Föstudagur, 7. september 2007
Haust
Þegar rjúpurnar ágætu á Eiðum voru byrjaðar að taka á sig hvítan vetrarbúning og lömbin "okkar" litlu þar eystra ekki lengur lítil, heldur að breytast í upprennandi sláturfé, var lokið sumardvöl okkar hjónanna á Austurlandi. Síðasta dag ágústmánaðar keyrðum við í bæinn til að takast á við verkefni haustsins. Eitt er að flytja inn í nýju íbúðina okkar í Þórðarsveignum, en því máli erum við að vinna í þessa dagana. Annað er að byrja í Háskólanum aftur, og reyndar við bæði á nýjum vígstöðvum. Hlín er að hefja 30 eininga djáknanám sem hún hyggst ljúka í vor. Ég sjálfur er að hefja 30 eininga diplómunám í kennslufræði til kennsluréttinda á grunn- og framhaldsskólastigi, og hyggst ljúka því námi meðfram síðustu kúrsunum í guðfræðideildinni á næstu þremur misserum eða svo. (Útskriftin úr guðfræðinni ætti þó að verða næsta vor.) Þriðja verkefnið okkar er að ýta barnastarfinu í Grafarholtssöfnuði úr vör, en þar byrjar sunnudagaskólinn næsta sunnudag og virkradagastarfið fyrir eldri börn í næstu viku. Allt er þetta ægilega spennandi og skemmtilegt, þó að reyndar vanti aðeins fleiri klukkustundir í sólarhringinn þessa dagana. Maður verður þá bara að sofa hratt, eins og Eiðaklerkur segist gera!
Athugasemdir
Það er aldeilis! Óska ykkur hjónum góðs gengis í öllum hinum skemmtilegu og krefjandi verkefnum haustsins. Allt er þetta óskaplega spennandi, ekki síst nám þitt í kennslufræðum, en það er vettvangur sem á efalaust vel við þig. Stærsta verkefni mitt þetta haustið er hins vegar að annast um son minn sem í dag er 13 daga gamall.
Ninna Sif (IP-tala skráð) 9.9.2007 kl. 18:27
Hræddur um að þú sláir öllum okkar verkefnum við með þínu stóra! Innilega til hamingju með strákinn, Ninna!
Þorgeir Arason, 12.9.2007 kl. 08:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.