Raddheilsa kennara - alvarlegt vandamál

Í Fréttablaðinu 1. nóvember sl. birtist aðsend grein eftir dr. Valdísi Ingibjörgu Jónsdóttur raddmeinafræðing. Ekki lét þessi grein mikið yfir sér, og ekki hefur efni hennar fengið mikla athygli í fjölmiðlum. Eigi að síður er hér rætt um mjög alvarlegt vandamál, raddheilsu kennara, undir yfirskrifitinni: "Erum við að brjóta lög á leikskólum?".

Engum dylst, hve mikilvægt það er fyrir kennara að fara vel með þetta eitt helsta atvinnutæki sitt, röddina. Þetta gildir um kennara á öllum skólastigum, þó að raddmeinafræðingurinn beini kastljósi sínu að leikskólastiginu í þessari grein, og talar um að hávaði á leikskólum fari allt of oft yfir þolanleg mörk, og það bitni á raddheilsu kennaranna. Þó virðist löggjöfin ekki viðurkenna, að hér sé raunverulegur vandi á ferðinni, eins og dr. Valdís segir: "Vandamálið er að engin löggjöf virðist vera til varðandi hávaða sem fylgir starfsemi í menntastofnunum." Þetta er undarlegt, enda hygg ég, að þó að auðvitað séu það fyrst og fremst lág laun sem hreki kennara úr starfi, séu erfiðar vinnuaðstæður á borð við mikinn hávaða og að þurfa að reyna mjög á röddina í starfi, ekki til þess fallnar að hvetja kennara til að halda áfram störfum sínum. Þar að auki hafa raddmein kennara auðvitað mjög slæm áhrif á skólastarfið sjálft vegna t.d. aukinnar hættu á veikindafjarvistum og að kennarar geti ekki beitt sér til fulls vegna raddmeina. 

Tölurnar, sem dr. Valdís nefnir í grein sinni úr leikskólum á Akureyri, eru líka sláandi. Aðeins það að fimmtungur leikskólakennara hafi farið í veikindaleyfi vegna raddmissis er ótrúlegt. Það merkir, að séu 1000 leikskólakennarar starfandi á Íslandi (og ég hef ekki hugmynd um, hvort sú tala fer nærri lagi, líklega er hún í lægri kantinum) þá hafa 200 leikskólakennarar verið frá vinnu um lengri eða skemmri tíma vegna raddmeina.

Skyldu þá ekki vera nein úrræði til úrbóta? Greinarhöfundur nefnir sérstaklega endurskoðun á hönnun skólabygginga, og virðist það nú vera raunin a.m.k. að einhverju leyti með nýjar skólabyggingar að hugað sé að þessu. Þannig er Ingunnarskólinn nýi í Grafarholtinu að nokkru hannaður með þetta í huga, en hann var vígður haustið 2005. Salur þess skóla er t.d. mjög hljóðgleypandi.

Þá nefnir greinarhöfundur einnig skólastefnu, sem eflaust skiptir miklu máli og er kannski úrslitaatriði. Hvaða aðstæður í skólastarfinu eru það, sem leiða til þess að börnin valda svo miklum hávaða? Greinarhöfundur kastar í lokin fram þeirri staðreynd, að í Hjallastefnuleikskólunum mælist mun lægri hávaði en í almennum leikskólum, en útfærir það ekki nánar. Það verður heldur ekki gert hér, enda hef ég auðvitað enga töfralausn í þessu efni.

Hins vegar finnst mér þetta mikilvægt umhugsunarefni, og e.t.v. mætti bæta við hugmyndirnar til úrbóta, að í einum og einum skóla eru kennarar byrjaðir að nota hljóðkerfi við kennslu. Í sunnudagaskólanum hjá mér - reyndar í salnum góða í Ingunnarskóla! - ber ég sjálfur alltaf þráðlausan hljóðnema, og finnst mér það mjög þægilegt, enda þarf ég þá ekki að beita röddinni öðruvísi en vanalega, þó að ég sé að tala við stóran hóp fólks og jafnvel ólæti í sumum börnunum. Auk þess gleypir salurinn hávaðann í börnunum svo vel, að enginn þarf að hafa áhyggjur af honum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Valdís Guðmundsdóttir

Blessaður og takk fyrir innlitið á síðuna mína. Jæja, eru ólæti í börnunum í sunnudagaskólanum? Ekki mínu barni! He/he. Við köllum hana stundum gorm...

Ég get svo sem alveg játað það að við foreldrarnir erum svolítið sofandi um þetta leiti á sunnudögum enda búin að vera á fótum síðan tæplega 7 vanalega...

En alla vega, gaman að rekast á þig hér. Og by the way hún Dr. Valdís kenndi mér að segja R fyrir langa löngu. Hún var líka nágranni minn fyrir norðan og þau hjónin (þáverandi) vinahjón foreldra minna. Hörkukona hér á ferð og ég er alveg sammála því sem hér kemur fram.

 Kveðja Anna Valdís

Anna Valdís Guðmundsdóttir, 10.12.2007 kl. 19:46

2 Smámynd: Þorgeir Arason

Blessuð Anna Valdís! Já, það er nú stóri kosturinn við að hafa sunnudagaskólann í Ingunnarskólasalnum - og það eina sem ég kvíði við að færa hann yfir í kirkjuna þegar hún hefur verið vígð - hversu vel salurinn gleypir hávaðann í blessuðum börnunum - en auðvitað ekki skvísunni þinni henni Rebekku, ekkert vesen á henni... svona oftast  Og það er sko allt í lagi að þreyttir foreldrar hvíli sig meðan börnin syngja Jesús er besti vinur barnanna!

Gaman að heyra að þú þekkir dr. Valdísi. Þú hefur ábyggilega svipaðar taugar til hennar og ég til raddfræðingsins sem kenndi mér að segja S í sjö ára bekk! Sjálfur þekki ég hana ekki en greinin hennar vakti ómælda athygli mína enda er þetta hið athyglisverðasta efni.

Þorgeir Arason, 11.12.2007 kl. 09:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband