Fermingarferðir og skólafrí - undarleg tilmæli

Það er ánægjulegt að sjá á frétt mbl.is og 24ra stunda í dag, að skólastjórnendur taka við sér og sjá, hve undarleg tilmæli menntamálaráðuneytis eru, um að meina grunnskólum að gefa nemendum í áttunda bekk leyfi í 1-2 daga til að sækja fermingarfræðsluferðalag.

Foreldrar sækja um leyfi fyrir börn sín í örfáa daga til ýmissa hluta, eins og skólastjóri Flúðaskóla nefnir: til að fara í réttir, á skemmtanir, til útlanda o.s.frv. Ekki má gleyma, að foreldrar sækja gjarnan um frí til að börnin geti sinnt íþróttaiðkun sinni - farið í keppnisferðalög. Foreldrar ættu því einnig að geta sótt um leyfi í svo stuttan tíma til að barnið þeirra, sem hyggst fermast í Þjóðkirkjunni, sæki ferðalag kirkjunnar.

Það kann að koma einhverjum nemendum illa að missa úr skólanum í 1-2 daga, eigi þeir erfitt uppdráttar í náminu. Foreldrar verða að vega slíkt og meta hverju sinni. Skólanum ber algjör skylda til að sinna þeim nemendum, sem ekki kjósa að sækja um leyfi til fermingarferðalaga, hvort sem er af námslegum ástæðum,eða vegna þess að þeir hyggjast ekki fermast í Þjóðkirkjunni. Frí fyrir hluta barnanna, jafnvel fyrir 95% nemendahópsins, jafngildir ekki fríi fyrir kennarana. Þetta vita allir, helst af öllu kennararnir, en það er ein samviskusamasta stétt landsins að mínu áliti.

Ef til vill er það, líkt og skólastjóri Flúðaskóla bendir á, sú staðreynd, að prestar hafa gjarnan sótt um leyfi fyrir heilu fermingarhópana sína, í stað þess að hvert foreldri sæki um fyrir sitt barn, sem fer fyrir brjóstið á mönnum. Vilji menn meira skrifræði inni í skólunum, í því fólgið að afgreiða e.t.v. 60-80 leyfisumsóknir, í stað einnar fyrir allan hópinn, verður svo að vera. Kirkjan heldur sínu striki.


mbl.is Kirkjan fær ekki skólafrí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

Mér finnst alveg rétt, að skólar eigi að synja um þannig leyfi. Enda hefur fermingarfræðsla ekki hætishót með kennsluna í grunnskólum að gera (eða á ekki að gera það). Dóttir mín á að fermast undir leiðsögn Siðmenntar, hjá þeim eru öll námskeiðin eftir skólatíma. Ég hef enga samúð með prestunum eða þeim skólastjórnendum, sem vilja ýta þessu í gegn.

Vendetta, 28.11.2007 kl. 10:30

2 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Alveg sammála síðasta ræðumanni. Ef 80% af bekknum fær frí vegna fermingarfræðslu í þjóðkirkjunni, mun 20% þurfa að fara í gegnum sama námsefnið aftur. Hinir lífskoðunarhóparnir eru miklu minni og skiptast á marga staði, svo ekki mun verða tekið tillit til ef einn vantar þegar farið er yfir efnið, heldur mun sá nemandi þurfa að vinna upp tapið sjálfur. Þarna er verið að mismuna nemendum eftir trúarskoðun og það er bannað í grunnskólanum. Skólinn og kirkjan eiga að vera aðskilin og öll fermingarfræðsla á að vera utan skólatíma svo ekki þurfi að mismuna nemendunum.

Ég veit að allar breytingar geta verið erfiðar. Margir hugsa sem svo að svona hefur þetta alltaf verið og geta ekki séð að það hafi skaðað nokkurn. Málið er að það hefur gert lífið erfiðara fyrir marga krakka og nú þegar fólk gerir sér meira grein fyrir því, held ég að flestir séu tilbúnir til að fylgja þeim lögum sem við höfum til að koma í veg fyrir það.

Ásta Kristín Norrman, 28.11.2007 kl. 10:46

3 Smámynd: Quackmore

Ég er sammála Vendetta/Vendettu; fermingarfræðsla hefur ekkert með aðalnámskrá grunnskóla að gera.

Ef gefa á frí svo einhverjir komist í ferð tengda fermingarfræðslu þá liggur beinast við að öllum árgangnum sé gefið frí og svo fari þeir í ferðina sem það vilji. Eins má spyrja að því hvað það foreldri taki til bragðs sem á barn í fermingarhópnum en vill ekki að barnið missi úr 1-2 daga í kennslu; á það foreldri þá að afþakka ferðina svo barnið geti fengið kennslu með þeim sem heima sitja?

Quackmore, 28.11.2007 kl. 10:54

4 identicon

Alveg beið maður eftir þessum viðbrögðum frá forkólfum trúarstofnunarinnar.

Það er auðvitað sárt horfa upp á stoðir veldi síns hoggnar niður ein og ein af öxi jafnréttis og réttlætis. Að horfa upp á fyrstu atlöguna að þessu fullkomna manipulasjónkerfi þar sem félagslegur hópþrýstingur verður eitt af hjálpartækjum kirkjunnar gegn óhörðnuðum ungmennum sem leidd eru eins og lömb til slátrunar í beinum röðum frá skólum að kirkjum í skipulögðum eyðum í stundatöflum nemenda. Það þarf mjög andlega bráðþroska 12-13 ára barn til að átta sig fyllilega á þýðingu fermingar, og það þarf undravert sjálfstæði til þess að slást ekki "sjálfviljugur" með í hópinn sem arknar niður í kirkju einu sinni í viku, eins og stendur í skólatöflunni sem dreift er til nemenda í 8.bekk, og sitja freka einn heima hjá sér og bíða eftir að vinirnir komi aftur til baka. Ég man alveg hvernig þetta var.

Líklega munum við því miður þurfa að telja árin og horfa á fjölmargar viðlíka máttlausar 1 gráðu stefnubreytingar á borð við þessa sem um er rætt hjá stjórnvaldinu þar sem ég efa stórlega að hvorki dagsins atvinnupólitíkusar né hvað þá núverandi menntamálaráðstýra hafi "punginn" í að segja beint út það sem liggur í augum uppi; Hvaða rugl er þetta? "Þjóðkirkja" meikar bara ekkert sens í nútíma samfélagi!

Rassópúllos (IP-tala skráð) 28.11.2007 kl. 11:13

5 Smámynd: Heiðdís Ragnarsdóttir

magnað að þrír af fjórum kommenturum er nafnlausir  ég man ekki betur en að ég hafi fengið frí í skóla til að fara í keppnisferð til húsavíkur, fermingarnámskeið í vatnaskógi og skíðaferð til ítalíu. hefði orðið frekar fúl ef mér hefði einhvertíma verið synjað um þetta frí sem foreldrar mínir leyfðu. Og ef flestir krakkarnir í árgangnum eru að fara eitthvað saman...so be it, látiði þá sem eftir eru bara læra og hinir þurfa þá að ná því upp. Þetta þurfti maður að gera og ég er ekki frá þvíað það hafi ekki skaðað mig !!

Heiðdís Ragnarsdóttir, 28.11.2007 kl. 12:56

6 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Takk fyrir pistilinn Þorgeir, hér er ég alveg sammála þér!

Sonur minn er að fermast og það eru ca. 99% af árganginum sem að það gera. Fermingarferðirnar voru núna í Nóvember og fór ekki allur hópurinn saman heldur var skipt eftir bekkjum. Þannig að það var alveg stór hópur í skólanum þegar ferðirnar voru farnar og enginn ætti að upplifa sig þannig mismunað. Ef að málið snýst um að foreldrar biðji sjálfir um leyfi, þá myndi ég gera það. Hér má líka minna á að oft eru farnar stórar ferðir á fótboltamót og önnur íþróttamót og þurfa börn þá oft að fá frí úr skóla....er þá ekki verið að mismuna þeim sem eru ekki í fótbolta !

Mér finnst þetta mál snúast á undarlegan hátt einungis gegn kirkjunni og á örugglega eftir að sjá einhverjar réttlætingar að íþróttaiðkun sé á allt öðru plani en trú fólks og þess vegna réttlætanlegt að gefa frí vegna íþróttamóta!

Bestu kveðjur, takk fyrir pistil !

péess...þess má geta að börn í dag taka alveg sínar ákvarðanir sjá um hvort þau fermast eða ekki, ég hef spjallað við ungt fólk sem að tók alveg upplýstar ákvarðanir um að fermast ekki, ég hef talað við ungt fólk núna síðast í sumar sem var að velta þessu afar gaumgæfilega fyrir sér og síða hef ég rætt við ungmenni sem að fermast af heilum hug. Þannig að við skulum ekki gera lítið úr vitsmunum þessa barna, þau vita vel flest hvað klukkan slær í þessum efnum! Ég er orðin þreytt á þessu ofbeldistali um þjóðkirkjuna eins og hennar eina markmið sem að meiða og kúga ungt fólk! Við skulum færa umræðuna upp úr feni þeirrar umræðu og gera hana málefnalega. bkv. sama

Sunna Dóra Möller, 28.11.2007 kl. 12:58

7 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Það er óréttlætanlegt að troða trúarbrögðum í skólana! Ekkert nema frekja og tilætlunarsemi

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.11.2007 kl. 13:17

8 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Hvernig er með ykkur sem talið með fermingarfræðslu á skólatíma, er ykkur sama um hvað lögin segja? Lögin banna þetta vegna þess að það er talið vera til skaða fyrir hin börnin. Er ykkur alveg sama um það? Er svo mikilvægt að hamra kristindómnum inn í ungviði á skólatíma að það réttlætir að brotin séu bæði lands og alþjóðarlög sem við erum aðilar að?

Ásta Kristín Norrman, 28.11.2007 kl. 13:28

9 Smámynd: Heiðdís Ragnarsdóttir

hver er að hamra ? varð ekki vör við það þegar ég var í skóla

Heiðdís Ragnarsdóttir, 28.11.2007 kl. 19:22

10 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Heiðdís...það er ekki "pointið"

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 28.11.2007 kl. 20:30

11 identicon

Hér virðist vera miskilningur í gangi, fermingarfræðsla fer almennt ekki fram inn í skólanum og er ekki á stundatöflu, allavega ekki í þeim söfnuðum sem ég þekki til í, ég ætla mér ekki að fullyrða um alla söfnuði.

Sumar kirkjur, ekki allar, biðja um frí fyrir þau börn sem að fermast til að fara í fermingarferðalag.  Með því að gefa frí er ekki verið að brjóta neinn lands eða alþjóðarlög.  

Þráinn (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 11:36

12 Smámynd: Vendetta

Nei, Þráinn, það er enginn að misskilja. Um er að ræða 2ja daga fermingarferðalag t.d. upp í Vatnaskóg, þ.e. tvo heila virka daga. Sem er á skólatíma. Sem er bannað, þar eð um er að ræða ferðalag sem ekki er á vegum skólans.

Ef þetta væri farið á laugardegi og sunnudegi, þá væri enginn að fetta fingur út í það. Þannig að ég geri sterklega ráð fyrir að þessi deila verði leyst þannig að framvegis verður farið um helgar. Sára einfalt. Má vera, að biskupi geðjist ekki að því fyrirkomulagi, en verður samt að sætta sig við það.

Vendetta, 29.11.2007 kl. 17:09

13 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Hvað með öll önnur ferðalög á skólatíma sem að foreldrar fara fram á og eru ekki á vegum skólans, á ekki að banna þau líka. Skv. þessum rökum sem að hér eru sett fram hlýtur það að fylgja í kjölfarið. Ætlar menntamálaráðuneyti að taka þannig ákvörðunarvaldið af foreldrum sem að vilja leyfa börnum sínum að fara í fermingarferðlag! Börn fermast með samþykki foreldra sinna, foreldrar vita að börnin taka þátt í fræðslu sem að á sér stað utan skólatíma og í kirkjunni í flestum tilvikum og þessari fræðslu fylgir eins til tveggja daga ferðalag í sumum kirkjum ekki öllum! Ef að foreldri segir já við því, er hægt að koma í veg fyrir það af menntamála yfirvöldum??

bkv.

Sunna Dóra Möller, 29.11.2007 kl. 17:44

14 Smámynd: Davíð Örn Sveinbjörnsson

Áhugaverð umræða.

 Mér finnst sérstaklega athyglisverð ummæli Ástu Kristínar um að lögin banni fermingarfræðslu á skólatíma vegna þess að það sé talið til skaða fyrir hin börnin. Nú veit ég ekki, en Ásta Kristín virðist hafa gífurlegt innsæi inn í heim íslenskrar lögfræði ...

...lausnin er einföld...á meðan t.d. 80% bekkjarins er í fríi, þá fer engu að síður fram kennsla í skólanum, sem þeir sem fara í fermingarfræðislu missa af...en til þess að skapa nýja þjóðfélagslega umræðu (og vekja Siðmennt upp af værum svefni), þá verður kennslan á þessum tíma einskorðuð við kristinfræði og/eða trúarbragðafræði...

 p.s. þakka fyrir bloggið þitt Þorgeir!

Davíð Örn Sveinbjörnsson, 29.11.2007 kl. 23:28

15 identicon

að sjálfsögðu er allt í góðu að gefa frí en það á ekki að sækja um það fyrir allan hópinn, það er hlutverk foreldra að sækja um frí fyrir börn sín. Annað er að það má ekki taka tillit til þess að þessi hópur missir úr þar sem þau eru í fríi, t.d. þegar kemur að verkefnaskilum og yfirferð námsefnis, ég efast að það væri tekið tillit til þess við kennslu þegar nemendur fara með foreldrum sínum í helgarferð og missa einn kennsludag, það á ekki að skipta máli hvort hópurinn sé stór eða lítill, allt skal jafnt yfir alla ganga

athugull (IP-tala skráð) 30.11.2007 kl. 13:55

16 Smámynd: Ásta Kristín Norrman

Lögin banna mismunun vegna trúarbragða. Það er klár mismunun þegar 80% af bekknum fer í ferðalag og kennarinn tekur tillit til þess við kennslu að það vantar 80% af bekknum. Kennarinn gerir það. Ég hef átt börn í 8. bekk á Íslandi og veit að þegar krakkarnir voru í ferðalagi, var ekki aktivur skóli.  Það þarf ekki að vera lögfræðingur til að sjá að þetta er lögbrot. Alþjóðasamfélag setur kröfur á þau lönd sem vilja teljast með siðuðum þjóðum. Hafið þið séð fréttir frá útlöndum, þá vitið þið um að tyrkir hafa reynt að komast inní Evrópubandalagið, en verða að gera ýmsar breytingar í landinu til að fá að vera með. Ísland hefur samþykkt mannréttindasáttmála sameinuðu þjóðanna og við erum með í EES og verðum því að fylgja þeirra lögum.  Norðmenn eru í svipaðri aðstöðu og við og fengu dóm á sig í sumar. Hér hefur það þótt sjálsagt mál að kirkjan fái að stunda sáluveiðar í skólum landsins. Alþjóðasamfélagið sættir sig þó ekki við það og verðum við að leggja af þeim ósið alveg eins og Tyrkir verða að sætta sig við ýmsar breytingar ef þeir ætla að teljast meðal siðaðra þjóða.  Mannréttindasáttmáli sameinuðu þjóðanna tryggja rétt minnihlutahópa, það þýðir að meirihlutahópar fá ekki að ganga á rétt minnihlutahópa.

Ásta Kristín Norrman, 1.12.2007 kl. 13:49

17 Smámynd: Þorgeir Arason

Jæja, það hefur aldeilis skapast umræða um þennan pistil minn! Ég hef í sjálfu sér engu við hann að bæta en þakka ykkur öllum ykkar innlegg, að vísu mismálefnaleg eins og gengur

Athugum þó eitt:

Margvísleg umræða hefur farið fram í þjóðfélaginu á síðustu dögum um tengsl kirkju og skóla. Eitt er dæmið um fermingarferðalögin, annað leikskólaheimsóknir presta, hið þriðja er frumvarp til nýrra grunnskólalaga þar sem ekki er lengur minnst á "kristilegt siðgæði."

Um öll þessi dæmi er hið sama að segja: Það er að verða þróun - mjög hröð að mínum dómi - í átt að veraldarvæddara þjóðfélagi, þar sem kirkjan á ekki eins greiðan aðgang að sínu samfélagi, og verið hefur. Breytingarnar eru gífurlegar á ótrúlega skömmum tíma. Krafan um þessar breytingar kemur, eins og bent hefur verið á, ekki frá innflytjendum, sem eru í öðrum trúfélögum en Þjóðkirkjunni, heldur frá Íslendingum utan trúfélaga.

Spurt er: Eru þessar breytingar að vilja meirihluta þjóðarinnar?

Um það er mjög erfitt að fullyrða. - Eitt er víst, að miklu víðtækari umræða þarf að eiga sér stað í samfélaginu, áður en svo miklar breytingar eru gerðar.

Hér hangir miklu fleira á spýtunni, en að færa fermingarferðalög af virkum dögum á helgar, eða að foreldrar sæki um frí fyrir börn sín til þessara ferða, í stað kirkjunnar.

Þorgeir Arason, 1.12.2007 kl. 19:52

18 Smámynd: Jóhann Þorsteinsson

Frumábyrgð á uppeldi og menntun barna er í höndum foreldra. Réttur þeirra til að óska eftir leyfi fyrir börn sín frá skóla er lögvarinn og það eina sem skólastjóri getur gert ef foreldrar gerast sekir um að taka barn sitt svo mikið úr skólanum að það missi úr og fari á mis við kennslu er að senda erindi til barnaverndaryfirvalda um að foreldrarnir séu að vanrækja ábyrgð sína gagnvart skólaskyldu. Mismunun vegna trúarbragða á sér stað ef trúarleg boðun fer fram á vegum skólans á skólatíma og þeir sem ekki tilheyra viðkomandi trúfélagi þurfa að sitja hjá á meðan. Hins vegar getur það ekki talist mismunun þegar skólinn veitir einstaka nemendum frí frá námi í einn til tvo sólarhringa vegna einhvers sem skólanum er óviðkomandi. Sé þessu öðruvísi háttað og túlkun Ástu Kristínar rétt verður að teljast líklegt að ekki megi mismuna nemendum með því að taka páskafrí í skólum. Þar sem trúleysingjar og ýmis önnur trúarbrögð taka ekkert mark á skírdegi, föstudeginum langa, né páskadegi tel ég hæpið að þeir einstaklingar eða fjölskyldur þeirra vilji nokkuð fá frí á þessum dögum og kannski ætti bara að leggja það af svo engum sé nú misboðið.

Undirritaður starfar sem grunnskólakennari og leggur stund á framhaldsnám í menntunarfræðum.

Jóhann Þorsteinsson, 5.12.2007 kl. 00:35

19 Smámynd: Bryndís Böðvarsdóttir

Já, ég set ekkert út á þessa breytingu sem Þorgerður Katrín lagði til, það er vel hægt að fara í þessar ferðir um helgar.

En Kristnifræðin verður að fá að eiga sinn sess í skólum á meðan þetta mikill meirihluti vill það. Hinir hafa bara gott af að læra um þetta, þar sem að þetta er ríkur hluti af okkar menningu. Stundum verður maður bara að læra hluti sem manni finnast leiðinlegir. Ekki er um neinn heilaþvott að ræða, allavega er það ekki mín reynsla af námi minna barna. Þau læra þessar sögur án þess að áhrifin þurfi að vera nokkur, því slík eru áhrif foreldranna. Segi foreldrarnir að Kristur hafi ekki verið til og sé bara goðsögn munu börnin eflaust trúa því, alveg eins og þau munu trúa því að jólasveinninn sé í raun til, þó að hann sé það ekki, ef foreldrarnir segja þeim það.

Einn góður bloggari benti á það hversu mikilvægt það er að íslendingar haldi sínum trúarlegu sérkennum, sérstaklega í vaxandi fjölmenningu, þar sem að beinlínist geti verið hættulegt að ætla að slaka á siðum okkar og venjum til að hliðra til fyrir trúarskoðunum annarra. Vissulega megi virða þeirra trú og alls ekki að banna þeim að iðka hana, svo fremi sem hún brjóti ekki á okkar lögum og reglum. Þarna var hann að vísa til þess hvernig öfgahópar íslam notfæra sér slíkar tilhliðranir í þeim löndum sem þeir ná að festa rætur sínar í. 

Eiginlega verð ég að vera sammála því, sér í lagi sakir þeirrar miklu umræðu sem hefur átt sér stað um kúgun íslamskra kvenna í skjóli hins vestræna "trúarumburðarlyndis". Höldum hinum kristna fána hátt á lofti, því í honum er fólgið kristilegt siðferði, sem hinn vestræni heimur byggir á og sem á ekki samleið með siðferðisskoðunum trúarhópa eins og íslam. Því miður leifa lög þeirra ennþá reglur sem heimila kúgun kvenna. Þó svo að flestir þeir sem við umgöngumst séu kannski alls ekki bókstafstrúar, þá geta komið hingað hópar sem eru það.

Auk þess hafa bara allir gott af að fræðast um það hvers vegna við höldum jólin og páskana. Ekki satt?

Bryndís Böðvarsdóttir, 7.12.2007 kl. 23:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband