Kjörsviðsritgerð

Fyrstu tvær vikur júnímánaðar og að nýju nú í ágúst hefur mestur minn tími farið í að vinna í kjörsviðsritgerð minni eða lokaritgerð til embættisprófs í guðfræði. Þar sem nægu verður að sinna í vetur við síðustu námskeiðin í guðfræðideild og við kennsluréttindanám auk vinnunnar ákvað ég að best væri að ljúka ritgerðinni af að mestu leyti um sumarið. Sé ég ekki eftir því og er ánægður með að sjá brátt fram á endann á því verki. Uppkast ritgerðarinnar er reyndar tilbúið, 52 síður að lengd, en eftir er að setjast aftur niður með leiðbeinandanum, fá fleiri athugasemdir og vinna í þeim áður en hægt er að skila verkefninu. Það liggur svo sem ekki lífið á með það heldur.

Ég valdi að hafa lítúrgísk fræði eða helgisiðafræði sem mitt kjörsvið til embættisprófs og er vinnuheiti ritgerðarinnar "Per omnia saecula saeculorum: Kollektubæn messunnar í sögu og samtíð." Hið latneska orðalag í titlinum merkir "um allar aldir alda" og vísar til hins staðlaða niðurlags fornu, rómversku kollektubænanna, sem fylgt hafa kirkjunni frá því snemma á miðöldum, eða í hálft annað árþúsund. Þó mætti heitinu einnig fylgja spurningarmerki og þá með vísan til umræðu minnar í niðurlagi ritgerðarinnar um, hvort gefið sé að kollekturnar verði sannarlega beðnar með þessum hætti "um aldir alda," eða uns Drottinn kemur aftur.

Niðurstaða mín í ritgerðinni, ef hægt er að nota slíkt orð, er í stuttu máli sú, að kollektubænin er frá lítúrgískum sjónarhóli ein veigamesta bæn messugjörðarinnar, og fornu latínukollekturnar, sem nú eru notaðar í íslensku kirkjunni í þýðingu Sigurbjörns Einarssonar biskups, eru afar þýðingarmiklar við að varðveita túlkunararf kirkjunnar á Ritningunni og náðarboðskap fagnaðarerindisins. Þær eru í senn djúp íhugun á ritningargreinum hverrar messu og um leið órjúfanlegur hluti þeirrar andlegu vegferðar, sem klassíska messan er. Kollektan er hápunktur bænaþjónustunnar í upphafi messunnar, þar sem hún fylgir upphafsbæn, miskunnarbæn og dýrðarsöng, en á sama tíma er hún inngangur að þjónustu Orðsins í messunni, þ.e. ritningarlestrum, guðspjalli og prédikun. Það væri því mikil synd, ef hennar myndi ekki njóta við til frambúðar í guðsþjónustum íslensku kirkjunnar, eða ef fornu kollekturnar með sínu knappa og hnitmiðaða orðalagi yrðu afbakaðar í því skyni að gera bænirnar "einfaldari" eða "auðskiljanlegri" fyrir söfnuðinn. Fornu latínukollekturnar voru reyndar notaðar hér óslitið frá siðbót og langt fram á 19. öld, en nýjar kollektur, sem tóku mið af tíðarandanum í guðfræðinni hverju sinni, leystu þær af hendi í Handbókinni 1869 og að nýju í Helgisiðabókinni 1934. Þær voru svo endurvaktar með Handbókinni 1981, sem fyrr segir að tilstuðlan dr. Sigurbjörns og fleiri góðra manna.

Skemmst er frá því að segja að ég er afar ánægður með að hafa valið mér þetta ritgerðarefni og vonandi verður útkoman einnig ásættanleg þegar öll kurl eru komin til grafar, ef svo má segja! Leiðbeinandi minn við ritgerðarsmíðina er sr. Kristján Valur Ingólfsson, lektor í helgisiðafræðum, en hann mun manna fróðastur um allt sem viðvíkur messunni og handleiðsla hans því afar gagnleg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sunna Dóra Möller

Til hamingju með þetta Þorgeir! Það er ansi mikið frá þegar embættisrritgerðin er komin á lokastig! Einnig er þetta afar áhugavert efni sem þú valdir þér ! Enn og aftur til hamingju og gangi þér vel á komandi vetri í skólanum! Kveðja, Sunna Dóra!

Sunna Dóra Möller, 23.8.2007 kl. 12:33

2 identicon

Blessaður og sæll Þorgeir

Þetta er fallegt viðfangsefni hjá þér, ég segi fallegt vegna þess að liturgían tengist leikhúsinu og öfugt. Þetta vill fólk ekkert alltaf kannast við. Hefðin er sterk og það er frábært hjá þér að fást við þetta efni - ef ég get orðið að liði þá er ég tilbuin til þess.

Guðmundur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 23.8.2007 kl. 15:44

3 Smámynd: Þorgeir Arason

Þakka ykkur báðum góðar kveðjur. Já, gott er að sjá fram á endann á vinnu við embættisritgerð - þó að mín ritgerð verði nú örugglega ekki jafnviðamikil og sú sem þú vinnur að, Sunna!

Hvað tengsl lítúrgíunnar og leikhússins snertir eru þau vissulega ótvíræð þó að ekki ræði ég það mál sérstaklega í ritgerð minni. En gaman væri að ræða það við þig, Guðmundur, við tækifæri. Sjálfur hafði ég mikinn áhuga á leiklist sem krakki - og hef svo sem enn - og ætlaði mér lengi vel að verða leikari. Einhvers staðar á leiðinni snerist áhuginn upp í að vilja starfa innan kirkjunnar. Svona er þetta.

Þorgeir Arason, 24.8.2007 kl. 12:47

4 Smámynd: Jóhann Þorsteinsson

Einn er sá hæfileiki manna sem er afar mikilvægur bæði prestum og leikurum en það er að geta sett sig í spor annarra. vilji leikari túlka persónu í leikriti verður hann að setja sig í spor viðkomandi. Með sama hætti verður presturinn að setja sig í spor þeirra sem hann þjónar eða sem til hans leita hverju sinni. Munurinn er kannski í fljótu bragði sá að ef leikaranum mistekst þá veldur hann vonbrigðum sem ekki rista djúpt en þeir sem reiða sig á prestinn geta verið lengur að jafna sig.

Jóhann Þorsteinsson, 26.8.2007 kl. 22:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband