Samningar standi - eða hvað?

Það er athyglisvert að lesa ítarlega frétt á mbl.is nú í kvöld um málefni prestssetursjarðarinnar Laufáss. Svo virðist sem fjölskylda látins sóknarprests vilji ekki standa við þann samning, sem gerður var, þegar hið mjög svo óvenjulega leyfi var veitt til að reisa annað íbúðarhús á jörðinni fyrir son prestsins heitins og fjölskyldu hans. Og nú er sveitarstjórinn kominn í málin, undirskriftasöfnun í gangi til stuðnings prestssyninum og enn eitt vandræðamálið fyrir kirkjuna í uppsiglingu - að því er virðist!

Eða hvað?

Nú þekki ég alls ekki til í Laufásprestakalli eða í Eyjafirði yfir höfuð. Og séra Pétri heitnum eða hans fólki hef ég aðeins kynnst í gegnum sálmana hans góðu og fallegu, "Í bljúgri bæn," "Frá Guði er líf mitt" o.s.frv. Alltaf jafngott að syngja þá.

En mér sýnist ósköp einfaldlega, að samningur hafi verið gerður, býsna óhefðbundinn samningur raunar, sem nú þurfi að standa við. Laufás er væntanlega eign Prestssetrasjóðs fyrir hönd kirkjunnar. Tilboð Prestssetrasjóðs um að bóndinn og prestssonurinn fái að leigja jörðina til búrekstrar í fjögur ár sýnist í því ljósi vera býsna rausnarleg teygja á fyrri samningum, en ekki "óaðgengilegir afarkostir", svona utan frá séð.

Auðvitað er sárt að bústólpi þurfi að missa jörð, sem eflaust hefur verið byggð upp af dugnaði og elju. Auðvitað vilja sveitungarnir koma í veg fyrir það, og hjálpa nágranna sínum til að geta búið áfram. Það er ósköp eðlilegt. Og ekki síður er eðlilegt, að hinn dugandi bóndi, prestssonurinn í Laufási, vilja fá að vera þar áfram, í sínu húsi á sinni jörð - nema bara það, að jörðin er víst alls ekki hans...

En hvað er í raun og veru verið að fara fram á, með því að biðla til biskups um að bóndinn verði áfram í Laufási með sitt hús og sinn búskap, væntanlega um ókomna tíð? Að Laufásprestakall, sem ekki hefur verið auglýst frá andláti séra Péturs heitins, verði ekki auglýst laust til umsóknar í núverandi mynd, þ.e. með þeim réttindum og skyldum, sem því fylgir fyrir sóknarpresta að sitja prestssetursjarðir. Og að verðandi sóknarprestur í Laufási - já, raunar sóknarprestar þar um ófyrirséða framtíð - (þ.e. verði brauðið á annað borð auglýst á næstunni), þurfi að búa þar sem eins konar gestir inni á jörð bóndans! Skyldi mörgum prestum þykja það fýsilegur kostur?

Ég geri varla ráð fyrir, að Grenvíkingum sé síður hlýtt til kirkju sinnar en gengur og gerist með Íslendinga. Eigi að síður felur þetta vinarbragð við sveitungann í sér, að setja bæði Þjóðkirkjuna og ekki síst verðandi sóknarprest í Laufási í afar óþægilega stöðu, fyrir það eitt að vilja að staðið sé við samninga. Sé það raunverulegur vilji Grenvíkinga, að setja væntanlegan sóknarprest sinn í þá stöðu, sem hér hefur verið lýst, hygg ég varla að þá langi mikið að hafa prest í sinni sveit.

Það er víst oft ástæða fyrir hlutunum, og svo hlýtur einnig að vera í þessu tilfelli. Ég segi nú bara svona...


mbl.is Gert að flytja húsið frá Laufási
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að "óaðgengilegu afarkostirnir" séu þeir að honum er gert að flytja húsið sitt af jörðinni strax í vor. Honum er boðið að leigja jörðina í 4 ár en húsið verður að fara.

Jói (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 23:48

2 identicon

Vel mælt Þorgeir. Ég held að það þurfi að stilla þetta mál strax og koma fólki í skilning um að samningar verða að standa - jafnvel þó að kirkjan eigi í hlut og flestir telji sig geta gengið harðar fram gegn henni en öðrum stofnunum samfélagsins.

Biskup verður eiginlega að koma fram og skýra stöðu kirkjunnar, annað er nánast ótækt enda eru rangfærslurnar í fréttum miðlanna nokkuð margar og alvarlegar.

Stefán Einar Stefánsson (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 23:50

3 identicon

Sæll Þorgeir

Satt að segja held ég að bændur séu nú nauðsynlegri til sveita en prestar. Ágætt að sumra mati að það fari saman að vera bóndi og prestur. En ég hygg að bóndinn sé nú ofar í huga flestra þegar mikilvægi sveitamannsins er metið.

Vonandi verður þú vinsæll og góður prestur í fyllingu tímans. Sé á skrifum þínum að þú munt falla vel í hópinn.

Með kveðju,

Kári Lár.

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 7.2.2008 kl. 23:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband