Þriðji sunnudagur í aðventu

Þriðji sunnudagur aðventunnar hófst hjá mér í morgun með því að hlusta á morgunandakt séra Þorbjörns Hlyns Árnasonar, prófasts á Borg á Mýrum, á Rás 1. Guðspjallstexti dagsins fjallar um  Jóhannes skírara, sem boðar komu Drottins, en allir ritningartextar aðventunnar benda á einn eða annan hátt á komu Krists. Jóhannes skírari boðaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda og hvatti menn til að berjast gegn hvers konar rangsleitni og kúgun. Það er full ástæða til að hafa þann boðskap í heiðri á aðventunni og minnast þess þannig að hún er jólafasta.

Guðsþjónustu sótti ég svo í Seljakirkju kl. 14, þar sem Ólafur Jóhann Borgþórsson, eða Óli Jói, predikaði. Hann lauk guðfræðinámi í vor, starfar við barna- og æskulýðsstarf Seljakirkju og er mikill öðlingur eins og ég hef aðeins fengið að kynnast. Var predikun hans góð, um og í anda Jóhannesar skírara, og hvatti Óli Jói áheyrendur til að leggja áherslu á innihald jólanna en ekki umbúðir. - Mér þótti þó sérkennilegt að hvorki séra Þorbjörn né Óli Jói predikuðu út af þeim guðspjallstexta, sem endurskoðuð lestraskrá þjóðkirkjuvefjarins gerir ráð fyrir, þ.e. frásögn Lúkasar af Jóhannesi (Lk. 3), heldur frásögn Matteusar (Mt. 11).

Ekki má gleyma að kl. 11 í dag var glatt á hjalla í Ingunnarskóla, þar sem ég stjórnaði jólaballi sunnudagaskólans í Grafarholti. Mættu yfir 70 börn og foreldrar og skemmtu sér hið besta, ekki síst þegar jólasveinninn Bjúgnakrækir mætti á staðinn, smáfólkinu til einskærrar kátínu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir hlý orð. Já - í Seljakirkju er fyrirkomulagið þannig að farið er eftir A textaröð (óbreyttri). Hvort það sé betra að verra skal ósagt látið - en þar liggur ástæðan fyrir guðspjallstextanum í dag hjá okkur.

Óli Jói (IP-tala skráð) 17.12.2006 kl. 23:29

2 Smámynd: Þorgeir Arason

Bestu þakkir fyrir svarið Óli Jói, gaman að sjá að þú hefur ratað inn á síðuna mína. Eflaust er óbreytt textaröð A hvorki betri né verri en aðrar lestraraðir kirkjunnar, a.m.k. áttu lestrar gærdagsins fullt erindi við okkur - en gott gæti verið að geta gengið að sömu lestrum í öllum söfnuðum Þjóðkirkjunnar.

Þorgeir Arason, 18.12.2006 kl. 11:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband