Trúboð í skólum

Heilmikið hefur verið rætt um þetta efni í fjölmiðlum á síðustu vikum og mánuðum, ekki síst í tengslum við hina svonefndu „Vinaleið,“ sem er afar jákvætt dæmi um samstarf kirkju og skóla í Mosfellsbæ og Garðabæ með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. Í Blaðinu í dag er rætt við móður hér í mínu hverfi, Vesturbænum, og segist hún ósátt við það, sem hún kallar trúboð Neskirkju í Melaskóla.

Reyndar fæ ég alls ekki séð hvernig það getur kallast „trúboð í skólum“ að starfsfólk Neskirkju sæki börn, sem fengið hafa samþykki foreldra til kirkjugöngu, fylgi þeim yfir götuna til samverustundar í kirkjunni og síðan til baka í skóladagvist. Trúboð er þessi starfsemi vissulega og er það vel, enda á kirkjan okkar að vera „boðandi kirkja“ sem boðar af fremsta megni fagnaðarerindi Jesú Krists. Þar hefur kirkjan ekkert til að skammast sín fyrir. Starfsemin fer þó hvorki fram á skólatíma né innan veggja skólans og er því hugtakanotkun konunnar sérkennileg.

Þá geta vart talist góð vinnubrögð af hálfu Blaðsins að leita hvorki álits presta né æskulýðsfulltrúa Neskirkju, heldur aðeins upplýsinga á vefsíðu kirkjunnar. Þess í stað er álitsgjafi í málinu fulltrúi Siðmenntar, og kom vart á óvart að hann skyldi fara hörðum orðum um þessa starfsemi.

Hitt er annað mál, að frá upphafi hefur boðun kristninnar átt sér óvini. Ljóst er að fái þeir, sem lítt er gefið um útbreiðslu fagnaðarerindisins, ástæðu til að ergja sig á starfsemi hinnar boðandi kirkju, hlýtur hún að vera að sinna hlutverki sínu betur en ef umræðuefnin væru engin.

Í Grafarholtinu höfum við hjá kirkjunni reyndar átt gott samstarf við skólana í hverfinu og fer barna- og æskulýðsstarf okkar fram þar, utan skólatíma, og fáum við tækifæri, líkt og t.d. íþróttafélög, til að kynna þá starfsemi fyrir nemendum. Hafa samskipti við starfsfólk skólans almennt verið ánægjuleg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Friðgeir Björnsson

Eins og íþróttafélög, já...

Björn Friðgeir Björnsson, 10.1.2007 kl. 13:03

2 identicon

Þetta er gott innlegg hjá þér Þorgeir. Það er alveg magnað hversu óvönduð vinnubrögð blaðamanna eru oft á tíðum.

Ég get ekki skilið athugasemd Björns Friðgeirs með öðrum hætti en svo að hann telji óvarlegt að telja starfsemi íþróttafélaga upp í sömu andrá og félagsstarfsemi sem fer fram innan kirkjunnar. Þar er á ferðinni þröngsýni, enda hefur það starf sem kirkjan heldur úti reynst mörgum einstaklingum heilladrjúgt og gott veganesti inn í lífið, ekki síður en hringhlaup eða það að sparka í bolta. 

Stefán Einar Stefánsson (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 13:25

3 Smámynd: Björn Friðgeir Björnsson

Þegar þið takið vel í að börnin ykkar skipti yfir í t.d. Islam þegar þið flytjið milli bæjarfélaga og komið þar sem múslimar eru í meirihluta þá væri kannske hægt að ræða við ykkur

En þið viljið ekki eða getið ekki skilið að þetta snýst ekki um hvað kirkjan hefur gert gott eða slæmt. 

Björn Friðgeir Björnsson, 10.1.2007 kl. 14:33

4 identicon

Komdu sæll Þorgeir! Þetta er afar góð grein hjá þér og langaði mig til að taka undir með þér. Ég er nú starfandi við þetta starf í Neskirkju og fannst mér þetta heldur undarleg umfjöllun Blaðsins í morgun. Það er svo merkilegt að þetta starf er ekki unnið inni í skólanum heldur er farið með börnin sem hafa fengið samþykki foreldra sinna fyrir þáttöku út í kirkju þar sem þau eru í klukkutíma. Þetta er nú ekki stór hluti sem tekur þátt af heildarfjölda hvers árgangs og ekki ástæða til að fetta fingur út í þetta á einn eða neinn hátt. Hér er um upplýst samþykki foreldra að ræða fyrir þátttöku barna sinna í þessu starfi. Mér finnst það stundum skjóta skökku við að verið er að finna að kirkjustarfi innan skóla og talað um að slíkt starf eigi að vinna á vettvangi kirkjunnar ekki innan skólanna. Þegar starfið fer svo fram á vettvangi kirkjunnar þá er fundið að því líka....ég verð að viðurkenna að ég er alveg mát gagnvart svona málflutningi. Ég hef ekki orðið vitni að því heldur að börn verði fyrir aðkasti vegna þess að þau taka ekki þátt í kirkjustarfinu heldur fara þau bara sæl og glöð með félögum sínum í skólasel og taka þátt í þeirri dagskrá sem er í boði þar. Þetta starf er eitt af mörgu sem er í boði fyrir börn og er algjörlega háð samþykki foreldra. Hér er ekki um alls ekki um trúboð innan skóla að ræða á einn eða neinn hátt. Varð bara að leggja orð í belg.  Kveðja, Sunna Dóra.

Sunna Dóra Möller (IP-tala skráð) 10.1.2007 kl. 20:51

5 identicon

Það er gott innlegg í umræðuna hjá Birni Friðgeiri að fullyrða að ekki sé hægt að ræða við okkur, það lýsir góðri aðkomu að þessu máli og til marks um það mikla umburðarlyndi fyrir skoðunum sem trúleysið færir mönnum.

 Foreldrar bera ábyrgð á börnum sínum og á sama hátt og þeir kenna börnum sínum að tala þá innræta þeir einnig börnum sínum lífsviðhorf. Svo vill til að hér á landi hefur kristin kirkja lifað og hrærst allt frá fyrstu dögum byggðar í landinu og reynst þjóðinni vel, jafnt í gleði og þraut. Það er því ekki skrítið að foreldrar velji kirkjuna sem hlé fyrir börn sín á ákveðnum stundum yfir daginn. Það geta þeir gert með sama hætti og með sama góða hug og foreldrar sem senda börn sín til íþróttafélaga þar sem þau læra uppbyggjandi aðferðir til afþreyingar.

Stefán Einar Stefánsson (IP-tala skráð) 11.1.2007 kl. 12:19

6 Smámynd: Björn Friðgeir Björnsson

Nei, Stefán Einar, það er ekki hægt að ræða við þig þegar þú leggur íþróttaiðkun og trú að jöfnu.

Svona eins og <a href="http://stefani.blog.is/blog/stefani/entry/98395/">þú hefur ekki gaman af &#39;sósíalískri umræðu&#39;  </a> og sakar aðra um að <a href="http://nannar.blogspot.com/2003/10/vlandi-einsog-frnarlmb.html">"Vælandi einsog fórnarlömb kynferðisofbeldis"</a>.

Farðu varlega að ásaka aðra um skort á umburðarlyndi.

 Annars líst mér betur á málflutning Sunnu Dóru, hún ver þetta mun fimlegar en blogghöfundur hér, sem gerir ekki annað en að lofsama trúboð í skólum. 

Björn Friðgeir Björnsson, 11.1.2007 kl. 16:03

7 Smámynd: Björn Friðgeir Björnsson

Biðst afsökunar því að átta mig ekki á að kommentakerfið ræður ekki við handgerða tengla.

Björn Friðgeir Björnsson, 11.1.2007 kl. 16:04

8 Smámynd: Þorgeir Arason

Komið þið blessuð og sæl. 

Ég þakka ykkur öllum, sem að ofan hafa skrifað, fyrir að hafa lagt orð í belg hér á síðunni minni. Ég vissi ekki að þú tækir þátt í þessu starfi, Sunna, en það gleður mig og er ég viss um að þarna sé unnið gott starf. Vitanlega er þarna ekki um "trúboð í skólum" að ræða, hvað sem málflutningi fjölmiðla líður. Kannast ég reyndar ekki við að hafa lofsamað "trúboð í skólum" hér á síðunni, enda skil ég hugtakið svo að átt sé við skipulagt trúboð innan veggja skólans og á kennslutíma. Ekki veit ég til þess að það eigi sér stað, hvorki í Vesturbænum né annars staðar, en mun ekki standa í hártogunum um það mál.

Hitt er annað mál að sem kristinn maður lofsama ég boðun kristindómsins og sé enga ástæðu til að sú boðun láti undan síga á 21. öldinni. Eðli gleðifréttanna um kærleika Krists er það, að erfitt er að þegja yfir þeim, og þó líklega enn erfiðara að þagga niður í þeim! Að svo mæltu sendi ég ykkur öllum mínar bestu nýársóskir.

In Christo, Þorgeir.

Þorgeir Arason, 11.1.2007 kl. 16:30

9 identicon

Jú, ég hef unnið í Neskirkju síðan í október í fyrra, þá í 7 ára starfi og TTT. Nú á vorönninni mun ég einnig vera með í 6 ára starfinu  Þetta er frábær vinnustaður og góður andi og gott fólk að vinna með. Góð reynsla sem safnast í sarpinn í svona starfi og frábært að vinna með börnunum. Bestu kveðjur, Sunna Dóra.

Sunna Dóra (IP-tala skráð) 11.1.2007 kl. 22:17

10 identicon

Takk fyrir góða grein Þorgeir, ég get heldur ekki séð að þú hafir ,,lofsamað" trúboð í skólum, heldur einungis gagnrýnt umfjöllun fjölmiðla um barnastarfið í Neskirkju og þá sérstaklega hugtakanotkunina.  

Birni Friðgeiri mislíkar samsömun kirkjustarfs og íþróttastarfs, þar fer hann fram hjá þeirri staðreynd að barnastarf kirkjunnar er tómstundastarf fyrir börn með kristilegum áherslum og unnið á kristilegum grunni, eins og annað tómstunda og íþróttastarf sem unnið er faglega hefur það mikið forvarnar og félagslegt gildi fyrir börn og unglinga.  Það er því ekkert óeðlilegt við það að starfið sé kynnt í skólum.  

Kirkjan er boðandi, það er hlutverk hennar, barnastarfið er að sjálfsögðu boðun, en henni er ekki þröngvað upp á einn né neinn, það er ekkert barn neytt til að mæta í barnastarf kirkjunnar, að minnsta kosti ekki af kirkjunar hálfu. 

Þráinn (IP-tala skráð) 12.1.2007 kl. 14:03

11 Smámynd: Björn Friðgeir Björnsson

"eins og annað tómstunda og íþróttastarf sem unnið er faglega hefur það mikið forvarnar og félagslegt gildi fyrir börn og unglinga. "

Skiptir ekki máli.  Þú skiptir ekki um trú eins og íþróttafélag. Íþróttastarf er ekki boðun. Hættið þessum samanburði, gerið ykkur grein fyrir hversu ankannalegur hann er. 

 Í sumum tilvikum líður börnum og foreldum eins og verið sé að þröngva þessari boðun upp á börnin. Verið getur að það sé ekki alltaf, en ber ykkur ekki umburðarlyndi gagnvart slíkri viðkvæmni?

Björn Friðgeir Björnsson, 12.1.2007 kl. 19:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband