Mánudagur, 20. október 2008
Er pabbi þinn prestur?
Á síðustu árum hef ég talsvert oft verið spurður að því, þegar fólk kemst að því ég er guðfræðingur/ í guðfræðinámi, hvort það séu prestar í fjölskyldu minni. Oftar en ekki er það gert með eftirfarandi spurningu: "Er pabbi þinn prestur?" Nú síðast í gærkvöldi spurði kirkjuvörður Egilsstaðakirkju mig að þessu.
Þetta er ekki óeðlileg spurning, og reyndar bæði áhugaverð og réttmæt. Það eru jú mörg dæmi um hálfgildings "prestafjölskyldur" á Íslandi, bæði nú og í sögunni. Prestsembætti hafa gengið í erfðir allt til þessa dags, og í þættinum Út og suður um daginn var einmitt spjallað við sveitaprest sem var þriðji ættliðurinn í sama prestakallinu. Það er í hæsta máta eðlilegt, að menn vilji vita, hvort ég tilheyri einni slíkri familíu!
En hvers vegna skyldi engum detta í hug að spyrja mig, hvort mamma mín sé prestur? Ég er nógu ungur og rúmlega það til að mamma mín gæti vel verið prestur - hún var að ljúka háskólanámi rúmum áratug eftir að fyrsta konan vígðist til prests á Íslandi. Og hér á Héraði starfa tveir kvenprestar, sem báðar eiga börn sem eru eldri en ég.
Það væri áhugavert að vita, hvort aðrir ungir guðfræðingar fengju sambærilegar spurningar, og hvort ég væri sá eini, sem saknaði spurningarinnar um mömmu. Og skyldi vera munur milli kynja í því, hvaða spurningar menn fá? Þetta er nú bara rannsóknarefni.
Fyrir áhugasama má geta þess, að pabbi minn er alls ekki prestur heldur málfræðingur - en syngur reyndar í kirkjukór.
Athugasemdir
Þú virkar bara eitthvað svo fæddur í þetta starf. Menn reikna með því að þetta sé í genunum. En góður punktur með mömmuna.
Stefán Bogi Sveinsson, 24.10.2008 kl. 00:12
Mjög góðar hugleiðingar - en þú gleymdir hins vegar alveg að svara því hvort að mamma þín væri prestur eða ekki! Ég vil fá það formlega fram, rétt eins og með pabba þinn! (Veit reyndar alveg hvað mamma þín gerir)
Þráinn (IP-tala skráð) 27.10.2008 kl. 22:34
Heill og sæll Þorgeir. Þessi pistill minnti mig á að Ármann Gunnarsson, djákni í Garðakirkju sagði okkur frá því í Guðfræði díakoníunnar II, að hann væri ítrekað spurður að því hvort hann ætlaði ekki "að fara að klára". Með því ættu menn við að hann lyki embættisprófi og yrði "alvöru prestur". Þá velti ég því einmitt fyrir mér hvort konurnar sem lykju djáknanámi, ekki síst þær sem ljúka því á miðri starfsævi eins og svo margar gera, fengju sömu spurningu. Hér kristallast að mínu mati sama viðhorf til kynjanna og e.t.v. ólíkra hlutverka þeirra í kirkjunni. Bestu kveðjur austur á Hérað.
Ninna Sif (IP-tala skráð) 30.10.2008 kl. 11:17
Takk fyrir þessar góðu athugasemdir. Já svo þetta komi nú allt formlega fram þá er mamma mín sumsé málfræðingur, eins og reyndar pabbi, en gæti allt eins vel og pabbi verið prestur!
Frábær punktur hjá þér Ninna með djáknanámið og "að klára". Ég man eftir þessu með Ármann. Þarna eru svipaðar staðalímyndir í gangi og þær sem ég var að vísa til. Ekki gott!
Þorgeir Arason, 5.11.2008 kl. 13:53
Sæll Þorgeir, gaman að lesa bloggið þitt :)
Eins og svo margir vita er ég prestsdóttir. Þegar fólk fréttir að pabbi sé prestur fæ ég oft spurninguna "Hvernig finnst þér að vera prestsdóttir?" Mér hefur alltaf þótt þetta leiðinleg spurning og á tímabili var ég komin með staðlað svar, "Bara eins og að vera t.d. læknisdóttir" :) Ég held að fólk upplifi presta og fjölskyldur þeirra sem "öðruvísi" manneskjur, athyglisvert. :)
Bergdís Mjöll (IP-tala skráð) 7.11.2008 kl. 00:10
Já, það er ábyggilega rétt hjá þér Bergdís að fólk upplifi prestsfjölskyldur á einhvern hátt öðruvísi en aðra. Merkilegt.
Bestu kveðjur, Þorgeir.
Þorgeir Arason, 7.11.2008 kl. 11:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.