Þriðjudagur, 10. apríl 2007
Gott framtak þjóðkirkjupresta gegn óásættanlegum málflutningi
Í fréttum um páskahelgina kom fram, að átta þjóðkirkjuprestar hafa nú tekið sig saman og kært ummæli sr. Hjartar Magna Jóhannssonar, safnaðarprests Fríkirkjunnar í Reykjavík, sem hann viðhafði í fréttaþættinum Kompási á Stöð tvö á dögunum, til Siðanefndar Prestafélags Íslands. Nú í kvöld mætti svo fríkirkjupresturinn einum þjóðkirkjuprestanna átta, sr. Írisi Kristjánsdóttur, sóknarpresti í Hjallakirkju í Kópavogi, í umræðum í Íslandi í dag, einnig á Stöð tvö.
Þykir mér þetta framtak þjóðkirkjuprestanna átta afar ánægjulegt, og má ljóst vera, eins og fram kom í sjónvarpsumræðunum í kvöld, að hin tilteknu ummæli í Kompási hafi aðeins verið dropinn, sem fyllti mælinn, eftir margvíslega og oft á tíðum afar harðorða gagnrýni fríkirkjuprestsins í garð Þjóðkirkjunnar og hennar þjóna. Sú gagnrýni hefur m.a. átt sér stað úr predikunarstóli Fríkirkjunnar í Reykjavík í útvarpsguðsþjónustum.
Það var einkennilegt að horfa upp á sr. Hjört Magna reyna að afsaka þau ummæli sín í Kompási, að "sérhver trúarstofnun, sem telji sig höndla sannleikann, sé samstundis orðin djöfulleg" með því, að þeim hafi ekki verið beint sérstaklega gegn Þjóðkirkjunni. Verður að telja þetta eitt af mörgum dæmum um rangfærslur sr. Hjartar Magna, enda fjallaði sjónvarpsþátturinn sérstaklega um Þjóðkirkjuna og beindu viðmælendur, ekki síst sr. Hjörtur Magni, spjótum sínum að henni. Þá þótti mér ekki síður furðulegt og til marks um sérkennilegan sjálfsskilning sr. Hjartar Magna, þegar hann líkti sjálfum sér við siðbótarmanninn Martein Lúther í gagnrýni sinni á kirkjustofnunina. Það gleymdist reyndar hjá honum í þeim samanburði að minna á, að Lúther ætlaði sér aldrei að kljúfa kaþólsku kirkjuna, heldur vildi gagnrýna hana og siðbæta innan frá. Ég hef hins vegar ekki heyrt sr. Hjört Magna gagnrýna sitt eigið trúfélag, aðeins annað, tiltekið trúfélag, sem er honum ekki í neinu skylt.
Og þó! Ef vel er að gáð er samstarf Þjóðkirkjunnar margvíslegt við evangelísk-lúthersku fríkirkjurnar í landinu. Biskup Íslands vígir t.a.m. presta Fríkirkjunnar í Reykjavík, og hafa reyndar langflestir prestar hennar verið upphaflega vígðir til þjónustu innan Þjóðkirkjunnar, þ.m.t. sr. Hjörtur Magni sjálfur! En sr. Ása Björk Ólafsdóttir, sem vígð var af biskupi Íslands ekki alls fyrir löngu til þjónustu við Fríkirkjusöfnuðinn við hlið sr. Hjartar Magna, er þó undantekning frá þessu. - Hvers vegna ætti Þjóðkirkjan að eiga í svo nánu samstarfi við trúfélag, þar sem forstöðumaðurinn vinnur með markvissum hætti gegn starfi hennar og etur hana auri? Það skil ég varla.
Og ekki skildi ég heldur, hve vel sr. Írisi Kristjánsdóttur tókst að halda ró sinni gegn sr. Hirti Magna í sjónvarpsumræðunum nú í kvöld. Frammistaða hennar þar var aðdáunarverð.
Athugasemdir
Í þessum þætti kom svo greinilega fram að sr. Hjörtur Magni veit hvað er Guði þóknanlegt, hvernig Marteinn Lúther hefði brugðist við í dag við orðum hans og hvar sannleikann er að finna. Sr. Hjörtu Magni er svo sannarlega sómi kristinnar trúar, sverð og skjöldur. Þorgeir ef við villumst eitthvað af leið þá er gott til þess að vita að sr. Hjörtur Magni getur leitt okkur á rétta vegu - kompásinn hans er hinn eini rétti kompás.
Guðmundur Örn Jónsson, 11.4.2007 kl. 10:08
Í þessum þætti kom svo greinilega fram að sr. Hjörtur Magni veit hvað er Guði þóknanlegt, hvernig Marteinn Lúther hefði brugðist við í dag við orðum hans og hvar sannleikann er að finna. Sr. Hjörtu Magni er svo sannarlega sómi kristinnar trúar, sverð og skjöldur. Þorgeir ef við villumst eitthvað af leið þá er gott til þess að vita að sr. Hjörtur Magni getur leitt okkur á rétta vegu - kompásinn hans er hinn eini rétti kompás.
Guðmundur Örn Jónsson, 11.4.2007 kl. 10:10
Já einmitt, enda hefur hann verið höndlaður af sannleikanum á réttann hátt. Eða var það hann sem hafði höndlað sannleikann.
Jón Ómar Gunnarsson, 11.4.2007 kl. 14:48
Þessi orðaleikur um að höndla sannleikann og að vera höndlaður af sannleikanum var nokkuð athyglisverður. Að sjálfsögðu er það rétt hjá Hirti Magna að kristin kirkja leitast við að vera hönduð af sannleikanum þ.e. Jesú Kristi og orðum hans. Á sama tíma boðar kirkjan sannleikan þ.e. Jesú Krist og orð hans. Í ræðu og rit er kirkjan því að höndla orð Jesús Krists og boðskap hans sem er sannleikurinn.
Ég vil hins vegar segja að í orðum Hjartar um trúarstofnanir sem að telja sig hafa höndlað sannleikann og við þekkjum framhaldið sé fólgin ákveðin rökvilla. Það liggur í eðli flestra trúarstofnana og trúarbragða að þau telja sig sjálf vera að höndla og fara með sannleikann. Kristinn kirkja hefur t.d. alltaf haldið því fram að orð Jesús Krists sé sannleikur. Hjörtur Magni hlýtur einnig að gera það sjálfur - spurningin er þá hvort að hann teljist djöfullegur og stórhættulegur ef marka má orð hans.
Þjóðkirkjan er alls ekki hafin yfir gagnrýni og oft mega þjónar hennar vara sig á því að byrja ekki að dýrka stofnuninna. Það afsakar hins vegar ekki orðfæri Hjartar Magna, ef gagnrýni á að leiða eitthvað gott af sér verður hún að byggja á einhverju og vera sett fram af heillindum, það á ekki við um þá gagnrýni sem að Hjörtur Magni hefur viðhaft um Þjóðkirkjunna. Ummæli hans um að þeir prestar sem að kærðu hann sé kærleikslausir, óumburðarlyndir og bókstafstrúar er gott dæmi um það hvernig ummæli hans dæma sig í raun sjálf.
Í lok þessa þankagangs vil ég taka fram að það er bjargföst skoðun mín að Þjóðkirkjan hafi rétt á því standa upp og verja sig, líkt og þessir prestar hafa gert nú. Á sama hátt hlýtur Þjóðkirkjan að mega segja að þjónusta hennar sé fyrst og fremst fyrir meðlimi hennar, afhverju erum við annars með skráningar í trúfélög? Dettur heldur engum í hug að benda á þá hræsni að segjast tilheyra Fríkirkjunni en þiggja hins vegar alla þjónustu frá Þjóðkirkjunni líkt og móðirinn í frétt á visir.is? Ég hefði líka haldið að það væri metnaður Fríkirkjuprests að uppfræða sinn söfnuð, hann ætti bara ekkert að segja frá því börnin leiti yfirleitt eitthvað annað.
Þráinn (IP-tala skráð) 12.4.2007 kl. 12:02
Sammála öllum þremur síðustu ræðumönnum. Kveðja, Þorgeir.
Þorgeir Arason, 12.4.2007 kl. 17:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.