Jólin koma

Þá eru þrír dagar til jóla og best að skella inn færslu áður en jólafrí tekur við á blogginu. Prófin eru nú afstaðin hjá okkur hjónum báðum, og jólaundirbúningurinn er í algleymingi. Búið að baka, skreyta, þrífa og kaupa jólagjafirnar. Eftir er að pakka inn, skrifa jólakortin (alveg erum við á síðasta snúningi með það!) og búa til snjókarl. Hið síðastnefnda gæti þó reynst erfitt miðað við desembertíðina í ár, en ekki útséð með að úr rætist.

Foreldrar mínir og 67% systkina minna voru hér í kvöld að þamba jólateið góða úr Te&kaffi (takk fyrir ábendinguna, Ninna!) með smákökum og sýna spilagaldra - það er yngsti bróðir minn, sem er mjög efnilegur 12 ára galdrakarl. Í ljós kom að hann og eiginkonan eiga þetta áhugamál sameiginlegt, gaman að svona uppgötvunum! Ungi töframaðurinn gat aðeins æft sig á bróður sínum með trikkin fyrir jólin, og það verður bara að segjast eins og er að hann er greinilega búinn að æfa sig vel, því að ég áttaði mig ekki á hvernig hann fór að því að gera helminginn af þessum brellum sínum!

Tengdaforeldrarnir komu svo færandi hendi hér síðla kvölds með lokaritgerðina mína heita úr prentvélunum, en prentarinn tengdafaðir minn er ritgerðareddari fjölskyldunnar. Um er að ræða fimm eininga kjörsviðsritgerð í lítúrgískum fræðum (eða litúrgískum eins og pabbi telur réttari stafsetningu) og ber heitið: Per omnia saecula saeculorum. Um kollektubæn messunnar í sögu og samtíð. Reyndar var ritgerðin að mestu leyti skrifuð í sumar, en af ýmsum ástæðum dróst lokafrágangur hennar til þessarar stundar. Það kemur þó lítið að sök enda er útskrift mín vitanlega ekki fyrirhuguð fyrr en í vor, en gott að ljúka þessu af fyrir jól. Ég verð að segja að ég er bara býsna sáttur við útkomuna á ritgerðinni, að því þó undanskildu að mér var bent á eina leiðinlega villu eftir að ritgerðin var farin í prentun. Þar sem ég hafði þó heimild fyrir viðkomandi rangfærslu, og hún skipaði mjög veigalítinn sess í efni ritgerðarinnar, ákvað ég í samráði við leiðbeinanda minn að láta það eiga sig. Ekkert rit verður nokkurn tíma fullkomið, allra síst námsritgerðir.

Svo verð ég að segja ykkur annað: Eitt er það, sem tilheyrir jólaundirbúningnum hjá mér og hefur gert í nokkur ár, en það er að taka eina til þrjár 3ja klst. vaktir, eftir því sem hentar á hverju ári, á sölubás Kristniboðssambandsins (SÍK) í Kringlunni. Þar hafa verið til sölu jólakort, pakkamiðar og fleira í þeim dúr til styrktar kristniboðinu og svo friðarljós Hjálparstarfs kirkjunnar, sem margir nota um jólin, t.d. til að setja á leiði ástvina. Þetta er afar mikilvæg tekjulind fyrir kristniboðsstarfið, enda er það að langmestu leyti fjármagnað með frjálsum framlögum einstaklinga og félagasamtaka og með fjáröflunarleiðum á borð við þessa. Og ekki hefur sambandið þurft að borga neitt fyrir söluplássið, heldur verið upp á náð og miskunn Kringluyfirvalda komið. - Ég verð að viðurkenna, að þessar söluvaktir hef ég ekki tekið af sjálfboðaliðahugsjóninni fyrir kristniboðið einni saman, heldur ekki síður mér til skemmtunar, enda hittir maður gjarnan fjölda fólks við þetta tækifæri, sem er í jólainnkaupunum í Kringlunni, jafnvel fólk sem maður hefur ekki hitt lengi. Það er líka gaman að sitja við rólegan sölubás og njóta jólastemmningarinnar og fylgjast með mannlífinu - fólki á hlaupum í jólaundirbúningnum.

En ég fékk leiðinlegt símtal fyrr í vikunni. Þar var á ferðinni hún Kristín Bjarnadóttir kristniboði og stórvinkona okkar, að segja mér að því miður þyrfti ég ekki að mæta í Kringluna á söluvaktina í dag, því að SÍK hefði verið tilkynnt með örstuttum fyrirvara, að nú þyrfti sambandið að víkja með sinn bás úr Kringlunni síðustu vikuna fyrir jól. Atlantsolía þyrfti að komast að þessa vikuna, og sá aðili greiddi stórfé fyrir plássið. Raunar buðust kristniboðarnir þá víst til að greiða til að halda plássinu, en því var hafnað, enda líklega vitað mál að frjáls félagasamtök sem ynnu að líknarstarfi gætu aldrei greitt viðlíka upphæðir og bensínsala eða annað gróðafyrirtæki. - Og þegar við skruppum í Kringluna í dag í verslunarleiðangur (við hefðum nú kannski átt að fara annað í mótmælaskyni, en svona er maður nú lítið samkvæmur sjálfum sér!) tók ég eftir, að Karmelsysturnar úr klaustrinu í Hafnarfirði, sem ávallt hafa haft sinn sölubás nálægt Hagkaupum með kertum, krossum og öðrum varningi sem þær vinna sjálfar, voru einnig horfnar á braut. Ekkert pláss fyrir nunnur eða kristniboða í Kringlunni síðustu vikuna fyrir eina af þremur aðalhátíðum kristinna manna. Merkilegt mál.

Hvað sem því líður gleðst ég eins og ævinlega yfir því að fá að fagna heilögum jólum. Drottinn kemur til okkar í auðmýkt í manninum Jesú Kristi, og hann kemur í hjarta okkar allra, sem við honum viljum taka. Guð gefi okkur öllum náð til þess á helgri hátíð. Gleðileg jól!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Þorsteinsson

Enginn Guð í leik- og grunnskólum og ekkert kristniboð í Kringlunni. Ég vona sannarlega að hann sé samt sem áður velkominn í hjörtu sem flestra því án hans nærveru og kærleika verða jólin litlaus og fátækari. Guð gefi ykkur hjónakornum gleðileg jól og við sjáumst vonandi fljótlega á nýju ári.

Jóhann Þorsteinsson, 21.12.2007 kl. 09:18

2 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Ég vona að þið eigið góð og gleðileg jól!

Bestu kveðjur, Sunna Dóra !

Sunna Dóra Möller, 21.12.2007 kl. 10:06

3 Smámynd: Heiðdís Ragnarsdóttir

en asnalegt, er viss um að margir sakna sölubássins núna síðustu metrana fyrir jól !

Heiðdís Ragnarsdóttir, 21.12.2007 kl. 12:44

4 Smámynd: Þorgeir Arason

Þakka góðar kveðjur!

Þorgeir Arason, 21.12.2007 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband