Skuldir og reikningsskil

Næsta sunnudag, sem er 22. sunnudagur eftir þrenningarhátíð, fjalla bænir og ritningarlestrar dagsins samkvæmt kirkjuárinu um skuldir og reikningsskil. Ég á að predika við kvöldmessu í Egilsstaðakirkju og hef verið að rýna í textana.

Lexían er úr síðasta kafla 1. Mósebókar, úr endalokum Jósefssögunnar. Þar er Jakob gamli dáinn og bræður Jósefs eru óttaslegnir um að hann muni nota tækifærið og hefna sín á þeim eftir fyrri misgjörðir þeirra. Svar Jósefs er einfalt: Dómurinn er Guðs - ekki okkar. "Óttist ekki því að ekki kem ég í Guðs stað. Þið ætluðuð að gera mér illt en Guð sneri því til góðs."

Pistillinn er úr Filippíbréfinu, kærleiksrík kveðja Páls til safnaðarins (1.3-11) og við fyrstu sýn virðist hann ekki beinlínis viðkomandi þema dagsins. Ég horfði lengi á textann áður en ég fann lykilinn að honum, sem er að mínum dómi í 7. versinu þar sem Páll segir: Ég hef ykkur í hjarta mínu. Merkilegt orðalag, að hafa einhvern í hjarta sínu. Og ef sjálfur Guð hefur okkur í hjarta sínu, skyldum við mennirnir þá ekki eiga að reyna að hafa hvert annað í hjarta okkar?

Guðspjallið er svo hin kunna dæmisaga Jesú um þjónana tvo, talenturnar tíu þúsund og denarana hundrað (Matt 18.21-35). Jesús notar hana til að útskýra fyrir Pétri, að hann eigi ekki að fyrirgefa náunga sínum "sjö sinnum, heldur sjötíu sinnum sjö." Húmorinn í þessu svari og svo hinni fráleitu tölfræði dæmisögunnar (Barclay segir að upphæðirnar jafngildi 2,4 milljónum punda annars vegar og fimm pundum hins vegar) er augljós - og á ótrúlega vel við á þessum tímum.

Það getur þó verið torskilið, að venjulegt fólk skuldi almættinu þvílíkt og annað eins, að því verði helst jafnað við hundruð milljóna á núvirði (ég treysti mér ekki til að framreikna pund í krónur miðað við gengisflöktið þessa dagana!). Eitt svarið við þessu gæti falist í að líta á hinar ógurlegu kröfur, sem Jesús setur fram til okkar í Matteusarguðspjalli, ekki síst í Fjallræðunni, og sjá á hvern hátt þær afhjúpa nekt okkar og ófullkomleika í augum Guðs. Og þó erum við svo undursamleg í hans augum. Þetta er merkilegt.

En sé dæmisagan um þjónana skondin, finnst mér þó enn fyndnara, að á þeim sunnudegi sem þessi merkilegi boðskapur Jesú Krists er til umfjöllunar hjá Þjóðkirkjunni, skuli forstöðumaður utanþjóðkirkjusafnaðar eins í höfuðstaðnum fá til sín gestapredikara úr hópi tónlistarmanna - frábær músikant með eflaust stórgóðan boðskap að færa söfnuðinum - en á þeim forsendum, að nú sé ekki þörf á tali um sektarkennd og syndabyrði, eins og boðun kirkjustofnunarinnar hafi einkennst af, og hafi boðun Jesú Krists alls ekki einkennst af slíku á sínum tíma. Góður þessi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband