Í strætó

Svo háttar til á höfuðborgarsvæðinu, að byggð er óvenju dreifð, sé tekið mið af öðrum höfuðborgum. Íslendingar kjósa að hafa svolítið rými í kringum sig, búa í rúmgóðu íbúðarhúsnæði, gjarnan með stóra garða við hús sín. Spölur getur verið á milli nærliggjandi íbúðahverfa. Kannski er hér á ferð arfur bændasamfélagsins. Það eru víst ótrúlega fáar aldir síðan ekkert þéttbýli var á Íslandi, nema helst í kringum biskupsstólana, Hóla og Skálholt, og enn styttra er síðan meirihluti Íslendinga bjó í dreifbýli. Kannski er uppbygging Reykjavíkur dæmi um "dreifbýli í þéttbýlinu," ef svo má að orði komast.

Ég er nú að ræða þetta hér til að verja Strætisvagnasamlag höfuðborgarsvæðisins í nokkrum orðum. Það er enginn hægðarleikur að setja upp leiðakerfi og tímaáætlun fyrir almenningssamgöngur á hinu dreifbýla Stór-Reykjavíkursvæði, allra síst ef markmiðið er að koma farþegum á sem skemmstum tíma á milli bæjarhluta. Leiðakerfi Strætós bs. er gjarnan gagnrýnt og eflaust má alltaf reyna að bæta það. Þó tel ég varla að leiðakerfið sjálft verði mikið betra en nú er, meðan aðstæður á höfuðborgarsvæðinu eru með þeim hætti sem hér hefur verið lýst, þ.e. uns byggð er tekin að þéttast hér allverulega. Það gæti tekið aldir.

Á hinn bóginn má margt gera til að bæta þjónustu við farþegana, annað en að gera breytingar á leiðakerfinu. Skref hefur verið stigið í þá átt að gera leiðakerfið aðgengilegra með því að allar biðstöðvar hafa nú sitt nafn, eins og tíðkast erlendis. Það er ekki síst hjálplegt fyrir erlenda ferðamenn. Enn betra væri fyrir þá - og reyndar okkur Íslendingana líka - að á hverri biðstöð væri tímaáætlun viðkomandi stöðvar, þannig að auðveldara reyndist að finna út, hvenær von væri á næsta vagni. Oft getur tekið dágóðan tíma að átta sig á því, jafnvel fyrir þá, sem kunnugir eru í borginni.

Þá mætti bæta aðstöðu farþega til að greiða fargjöld til muna, t.d. með því, að vagnstjórar gætu gefið til baka af fargjaldi, og með því, að strætókort og afsláttarkort með nokkrum ferðum væru til sölu víðar en nú gerist. Einhvern tíma minnist ég þess, að hafa getað keypt strætómiða í bókabúðinni á Seltjarnarnesi. En því miður er langt síðan, reyndar svo langt, að ef forsvarsmenn Strætós reyndu nú að leita til þessarar búðar um að selja farmiða, gripu þeir heldur en ekki í tómt, þar sem langt er um liðið síðan hún lagði upp laupana. Það var þó ekki alslæmt fyrir Seltirninga, þar sem Bónusverslun hefur til skamms tíma verið, þar sem bókabúðin var áður, en einnig Bónusverslunin virðist nú eiga að hverfa af Hrólfsskálamelnum á Nesinu og víkja fyrir íbúðablokkum. En það er svo sem önnur saga.

Aftur að strætó. Best af öllu væri auðvitað, ef fargjöld væru engin í strætisvögnum höfuðborgarsvæðisins. Það er reyndar ekki alveg víst, að aðsókn í vagnana myndi aukast til muna, ef svo yrði, þar sem Reykvíkingar eru miklir einkabílsvinir. Það var því afskaplega skynsamlegt af borgaryfirvöldum - og hagstætt fyrir okkur nemendurna - að hafa nú í vetur, í tilraunaskyni, ókeypis í strætó fyrir nemendur framhalds- og háskóla. Ég fagna þessu mjög og mun sjálfur reyna að taka strætó sem oftast í vetur. Reyndar er ég búinn að finna út, að það muni taka okkur Hlín tæp þrjú kortér að ferðast með strætó úr Þórðarsveignum í Háskólann á morgnana, miðað við núverandi tímaáætlun. En það tekur líka sinn tíma að keyra, og sé tekið með í reikninginn, hve bensínverð er orðið hátt, verðum við líklega á þokkalegasta tímakaupi við bensínsparnað í ókeypis strætóferðunum í vetur! Í þokkabót finnst mér alveg drepleiðinlegt að keyra um borgina í mikilli umferð á morgnana, og finnst hreint ekki slæmt að sleppa við það.

Það gæti oltið á viðbrögðum okkar framhalds- og háskólanema við þessari nýjung hjá Strætó í vetur, hvort framhald verður á, og jafnvel, hvort fargjöld yrðu afnumin í vögnunum. Það er þýðingarmikið, að við nemendur sýnum borgaryfirvöldum í verki, að ókeypis almenningssamgöngur séu nýttar af þeim, sem eiga kost á. Takist með tímanum að fjölga farþegum í reykvískum strætisvögnum til verulegra muna, munu umhverfisáhrifin ekki láta á sér standa í formi miklu minni útblásturs- og svifryksmengunar.

Og eitt að lokum til að hæla Strætó bs. Í gær skráði ég mig á vefsíðu fyrirtækisins, til að fá leiðabók strætisvagnanna senda heim. Ekki þurfti ég að bíða lengi. Bókin kom heim til mín í dag, og ekki þurfti ég að borga krónu fyrir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Blessaður og sæll Þorgeir

Ágætur pistill hjá þér - EN, þú mátt vara þig á einu (tvennu). Það er varhugavert að halda því fram að einhver þorpsmyndun hafi átt sér stað í kringum biskupsstólanna (þó svo fornleifafræðin sanni það). Það er voðalega ljótt að halda því fram að eitthvað gott hafi hlotist af kristinni trú - því sú trú hefur bara alið á fáfræði og hörmungum. Það skiptir engu þó vitað sé að menntun t.d. á Hólum hafi verið alveg stórkostlega metnaðarfull strax frá stofnun biskupsstólsins árið 1106, það má alls ekki halda því til haga eða hafa hátt um það. Ástæðan er sú að það er svo mikið af vísindamönnum sem vita allt miklu betur en við - (ó)vísindamennirnir - sem vita allt um allt og þeir segja að kristni sé bara húmbúk og plat. Skammastu þín svo Þorgeir:)

Kær kveðja, Guðmundur

Guðmundur B (IP-tala skráð) 11.8.2007 kl. 01:07

2 Smámynd: Dagný Guðmundsdóttir

Ég mundi lykilorðið mitt yes! nú get ég kommentað......

En já í sambandi við strætó kerfi...nú hef ég ekki tekið strætó á íslandi í mörg mörg ár þar sem jú ég er stór aðdáandi einkabílsins ... En ég verð að vera sammála að mér finnst það frábær hugmynd að það verði ókeypis í strætó í vetur fyrir fólk í framhalds og háskólanum. Ég vissi ekki af því og hver veit nema ég nýti mér það.....við sjáum til haha

En það sem ég vildi aðallega segja er í sambandi við leiðarkerfið. Ég hef oft heyrt fólk kvarta undan strætó hér en ég bara skil ekki hvernig þau geta gert það. Því strætó kemur yfirleitt á þeim tíma sem hann á að koma, ef að af einhverri ástæðu hann kemur ekki, þá er alltaf einhver annar strætó sem maður getur tekið o.s.frv

Hinsvegar má alveg bæta þetta með t.d. fargjöld. Úti ... þá var einmitt gefið til baka og þú borgaðir eftir vegalengd. Þannig að ef þú þyrftir kannski að taka strætó frá þórðarsveigi í grafarvogslaug eða frá þórðarsveigi í laugardalslaug......þú myndir borga minna til að fara í grafarvoginn því það er styttri vegalengd.....mjög sniðugt!

En annars var strætó þjónusta í mínu hverfi ömurleg! Það voru 3 mismunandi strætóar sem að fóru á 2 mismunandi staði. t-62 er frábær strætó sem er bara nýbyrjaður að ganga og hann fór til Parramatta sem er ca. 20 mín keyrslufjarlægð í burtu og þar er lestarstöð og stærsta verslunarmiðstöð í NSW þannig að það var ágætt haha. En hann gekk reglulega og kom yfirleitt á þeim tíma sem hann átti að koma.

Síðan voru 740 og 745 ....... ömurlegustu strætóar sem ég nokkurn tíma vitað um (þetta eru 2 mismunandi strætófyrirtæki líka) ..... 2 skipti þá beið ég eftir 740 í klst og hann kom aldrei! ég var alveg einstaklega pirruð á því......og síðan kom 745 þannig að ég tók hann og ég spurði bílstjórann hvort hann vissi um 740 og hann sagði nei ég veit bara um minn eigin strætó.....

Og strætó gengur bara á klukkutíma fresti þar sem ég bjó.......í borginni er þetta allt annað mál

en í mínum huga þá er íslenska strætókerfið frábært miðað við þar sem ég bjó haha.......en þetta er orðið ofur langt komment...

Dagný Guðmundsdóttir, 11.8.2007 kl. 08:12

3 Smámynd: Þorgeir Arason

Þakka ykkur báðum fyrir stórskemmtilegar athugasemdir.

Ég mun þegar í stað taka vísindamennina til greina og vara mig á þessu, Guðmundur, hafðu kæra þökk fyrir ávíturnar!

Og gaman að heyra að einhver verður til að taka undir orð mín um strætókerfið íslenska. Það er ekki allt betra í útlöndum, þó að margt sé það eflaust.

Þorgeir Arason, 11.8.2007 kl. 13:35

4 Smámynd: Lutheran Dude

Ég lofa því nú ekki að ég muni taka strætó í skólann á hverjum degi, en ég get prófað. Ég minnist þess enn með hrillingi þegar ég tók alltaf strætó í skólann úr Grafarholti og kom heim á kvöldin bílveik með mígrenikast! En ég gef þessu séns...

Annað... Dagný, það yrði ekki ódýrara að taka strætó í Grafarvog úr Grafarholti þó það yrði borgað eftir vegalengdum því það er enginn strætó sem gengur þarna á milli! Það mætti bæta að tengja úthverfin betur saman, sérstaklega þau sem standa svo nálægt hvort öðru. 

Lutheran Dude, 12.8.2007 kl. 13:09

5 Smámynd: Þorgeir Arason

Nú er reyndar nýbúið að bæta úr þessu sem þú nefnir Hlín, Grafarholtsleiðin nr. 18 er farin að ganga einnig í Grafarvog, sjá hér.

Þorgeir Arason, 12.8.2007 kl. 13:30

6 Smámynd: Jóhann Þorsteinsson

Vá þessi laaanga færsla þín um strætó er fyrir mér staðfesting á því að þú ert menntaður guðfræðingur. Hún var svo löng að ég hafði ekki þol til að lesa hana alla..... hvað þá jafnlangar athugasemdir. En kannski er það bara af því ég tek aldrei strætó.

Jóhann Þorsteinsson, 12.8.2007 kl. 23:39

7 Smámynd: Dagný Guðmundsdóttir

Eitt sem ég verð að bæta við. Þetta sama kvöld og ég skrifaði þetta ofurlanga komment mitt, þá fór ég á strætósíðuna og bað um svona leiðarbók. Hún er ekki enn komin og það eru komnir 4 dagar eða eitthvað..ég nottla bjóst ekki við henni um helgina...en á mánudaginn eða í gær...en nei...ekki neitt komið!

Dagný Guðmundsdóttir, 15.8.2007 kl. 12:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband