Fimmtudagur, 3. apríl 2008
Vor
Vorið:
Dymbilvikan og páskarnir. - Búnir í ár, óvenjusnemma. Ég hlustaði í fyrsta skipti á alla Passíusálmana í beit hér í Grafarholtinu. Það er n.k. andlegt ferðalag að taka þátt í slíkum lestri, fylgja frásögninni frá Getsemane til Golgata - og síðan í framhaldinu að tómu gröfinni og lífsþrótti páskamorguns.
Birtan eykst og það hlýnar í veðri. - Eða hvað? Jörð var alhvít þegar ég vaknaði í morgun, en úr rættist er leið á daginn. Veturinn finnst mér hafa verið óvenjuerfiður, napur og snjóþungur. Mál er að linni. Í öllu falli fjölgar birtustundunum og það gleður mig. Nýfengið æði fyrir kvöldgöngum í Grafarholtinu með aukinni birtu er hjálplegt kroppnum og sálinni.
Lokasprettur skólaársins. - Að þessu sinni er ég í tómum próflausum áföngum, sem merkir mikla gleði í maí en að sama skapi mikinn hamagang í verkefnaskilum nú í apríl. Þó er sjálfsaginn ekki í fullu samræmi við nauðsyn þegar kemur að verkefnavinnu. Kannski er það merki um útskriftartilhlökkun og þrá eftir skólahvíld. Samt get ég varla slitið mig frá skólanum. Skrýtið.
Lokasprettur barnastarfsins í vetur. - Krakkarnir í KFUM og KFUK fóru í vorferðalögin sín um síðustu helgi og á laugardaginn er vorferð barnakórs, sunnudagaskóla og sex ára starfs hér í Grafarholti. Gaman að því, og síðustu samverurnar eru nú í apríl. Þetta er mánuður uppskerugleði eftir veturinn en um leið saknaðar, því að starfi mínu fyrir söfnuðinn er að ljúka. Nýir tímar taka við.
Athugasemdir
Skemmtilegt hvað þessi texti var háfleygur án þess þó að vera það!!!
Heiðdís Ragnarsdóttir, 4.4.2008 kl. 12:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.