið mig í kennsluréttindanámið og með að ganga í gegnum reynslu æfingakennslunnar - þó ekki væri nema til að læra eitthvað nýtt í sagnfræði!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Sunnudagur, 28. október 2007
Óværan
Óværan hefur tekið sig upp að nýju.
Enn einu sinni hefur verið lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um að sala á léttvíni og bjór verði gerð frjáls. Og enn einu sinni getur maður ekki annað en vonað og beðið, að frumvarpið verði fellt á þinginu, og helst aldrei lagt fram aftur.
Hvers vegna skyldi ég vera mótfallinn þessu frumvarpi? Vissulega eru bæði fullgild og skiljanleg meðrök með því: Ríkisvaldið ætti ekki að hafa afskipti af áfengisneyslu sjálfráða þegna, aukið aðgengi að áfengi auðveldar mörgum lífið og hugsanlegt er að samkeppnin skili sér í lægra vöruverði til neytenda.
Ef til vill eru meðrökin fleiri. En þessum rökum hef ég í það minnsta velt fyrir mér, metið þau og léttvæg fundin gegn mótrökunum, sem að mínum dómi eru fern:
1) Miklar líkur eru til þess, að aukið aðgengi að áfengi leiði til aukinnar áfengisneyslu meðal Íslendinga. Vissulega er hér ekki um að ræða sterk vín. En gleymum því ekki, að vel má verða drukkinn af léttum vínum og bjór, og auðveldlega má ánetjast neyslu þessara drykkja og missa tökin á henni með skelfilegum afleiðingum fyrir eigið líf og manns nánustu. Takmarkað aðgengi að áfengi hefur því óneitanlega forvarnargildi. Og oftar en ekki leiðir unglingadrykkja á bjór og léttvíni til neyslu sterkari drykkja og jafnvel annarra, enn hættulegri vímugjafa.
2) Hvað þá snertir, sem nú þegar hafa orðið drykkjusýki að bráð, hygg ég að neysla þeirra muni síst minnka við aukið aðgengi að áfengum drykkjum. Alkóhólismi hefur nú þegar eyðilagt líf of margra íslenskra fjölskyldna. Ekki mun þeim fækka við þessa breytingu, fremur þar á móti. Áfengi er fíkniefni, af sumum talið með þeim hættulegri, vegna þess hve lymskulegt það er. Bjór er ánetjandi vímugjafi, því skyldi enginn gleyma.
3) Aðeins þeir mega samkvæmt landslögum kaupa áfenga drykki, sem náð hafa 20 ára aldri. Hvort endurskoða eigi þau lög og miða við annað aldursmark er annað mál. En jafnvel þó að áfengiskaupaaldurinn yrði miðaður við sjálfræðisaldurinn, hefði mikill meirihluti afgreiðslufólks í íslenskum matvöruverslunum alls ekki aldur til að kaupa áfengi. Ættu þau börn nú að byrja að afgreiða áfengi til viðskiptavina? Ekki þykir mér líklegt að hægt yrði að fylgja því eftir, að aðeins tvítugir starfsmenn og eldri afgreiddu áfengi - eða þá yrðu matvöruverslanirnar í það minnsta að taka sín starfsmannamál rækilega í gegn. Og þaðan af síður þykir mér líklegt, að 13-14 ára afgreiðslumenn myndu neita jafnöldrum sínum, hvað þá eldri viðskiptavinum, 15-17 ára, um áfengiskaup. Skyldu alþingismennirnir, sem lagt hafa fram umrætt frumvarp, hafa fundið lausn á þessu máli? Þá lausn þætti mér gaman að sjá.
4) Að síðustu má velta því fyrir sér, hvort almennir neytendur, það eru þeir sem bæði hafa áfengiskaupaaldur og fullt vald á áfengisneyslu sinni, væru nokkru bættari með því að geta keypt rauðvínið sitt og bjórinn í Bónusi eða 10-11, fremur en í vínbúðum ÁTVR. Myndi áfengisverðið lækka við það? Í dagblaði á dögunum taldi framkvæmdastjóri Bónuss það ósennilegt, þar sem álögur á áfengi væru þegar svo miklar, að svigrúm til verðstríðs væri lítið sem ekkert. Auðvitað verða verslanirnar að fá eitthvað fyrir sinn snúð, ef það stæði ekki til væru þær væntanlega ekki fremstar í flokki þrýstihópa fyrir þessu frumvarpi. - Jú, vissulega væri auðveldara að hlaupa út í búð á öllum tímum - jafnvel allan sólarhringinn - ef vantaði eina og eina flösku. En eru það mikils verðir hagsmunir á við það, að hætta á aukna drykkjusýki meðal landans? Og yrði þjónustan söm hjá afgreiðslukrökkum Bónuss líkt og hjá sérfræðingum Vínbúðanna?
Ég tel einsýnt, að hér sé meiri hagsmunum kastað fyrir minni. Og ekki er það heilbrigðisráðherranum til sóma, að styðja við bakið á málefninu, þó að vitanlega hafi staða hans verið einkennileg.
ÉG MÓTMÆLI ÞESSU FRUMVARPI - MÓTMÆLI AUKNU AÐGENGI AÐ ÁFENGI Á ÍSLANDI!
ALÞINGISMENN: FELLIÐ ÞETTA LJÓTA FRUMVARP OG KOMIÐ ALDREI MEÐ ÞAÐ AFTUR!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Föstudagur, 19. október 2007
Orð kvöldsins
Fyrir nokkrum vikum veitti ég því eftirtekt að Orð kvöldsins, kristileg kvöldhugleiðing Ríkisútvarpsins, var ekki lengur á sínum stað rétt fyrir tíufréttirnar. Í fyrstu hélt ég að hér væri um tímabundin mistök að ræða, en nú er komið í ljós að ákvörðun hefur verið tekin um að fella þennan dagskrárlið niður í dagskrá Rásar 1.
Þar sem ég var nokkuð viss um, að fleiri en ég myndu sakna þessa stutta en uppbyggilega dagskrárliðar, hringdi ég á Ríkisútvarpið í gær til að spyrjast fyrir um málið. Þar varð fátt um svör, reyndar var eina skýringin sem mér var gefin sú, að þessi ákvörðun hefði verið tekin af yfirmönnum Útvarpsins í samráði við Biskupsstofu. Undrandi var ég á því samráði - skyldi það hafa verið eitthvað sambærilegt og samráðið, sem Síminn hafði við Biskupsstofu um Júdasarauglýsingarnar frægu?
Hvers vegna skyldi þessi ákvörðun hafa verið tekin? Var lengd Orðs kvöldsins þvílík, að farið var að þrengja að öðru útvarpsefni? Því á ég bágt með að trúa, þar sem þessi dagskrárliður tók varla nema um 2-3 mínútur í flutningi í hvert sinn. Var það þá launakostnaður flytjenda, sem orðinn var íþyngjandi fyrir Ríkisútvarpið? Varla trúi ég að hann nemi nema brotabroti af nýlegri hækkun á mánaðarlaunum útvarpsstjóra, svo að það er afar ósennilegt.
Er þá hugmyndin sú, að hér sé mismunun á ferðinni, þar sem ekki eru allir landsmenn, og þar með allir greiðendur skattfjár og afnotagjalda, kristinnar trúar? Stendur þá til að ýta einnig öðrum dagskrárliðum með kristinni íhugun og boðun út af dagskránni, svo sem morgunbæninni og sunnudagsmessunni? Vera kann, að hér hafi verið látið undan þrýstingi þeirra afla, sem vilja veg kristni og kirkju sem minnstan í þessu landi. En gleymum því ekki, að um 95% landsmanna eru skráð í kristin trúfélög, og afar stór hluti landsmanna sækir styrk í kristna trú, m.a. með bæn og/eða lestri Biblíunnar, jafnvel daglega. Og ekki dytti sjálfum mér í hug að agnúast út í það, þó að guðlaus heimspekingur flytti erindi um efahyggju á Rás 1, eða að múslimi útskýrði orð Kóransins þar öðru hvoru. Jafnvel þó að hvorki efahyggja né múhameðstrú falli að persónulegri lífsskoðun minni, ætti ég tvo valkosti, báða góða: annaðhvort að hlusta á þetta efni, fræðast um viðkomandi lífsskoðanir og auka víðsýni mína, eða einfaldlega að slökkva á Rás 1 og velja mér annað efni til að hlusta á, sem betur félli að áhugasviði mínu. Af nógu er að taka í útvarpi, á Netinu o.s.frv.
Ég vonast til þess, að ákvörðunin um að minnka hlut þess kristilega efnis, sem fyrir er í Útvarpinu, verði dregin til baka, og að þróunin verði fremur í hina áttina, þ.e. að aukið verði við þetta efni, t.d. með því að sjónvarpa guðsþjónustum kirkjunnar eða hugleiðingum presta oftar en á jólum. Margir myndu taka þeirri aukningu í innlendri dagskrárgerð fegins hendi, og þeir sem ekki hefðu áhuga á að hlusta eða horfa á slíkt efni, hefðu úr nægu öðru að moða í fjölmiðlum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Miðvikudagur, 17. október 2007
Ég tók prófið
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Mánudagur, 8. október 2007
25. maí
virðist mér vera með helstu merkisdögum ársins.
Hinn 25. maí árið 1868 fæddist sr. Friðrik Friðriksson, stofnandi KFUM og KFUK á Íslandi og leiðtogi félaganna um áraraðir. 140 ár verða því liðin frá fæðingu hans næsta vor. Um sr. Friðrik var ritað í Kirkjuritinu eftir 70 ára afmæli hans, sumarið 1938:
Starf séra Friðriks fyrir K.F.U.M. og æskulýð Íslands er svo frábært, að margar þjóðir myndu votta þakkir slíkum manni með því að ákveða honum heiðurslaun og gjöra hann að heiðursborgara höfuðstaðar síns.
Hinn 25. maí árið 1935 fæddist föðuramma mín, Rannveig Pálsdóttir frá Stóru-Sandvík, lengst af skólameistarafrú á Laugarvatni. Ekki hef ég öruggar heimildir fyrir því að hennar hafi verið getið í Kirkjuritinu, hvorki á sjötugsafmælinu né í annan tíma, en það væri þó mjög svo viðeigandi eftir áratuga starf hennar sem sóknarnefndarformaður Miðdalssóknar í Laugardal.
Hinn 25. maí árið 1995, á sextugsafmæli ömmu, fæddist yngsti bróðir minn, Hannes Arason, grunnskólanemi og trompetleikari á Seltjarnarnesi. Hans hefur ekki enn verið getið í Kirkjuritinu, en hann á vissulega framtíðina fyrir sér í þeim efnum.
Ekki veit ég hver þessara þriggja viðburða mér finnst merkilegastur. Allir hafa þeir snert líf mitt með mjög afdrifaríkum og ekki síður ánægjulegum hætti.
Hinn 25. maí árið 2008, er 140 ár verða liðin frá fæðingu sr. Friðriks, 73 ár frá fæðingu Bubbu ömmu og 13 ár frá fæðingu Hannesar bróður, hefur Jóhanna Sigurðardóttir, félagsmálaráðherra, afráðið, að í fyrsta sinn verði haldið upp á "dag barnsins" á Íslandi.
Tilviljun? Ég held nú síður...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Sunnudagur, 7. október 2007
Grínistar
Ég var að horfa á Spaugstofuna nú áðan, endursýndan þátt frá í gær. Verð að segja, að þeim "félögunum" (eitthvað eru menn nú farnir að efast um vináttu þeirra eftir Stóra Randversmálið) er aðeins farið að fatast flugið. Eina atriðið í þættinum að þessu sinni, sem mér þótti verulega fyndið, var innslagið frá Marteini Mosdal um fánann. Og Laddi var bara gestaleikari, en ekki hluti Spaugstofunnar.
Mér er sjálfum hins vegar ekkert farið að fatast flugið í gríninu. Ég slæ í gegn í hlutverki Rebba refs á hverjum sunnudagsmorgni. Og handritið í brúðuleikritum sunnudagaskólans er a.m.k. ekki verra en handrit Spaugstofuþáttanna þessa dagana!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 7. september 2007
Haust
Þegar rjúpurnar ágætu á Eiðum voru byrjaðar að taka á sig hvítan vetrarbúning og lömbin "okkar" litlu þar eystra ekki lengur lítil, heldur að breytast í upprennandi sláturfé, var lokið sumardvöl okkar hjónanna á Austurlandi. Síðasta dag ágústmánaðar keyrðum við í bæinn til að takast á við verkefni haustsins. Eitt er að flytja inn í nýju íbúðina okkar í Þórðarsveignum, en því máli erum við að vinna í þessa dagana. Annað er að byrja í Háskólanum aftur, og reyndar við bæði á nýjum vígstöðvum. Hlín er að hefja 30 eininga djáknanám sem hún hyggst ljúka í vor. Ég sjálfur er að hefja 30 eininga diplómunám í kennslufræði til kennsluréttinda á grunn- og framhaldsskólastigi, og hyggst ljúka því námi meðfram síðustu kúrsunum í guðfræðideildinni á næstu þremur misserum eða svo. (Útskriftin úr guðfræðinni ætti þó að verða næsta vor.) Þriðja verkefnið okkar er að ýta barnastarfinu í Grafarholtssöfnuði úr vör, en þar byrjar sunnudagaskólinn næsta sunnudag og virkradagastarfið fyrir eldri börn í næstu viku. Allt er þetta ægilega spennandi og skemmtilegt, þó að reyndar vanti aðeins fleiri klukkustundir í sólarhringinn þessa dagana. Maður verður þá bara að sofa hratt, eins og Eiðaklerkur segist gera!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Þriðjudagur, 28. ágúst 2007
Skipið
Því miður gef ég mér of sjaldan tíma til að lesa góðar skáldsögur eða aðrar fagurbókmenntir. Einhvern veginn verður það svo, að skólabækurnar fá óhjákvæmilegan forgang á lesrekkanum og þegar þeim hefur verið lokað tekur annað við. En ég var þó að enda við að lesa stórgóða spennusögu eftir rithöfundinn Stefán Mána, Skipið, sem út kom á síðasta ári og Hlín mín gaf mér í afmælisgjöf á dögunum.
Í bókinni segir frá fraktskipinu Per se, sem leggur frá höfn á Grundartanga á leið til Súrínam í Suður-Ameríku. Skipverjarnir níu hafa flestir eitthvert óhreint mjöl í pokahorninu, einhverja djöfla að draga eða ógæfu að flýja - en ýmislegt verður til þess að voðinn bíður þeirra einnig á siglingunni. Skemmst er frá því að segja að ég skemmti mér konunglega við lesturinn, enda er bókin ótrúlega spennandi og erfitt að leggja hana frá sér, sér í lagi þegar liðið er á hana. Pennalipurð höfundar er með þeim hætti að líkt er og lesandinn sogist inn í andrúmsloft sögunnar, verði hluttakandi í þjáningum sögupersónanna. Óhætt er, að mæla með lestri bókarinnar.
Ekki spillti fyrir lestrinum að biblíuleg stef eru ótvíræð í sögunni, og hafði ég ánægju af að spá í þau, þó að vel megi auðvitað lesa bókina án slíkra þanka. Einn skipverja ber nefnilega sama nafn og ein þekktari persóna Gamla testamentisins, Jónas, og sannfærist hann, sem reyndar er sanntrúaður kaþólikki, um að bölvun Guðs hvíli á skipinu vegna ógæfuverks, sem hann hefur framið. Fleiri sögupersónur eru þó trúarlega þenkjandi með ýmsu móti - ekki reyndar allar mjög kristilega, enda kallar ein aðalsöguhetjan sig Kölska!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 23. ágúst 2007
Kjörsviðsritgerð
Fyrstu tvær vikur júnímánaðar og að nýju nú í ágúst hefur mestur minn tími farið í að vinna í kjörsviðsritgerð minni eða lokaritgerð til embættisprófs í guðfræði. Þar sem nægu verður að sinna í vetur við síðustu námskeiðin í guðfræðideild og við kennsluréttindanám auk vinnunnar ákvað ég að best væri að ljúka ritgerðinni af að mestu leyti um sumarið. Sé ég ekki eftir því og er ánægður með að sjá brátt fram á endann á því verki. Uppkast ritgerðarinnar er reyndar tilbúið, 52 síður að lengd, en eftir er að setjast aftur niður með leiðbeinandanum, fá fleiri athugasemdir og vinna í þeim áður en hægt er að skila verkefninu. Það liggur svo sem ekki lífið á með það heldur.
Ég valdi að hafa lítúrgísk fræði eða helgisiðafræði sem mitt kjörsvið til embættisprófs og er vinnuheiti ritgerðarinnar "Per omnia saecula saeculorum: Kollektubæn messunnar í sögu og samtíð." Hið latneska orðalag í titlinum merkir "um allar aldir alda" og vísar til hins staðlaða niðurlags fornu, rómversku kollektubænanna, sem fylgt hafa kirkjunni frá því snemma á miðöldum, eða í hálft annað árþúsund. Þó mætti heitinu einnig fylgja spurningarmerki og þá með vísan til umræðu minnar í niðurlagi ritgerðarinnar um, hvort gefið sé að kollekturnar verði sannarlega beðnar með þessum hætti "um aldir alda," eða uns Drottinn kemur aftur.
Niðurstaða mín í ritgerðinni, ef hægt er að nota slíkt orð, er í stuttu máli sú, að kollektubænin er frá lítúrgískum sjónarhóli ein veigamesta bæn messugjörðarinnar, og fornu latínukollekturnar, sem nú eru notaðar í íslensku kirkjunni í þýðingu Sigurbjörns Einarssonar biskups, eru afar þýðingarmiklar við að varðveita túlkunararf kirkjunnar á Ritningunni og náðarboðskap fagnaðarerindisins. Þær eru í senn djúp íhugun á ritningargreinum hverrar messu og um leið órjúfanlegur hluti þeirrar andlegu vegferðar, sem klassíska messan er. Kollektan er hápunktur bænaþjónustunnar í upphafi messunnar, þar sem hún fylgir upphafsbæn, miskunnarbæn og dýrðarsöng, en á sama tíma er hún inngangur að þjónustu Orðsins í messunni, þ.e. ritningarlestrum, guðspjalli og prédikun. Það væri því mikil synd, ef hennar myndi ekki njóta við til frambúðar í guðsþjónustum íslensku kirkjunnar, eða ef fornu kollekturnar með sínu knappa og hnitmiðaða orðalagi yrðu afbakaðar í því skyni að gera bænirnar "einfaldari" eða "auðskiljanlegri" fyrir söfnuðinn. Fornu latínukollekturnar voru reyndar notaðar hér óslitið frá siðbót og langt fram á 19. öld, en nýjar kollektur, sem tóku mið af tíðarandanum í guðfræðinni hverju sinni, leystu þær af hendi í Handbókinni 1869 og að nýju í Helgisiðabókinni 1934. Þær voru svo endurvaktar með Handbókinni 1981, sem fyrr segir að tilstuðlan dr. Sigurbjörns og fleiri góðra manna.
Skemmst er frá því að segja að ég er afar ánægður með að hafa valið mér þetta ritgerðarefni og vonandi verður útkoman einnig ásættanleg þegar öll kurl eru komin til grafar, ef svo má segja! Leiðbeinandi minn við ritgerðarsmíðina er sr. Kristján Valur Ingólfsson, lektor í helgisiðafræðum, en hann mun manna fróðastur um allt sem viðvíkur messunni og handleiðsla hans því afar gagnleg.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)