Föstudagur, 8. júní 2007
Fyrirmyndir
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að ég vilji heldur líkjast Ragnheiði Sigurðardóttur en Hirti Magna Jóhannssyni.
Ragnheiður Sigurðardóttir er öldruð kona úr Borgarfirðinum, ógift og barnlaus, sem hefur alla sína tíð heklað fallegar flíkur, til að gefa stúlkum í fermingargjöf og konum t.d. í þrítugsafmælisgjöf. Sagt var frá henni í Samfélaginu í nærmynd á Rás 1 í gær, en þar var rætt við vinkonu hennar, Margréti Jónsdóttur, sem stendur nú ásamt fleirum fyrir sýningu á verkum hennar. Hér ku vera um dýrgripi að ræða og gamla konan afar listfeng, þó að hún vilji ekkert með það gera. Aldrei hefur hún þegið krónu fyrir þessi verk sín heldur unnið þau að loknum vinnudegi sínum sem verkakona í því skyni einu að gefa öðrum og gleðja. Ragnheiður er heldur ekkert sérstaklega hrifin af þessu uppátæki, að vera látin "monta sig" svona af verkum sínum, en gaf þó útvarpskonu kaffi og vöfflur með rjóma. Þegar hún var spurð hversu margar flíkur hún hefði heklað, sagðist hún ekki segja það! Hún vill líklega ekki vera svo "montin" að upplýsa um fjöldann, sem sennilega er dágóður. En viðtalið við þessa hógværu konu var engu að síður stórskemmtilegt.
Hjörtur Magni Jóhannsson er forstöðumaður og annar safnaðarpresta Fríkirkjunnar í Reykjavík. Hann hefur sem kunnugt er verið kærður af átta þjóðkirkjuprestum til siðanefndar Prestafélags Íslands vegna ýmissa ummæla sinna, sem tengjast Þjóðkirkjunni. Grein hans í Fréttablaðinu á miðvikudag, "Átta ríkisprestar kæra," er dapurleg lesning. Þar slær hann sjálfan sig til riddara, líkir sér við Martein Lúther, segist kærður fyrir að vera talsmaður jafnræðis og mannréttinda og gerir sér far um að niðurlægja ákærendur sína. M.a. gefur hann í skyn að einn úr hópi áttmenninganna, sem svo vill til að þjónar fámennari söfnuði en hann sjálfur, hafi fátt við vinnutíma sinn að gera, annað en að skrifa greinar um persónu hans sjálfs. Launagreiðslur til mannsins séu sóun á almannafé. - Það hlýtur þá að skiljast sem svo, að sjálfur skrifi fríkirkjupresturinn sínar blaðagreinar á nóttunni. Það væri í það minnsta í takt við þá ofurmennismynd, sem hann dregur upp af sjálfum sér í þessum og fyrri skrifum.
Það er eins og það blundi djúpt í manni - trúlega úr uppeldinu - sú hugmynd, að betra sé að temja sér hógværð en sjálfbirgingsskap. Best að setja það á verkefnalista dagsins.
Athugasemdir
Blessaður Þorgeir!
Einnig ég vildi frekar líkjast þessari heiðurskonu frekar en Hirti Magna - og frekar en svo mörgum öðrum reyndar. Kíktu á vísisbloggið, þar er Ólafur nokkur Haukur sagnfræðinemi að kenna Hirti Magna nokkur atriði úr kirkju- og menningarsögunni (og ekki vanþörf á). Rökfastur piltur og greindur vel tel ég.
Kær kveðja fá Hólum í Hjaltadal - láttu sjá þig ef þú átt leið um.
Guðmundur
Guðmundur B. (IP-tala skráð) 8.6.2007 kl. 21:18
Blessaður Guðmundur,
gott að einhver er mér sammála, því miður brast mig kunnáttu að sinni til að finna grein sagnfræðinemans. Þakka heimboð að Hólum sem er aldrei að vita nema verði þegið við tækifæri!
Kveðja frá Eiðum, Þorgeir.
Þorgeir Arason, 11.6.2007 kl. 09:39
Ég held alveg örugglega að Guðmundur sé að vísa til Ólafs Hauks Árnasonar sem birtir þessar greinar sínar á bloggsíðu sinni sem er að finna á eftirfarandi vefslóð.
http://oha.blog.is/blog/oha
kv. Davíð
Davíð Örn Sveinbjörnsson, 11.6.2007 kl. 09:44
Takk fyrir tengilinn, Davíð! Þessi greinaskrif eru mjög athyglisverð. Svargrein fríkirkjuprestsins er mjög í hans stíl, uppfull af sjálfsréttlætingu og niðurlægingu á "óvininum." Ábendingar Ólafs eru bæði réttar og þarfar leiðréttingar á rangfærslum Hjartar Magna. Kannski ætti klerkur að leita upplýsinga um fyrsta fríkirkjusöfnuðinn á Íslandi - stofnaðan á Reyðarfirði um 1880 - hjá þeim manni, sem skrifaði lokaritgerð sína í guðfræði um söfnuðinn á sínum tíma. Hann heitir Karl Sigurbjörnsson.
Þorgeir Arason, 11.6.2007 kl. 10:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.