Stúdentamót KSF og sunnudagur

Ég sótti stúdentamót KSF í Ölveri um helgina, þ.e. mótið stóð alla helgina en ég kom heim á laugardagskvöldinu til að sinna mínum góða sunnudagaskóla í morgun. Skemmst frá því að segja að þetta var afar vel heppnuð helgi í góðum hópi. Að vísu vorum við óvenjufá að þessu sinni, aðeins innan við 20, en það kom ekkert að sök, kannski andinn í hópnum hafi bara orðið innilegri fyrir vikið. (Ég var reyndar fullur af nostalgíu frá mótinu fyrir fjórum árum á sama stað, en það var víst í framhaldi af því sem við Hlín mín fórum að stinga saman nefjum Wink

Á mótinu að þessu sinni fluttu sr. Guðni Már Harðarson skólaprestur og Hrönn Sigurðardóttir, guðfræðingur og kristniboði, ræður undir yfirskriftinni "Ég og þú, Guð." Áhersla fræðslunnar var því á hið persónulega samband einstaklingsins við Guð, kristna íhugun og bæn og hvernig það samband á að endurspeglast í samfélagi okkar við aðra menn og í kærleiksríkri framkomu. Í gærkvöldi var lofgjörðarstund með fyrirbænum og vitnisburðum og var hún indæl í alla staði. Jesús segir að Guðs ríki sé eins og fjársjóður, dýrmæt perla. Í samfélagi í Jesú nafni, hvort sem er í kirkjunni eða í félagsskap á borð við Kristilegt stúdentafélag, er eins og maður fái að upplifa brotabrot af þessum fjársjóði.

Og það er heldur enginn smáræðis fjársjóður sem ég fæ að upplifa í sunnudagaskólanum mínum í Grafarholti, yndislegir foreldrar og börn sem koma þangað, syngja saman hreyfisöngvana, hlusta á Orð Guðs og biðja saman. Alltaf jafnerfitt að koma sér fram úr rúminu fyrir kl. 9 á sunnudagsmorgnum, alltaf jafngaman að vera kominn á fullt í sunnudagaskólanum og syngja með börnunum. Eitt finnst mér sérstaklega skemmtilegt, hversu margir feður eru duglegir að koma með börn sín í sunnudagaskólann og taka virkan þátt. Ekki svo að skilja að það sé ekki gaman að mæðrunum (og ömmunum, frænkunum og stóru systrunum!) en hve feðurnir eru áberandi er eftirtektarvert og mjög ánægjulegt.

Eftir sunnudagaskólann í dag var okkur þar svo boðið í snemmbúið bolludagskaffi eftir messuna í Þórðarsveigi 3 og vorum við nokkur sem nýttum okkur það. Rjómabollan rann ljúflega niður í Þorgeirsmaga...


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Valdís Guðmundsdóttir

Við mættum nú ekki í morgun því við vorum einmitt í Ölveri!! Þar eigum við hjónin bústað ásamt föður mínum og erum á fullu að gera hann upp. Ég elska þennan stað og finnst alltaf jafn gott að komast út úr borginni í smástund. Þó svo það séu forréttindi að búa í besta úthverfinu...

Kv. Anna Valdís

Anna Valdís Guðmundsdóttir, 3.2.2008 kl. 16:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband