Skipið

Því miður gef ég mér of sjaldan tíma til að lesa góðar skáldsögur eða aðrar fagurbókmenntir. Einhvern veginn verður það svo, að skólabækurnar fá óhjákvæmilegan forgang á lesrekkanum og þegar þeim hefur verið lokað tekur annað við. En ég var þó að enda við að lesa stórgóða spennusögu eftir rithöfundinn Stefán Mána, Skipið, sem út kom á síðasta ári og Hlín mín gaf mér í afmælisgjöf á dögunum.

Í bókinni segir frá fraktskipinu Per se, sem leggur frá höfn á Grundartanga á leið til Súrínam í Suður-Ameríku. Skipverjarnir níu hafa flestir eitthvert óhreint mjöl í pokahorninu, einhverja djöfla að draga eða ógæfu að flýja - en ýmislegt verður til þess að voðinn bíður þeirra einnig á siglingunni. Skemmst er frá því að segja að ég skemmti mér konunglega við lesturinn, enda er bókin ótrúlega spennandi og erfitt að leggja hana frá sér, sér í lagi þegar liðið er á hana. Pennalipurð höfundar er með þeim hætti að líkt er og lesandinn sogist inn í andrúmsloft sögunnar, verði hluttakandi í þjáningum sögupersónanna. Óhætt er, að mæla með lestri bókarinnar.

Ekki spillti fyrir lestrinum að biblíuleg stef eru ótvíræð í sögunni, og hafði ég ánægju af að spá í þau, þó að vel megi auðvitað lesa bókina án slíkra þanka. Einn skipverja ber nefnilega sama nafn og ein þekktari persóna Gamla testamentisins, Jónas, og sannfærist hann, sem reyndar er sanntrúaður kaþólikki, um að bölvun Guðs hvíli á skipinu vegna ógæfuverks, sem hann hefur framið. Fleiri sögupersónur eru þó trúarlega þenkjandi með ýmsu móti - ekki reyndar allar mjög kristilega, enda kallar ein aðalsöguhetjan sig Kölska!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lutheran Dude

Ég vissi að þetta væri vel valið... einmitt búin að pæla mikið í trúarstefunum

Lutheran Dude, 28.8.2007 kl. 14:54

2 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Ég las þessa bók um jólin og gat ekki lagt hana frá mér. En ég viðurkenni mér fannst hún pínu ónotaleg og skildi eftir smá svona hroll eftir að ég las hana! En trúarstefin eru sannarlega til staðar !

Sunna Dóra Möller, 28.8.2007 kl. 17:18

3 identicon

Flott, ég ætla að lesa þessa bók næst. 

Það er nauðsynlegt að lesa eitthvað auðveldara inn á milli, aðeins til að hvíla hausinn...!

Elín (IP-tala skráð) 3.9.2007 kl. 10:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband