Sögukennari í eina viku

Í upphafi vikunnar var komið að því, sem ég hafði í sannleika sagt dauðkviðið alla önnina: að takast á við æfingakennsluna í sögu í MH í tengslum við kennsluréttindanámið mitt. Ég hafði fram að því setið prúður aftast í kennslustofunni í áhorfinu, sem kallað er, og fylgst með hinum vönu kennurum miðla misáhugasömum nemendunum af visku sinni. Í mesta lagi hafði ég gengið á milli nemenda og athugað hvernig þeim gengi með verkefni þegar kennarinn brá sér að ná í kaffibolla, það ku vera aðstoðarkennsla svo nefnd.

En nú varð ekki lengur undan vikist að spreyta sig á því að vera sjálfur sögukennarinn í eina viku. Raunar kenni ég aðeins fjóra tíma, 2x60 mínútur og 2x95 mínútur, þar sem tímarnir eru svo langir í MH, en kenna á alls í 8x40 mínútur. Það var þó ekki það að standa frammi fyrir hópnum eða leggja fyrir verkefnin sem olli mér kvíðboga, þar sem ég er nokk vanur því hlutverki úr fermingarfræðslunni, sumarbúðunum o.s.frv. Það sem helst gerði mig óöruggan var að ég, guðfræðingurinn, ætti nú að vera orðinn sérfræðingur í sagnfræði! Við úr guðfræðinni erum semsagt sett í sögukennsluna og reyndar hef ég mikinn áhuga á sögu og fannst alls ekki leiðinlegt að takast á við þetta verkefni. Auðvitað hefði ég helst kosið að kenna efni sem tengdist kirkju- eða trúarbragðasögunni. En um það var ekki að ræða, ég fékk úthlutað köflum um stórveldin í Evrópu á 19. öld og fyrri heimsstyrjöldina í framhaldinu, og ekki var um annað að ræða en að bretta upp ermar og hefja lesturinn.

Nú er ég hálfnaður með kvótann, búinn að kenna einum bekk mitt prógramm og á annan eftir. Og þó að ég segi sjálfur frá hefur þetta bara gengið býsna vel hjá mér, krakkarnir eru líka ósköp ljúfir, hlusta vel og vinna verkefnin eins og englar. Í dag brá ég líka á leik í lokin, skipti bekknum í tvennt og stjórnaði spurningakeppni úr efni vikunnar. Ekki var annað að sjá en að þau kynnu vel að meta þetta og voru bara ágætlega að sér eftir tímana hjá mér - nema spurningarnar mínar hafi verið allt of léttar...

Það er ólíklegt að kennsla í framhaldsskólum verði mitt ævistarf. En maður skyldi aldrei segja aldrei,  í raun hygg ég að kennsla ætti alls ekki illa við mig og ég kann vel við mig í MH. En breyta þyrfti námskrá framhaldsskóla verulega áður en ég gæti farið að kenna mitt sérsvið þar. Í öllu falli er ég mjög ánægður með að hafa drifið mig í kennsluréttindanámið og með að ganga í gegnum reynslu æfingakennslunnar - þó ekki væri nema til að læra eitthvað nýtt í sagnfræði!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Blessaður Þorgeir.

Gaman er að fylgjast með þessu hjá þér og ekki get ég ímyndað mér annað en að þér farist kennslan vel úr hendi. Kennsluréttindanámið er afar mikilvægt fyrir tilvonandi presta og ég held að það hafi verið heillaspor fyrir þig að leggja út á þessa braut. Hver veit nema einhverjir okkar "samverkamanna" þinna leggi á sama djúp þegar færi gefst, og þá vonandi undir styrkri leiðsögn þinni.

Stefán Einar Stefánsson (IP-tala skráð) 31.10.2007 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband