Þriðjudagur, 17. apríl 2007
Magnús og Munk
Á sunnudaginn var ég svo lánsamur, að mér áskotnaðist merkisbók, predikanasafnið "Við Babýlons fljót" frá 1944 eftir danska prestinn og skáldið Kaj Munk í þýðingu Sigurbjarnar Einarssonar biskups. Bókina færði mér að gjöf Sigríður Grafarholtsprestur Guðmarsdóttir, að eigin sögn fyrir gott samstarf í vetur. Upphaflega keypti hún bókina að gamni sínu á fornbókasölu, en ákvað að gefa mér hana þegar úr henni datt bréfmiði sem á var skrifað stutt sendibréf, undirritað "Magnús."
Ég hafði legið svo lengi yfir dagbókum og handrituðum predikunum séra Magnúsar Runólfssonar (d. 1972), prests og framkvæmdastjóra KFUM í Reykjavík um árabil, við undirbúning BA-ritgerðar minnar í guðfræði um hann á síðasta ári, að ég var ekki nema sekúndubrot að staðfesta þann grun séra Sigríðar, að bréfið sem datt út úr bókinni, var skrifað af honum. Bréfið skrifar hann til "Margrétar og Sveinbjargar," trúlega gegnra KFUK-kvenna eða annarra vinkvenna hans, og er aðalefni þess að þakka fyrir gjöf sem þær hafa fært honum, "allt jarðríki og íslenzka fánann blaktandi yfir," eins og hann orðar það - trúlega hnattlíkan! Einkum skrifar þó séra Magnús um það, hve feiminn hann sé við að þiggja gjafir og finnist margir þurfa frekar á slíku að halda en hann. Segir þetta ýmislegt um persónuleika séra Magnúsar!
Gaman væri, ef einhverjir þekktu til umræddra Margrétar og Sveinbjargar, og gætu sagt mér frá þeim og tengslum þeirra við séra Magnús, annaðhvort hér í athugasemdakerfi síðunnar eða persónulega.
Bók Munks sjálf er komin á náttborðið hjá mér og hef ég þegar lesið þær predikanir, sem heyra til páskatímanum og fyrstu sunnudögunum eftir páska. Þetta er góð lesning, skýr boðun fagnaðarerindisins á kjarnyrtu máli. Ekki spillir þýðing séra Sigurbjarnar fyrir. Kaj Munk fæddist laust fyrir aldamótin 1900 og starfaði sem prestur í lítilli sókn í Danmörku frá því að hann lauk guðfræðiprófi og uns hann mátti gjalda fyrir andspyrnu sína gegn nasistum með lífi sínu árið 1944, sama ár og fyrrnefnd bók kom út, og ber hún þessa máls allnokkur merki. Munk var þekktur leikritahöfundur og skáld og misminni mig ekki setti Guðrún Ásmundsdóttir upp leikrit um ævi hans fyrir nokkrum árum hér á Íslandi. (Þeir leiðrétti mig, sem betur vita.)
Athugasemdir
Sæll Þorgeir. Það er rétt að Guðrún Ásmundsdóttir skrifaði handrit að leikriti um Kai Munk sem var frumsýnt í Hallgrímskirkju fjórða janúar 1986. Hún endurvann svo handritið í júní 2000, ég man ekki alveg hvort að það var sýnt aftur af því tilefni. Bolli vann lokaritgerð sína í deildinni einmitt um Kaj Munk og greindi þar m.a predikanir Kaj Munk úr bókunum "Með orðsins brandi " og "Við Babýlons fljót" og hann notaðist einmitt einnig við þetta handrit Guðrúnar og ræddi við hana þegar hann vann að ritgerðinni um leikverkið .
Kær kveðja, Sunna!
Sunna Dóra Möller, 18.4.2007 kl. 09:23
Bestu þakkir fyrir þessar upplýsingar, Sunna. Það hefur eflaust verið skemmtilegt viðfangsefni hjá Bolla að skrifa um Munk, maður þyrfti að líta á ritgerðina við tækifæri!
Þorgeir Arason, 19.4.2007 kl. 12:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.