Miðvikudagur, 10. janúar 2007
Grasekkill í bænum
Þá er ég kominn aftur til Reykjavíkur og mál til að setja hér loksins inn fyrstu bloggfærslu ársins 2007. Á nýársdag fór ég með Hlín austur á Fljótsdalshérað, þar sem hún er byrjuð í sinni starfsþjálfun hjá Félagsþjónustunni á Egilsstöðum. Við vorum svo heppin að fá bílfar austur með vini okkar, Friðriki apótekara á Norðfirði, en þess má til gamans geta að hann á býsna glæsilegan jeppa.
Fyrir austan áttum við hjónin einstaklega ljúfa viku saman. Hlín fær að dvelja í Kirkjumiðstöðinni á Eiðum, en þaðan er aðeins 15 mínútna akstur til Egilsstaða. Aðrar eins vegalengdir keyrir fólk víst til vinnu í höfuðborginni. Ég notaði tímann meðan Hlín var í vinnunni til að lesa og fara í gönguferðir í nágrenninu. Veðrið var ljómandi gott mestalla vikuna, milt og lygnt, en fljúgandi hálka á vegum. Það er hins vegar ótrúlegt hversu miklu betur maður finnur fyrir skammdeginu í sveitinni en hér í upplýstri borginni. Var enda áberandi hversu duglegir Héraðsbúar hafa verið við að skreyta hús sín með ljósaseríum um hátíðirnar og lýsa þannig upp umhverfið.
Vel og hlýlega var tekið á móti okkur fyrir austan og þáðum við heimboð á nokkrum stöðum, m.a. hjá frændfólki Hlínar á Eiðum og hjá sóknarprestinum þar. Hjá henni rotuðum við jólin með því að snæða hamborgarhrygg og spila nýja Trivialið - en spurningarnar í því finnast reyndar níðþungar - á þrettándanum.
Við veltum því fyrir okkur þessa daga hvort við gætum hugsað okkur að búa á næstu árum á Austurlandi eða annars staðar en í Reykjavík. Það er alls ekki útilokað fremur en annað og verður framtíðin að leiða það í ljós. Hún er víst lokuð með innsiglum eins og annar guðfræðinemi hefur bent á á bloggsíðu sinni.
Athugasemdir
Það eru greinilega margir Serafar að hugsa sér til hreyfings. Ég er að spá í að yfirgefa höfuðborgina við tækifæri og leita eitthvað annað... en það kemur víst allt i ljós í sumar.
Þjóðarblómið, 10.1.2007 kl. 14:12
Þú segir fréttir Þóra! Kannski það verði til "Serafanýlenda" einhvers staðar á landsbyggðinni í framtíðinni
Þorgeir Arason, 11.1.2007 kl. 16:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.