Laugardagur, 31. mars 2007
Spennuþrunginn aðalfundur á óvæntum stað
Það er ekki á hverjum degi, sem aðalfundir í fámennum nemendafélögum taka á sig svip rafmagnaðrar kosningaspennu. En slíkt var þó uppi á teningnum á aðalfundi Félags guðfræðinema í gær, föstudag.
Allt fór þó fram í hinu mesta bróðerni, en svo virðist sem félagsleg vakning hafi átt sér stað meðal guðfræðinema. Í gegnum tíðina hefur oftar en ekki þurft að ganga á eftir fólki til að bjóða sig fram til helstu embætta á vegum félagsins, en nú fór svo, að kjósa þurfti um flest trúnaðarstörfin í félaginu. Var spennan mikil meðan atkvæði voru talin, ekki síst um embætti formanns og ritara, en aðeins munaði einu atkvæði á frambjóðendum í báðum tilfellum.
Þá var það mér mikið ánægjuefni, sem fráfarandi meðlimi í Kirkju- og kapellunefnd guðfræðinema , að einnig komust færri að en vildu í þá nefnd. Lýsir það vonandi vaxandi áhuga nemenda guðfræðideildar á starfi í Háskólakapellunni. Guð láti gott á vita.
Athugasemdir
Blessaður Þorgeir. Ég er sammála því að fundurinn hafi komið skemmtilega á óvart. Hlýtur þetta að vera til marks um aukna meðvitund fólks í deildinni um félagið sitt, og þá um leið hrós til þeirra sem setið hafa í stjórn.
En varðandi KOK þótti mér nánast grátlegt að kjósa þyrfti í þá nefnd. Það hefði verið ákjósanlegt að geta hleypt þeim öllum í nefndina, ekki síst vegna þess að verkefni hennar eru ærin. En svona er lífið, og alltaf gaman að hafa kosningar!
Ninna Sif (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 11:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.