Mánudagur, 25. febrúar 2008
Námshelgi í Skálholti
Var svo heppinn að eyða helginni í einkar góðum hópi samnemenda og kennara úr guðfræðideild í Skálholti, en fræðslu- og kyrrðarhelgi þar á staðnum var einn hluti námskeiðsins Framsetning kristins boðskapar í nútímasamfélagi, lokakúrsins míns í kandídatsnáminu. Gott samfélag myndaðist í sjö manna hópi nemenda og kennara, en auk okkar voru kyrrðardagagestir á staðnum. Var okkar dagskrá nokkurs konar sambland af fræðslu- og íhugunarstundum undir handleiðslu rektors og vígslubiskups í Skálholti auk prófessorsins okkar, Péturs Péturssonar.
Ekki er hægt að segja annað en að við höfum verið heppin með veður í Skálholti. Jörðin mjallhvít, himinninn heiður, lygnt og fallegt. Það var því gott að geta notið útivistar einnig, t.d. var farið í bænagöngu að Þorlákshver við dagrenningu á sunnudagsmorgninum. Og svo var eldaður og snæddur góður matur, dýrindiskjötsúpa og fleira þjóðlegt!
Þegar í bæinn kom tók við undirbúningur fyrir síðasta tíma æfingakennslunnar minnar í Hamrahlíðinni, en hann fór fram í dag, og er þá starfsþjálfun minni í kennsluréttindanáminu um það bil lokið, þó að skýrsluskil og tveir fundir séu eftir. Það hefur verið ánægjuleg reynsla að fá að spreyta sig á kennslu - en þó um leið erfið, krefjandi og mjög tímafrek, ekki síst hvað snertir undirbúning kennslunnar - því gleðst ég yfir að þessu ferli sé lokið. En nemendurnir í MH verða mér minnisstæðir fyrir hve prúðir og vinnusamir þeir voru. Agavandamál var ekki um að ræða í æfingakennslunni. Kannski voru krakkarnir svona ægilega góðir við kennaranemann
Athugasemdir
Blessaður Þorgeir,
Ég var að lesa prédikun þína á tru.is - það var frábær lesning. Fyrir stuttu las ég prédikun þína í Orðinu - og ég verð að segja það sama, báðar eru þetta virkilega vandaðar, góðar og síðast en ekki síst hugvekjandi prédikanir. Hafðu mikla þökk fyrir.
kv. ÓJB
Ólafur Jóhann (IP-tala skráð) 28.2.2008 kl. 00:05
Þakka hlýlega kveðju! Sjálfur hafði ég gaman af að endurnýja kynnin við 1. des. prédikun þína, Ólafur, um auðmýktina í sjálfstæðinu.
Þorgeir Arason, 29.2.2008 kl. 11:27
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.