Laugardagur, 5. maí 2007
Mont, mont!
Það er nauðsynlegt að setja hér inn litla "mont-færslu" í tilefni af gærdeginum, en þá festum við hjónin kaup á okkar fyrstu íbúð, afar fallegri íbúð í Grafarholtshverfinu nýja, nánar tiltekið í fjölbýlishúsinu nr. 16 við Þórðarsveig. Því miður vorum við ekki svo forsjál að vista myndirnar af íbúðinni þegar þær enn voru á vefnum og því verða áhugasamir að bíða með að sjá herlegheitin fram í september, þegar við flytjum inn.
Margir hafa lýst furðu sinni á því, að Seltirningurinn ég skuli vilja flytja svona í hinn enda borgarinnar. Og ekki hefði ég trúað þeim manni sjálfur, sem hefði sagt mér fyrir nokkrum árum, að þar myndi ég enda - í námunda við Reynisvatnið, sem maður fór í skólaferðalög til í æsku og fannst maður kominn svo gríðarlangt út fyrir borgarmörkin. En allt er breytingum háð, og nú hlakka ég til að flytja í Grafarholtið góða. Kostir þess eru margir, og má t.d. nefna þrjá: a) Íbúðirnar þar eru nýlegar, og því lítil hætta á nauðsyn viðgerða í bráð, en það hentar "handlögnum" mönnum eins og mér vel; b) Nálægðin við náttúruna; c) Það er styttra vestur í bæ en menn halda, sérstaklega á góðri Corsu
Athugasemdir
Til hamingju, ég skoðaði myndir meðan þær voru á netinu, rosa flott.
Þráinn (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 16:42
Til hamingju Þorgeir og Hlín! Það er fínt að búa hér í sveitinni (efri byggðir Reykjavíkur) og í námunda við tvö stór stöðuvötn, annars vegar Reynisvatnið og hins vegar Rauðavatnið! Grafarholtið er án efa afar gott hverfi líkt og vonandi á ykkur hjónum eftir líða vel í nýju íbúðinni! Með kveðju, Sunna Dóra
Sunna Dóra Möller, 5.5.2007 kl. 16:44
Kæru hjón, til hamingju með þennan stóra áfanga. Megi hamingjan umvefja ykkur í nýju íbúðinni. Ég er líka ein af þeim sem hélt að það væri beinlínis ekki hægt að draga andann austan Hringbrautar, en viti menn, hamingjuna er víðar að finna!
Ninna Sif (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 20:39
Til hamingju, margt gott fólk að flytja í Grafarholtið, Þorkell Gunnar og fjölskylda hans flytur í júní og þið í haust. Þetta veit á gott!
Innilega til hamingju
Guðni Már (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 21:39
Innilega til hamingju - ég vissi að þú værir dreifbýlismaður í hjarta þínu!
Ólafur Jóhann Borgþórsson, 6.5.2007 kl. 01:36
Ef þeir sem búa í Grafarholtinu teljast til dreifbýlismanna þá bý ég líklega í annarri heimsálfu. Annars óska ég ykkur til hamingju með íbúðina og vona að ykkur muni líða vel þar.
Jóhann Þorsteinsson, 6.5.2007 kl. 23:51
Bestu þakkir fyrir góðar kveðjur! Dreifbýlið er mjög teygjanlegt hugtak, en Akureyri er vissulega í annarri heimsálfu
Þorgeir Arason, 7.5.2007 kl. 21:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.