Mánudagur, 26. mars 2007
Í Skálholti
Í síðustu viku fékk ég tækifæri til að eyða degi á hinu sögufræga biskupssetri, Skálholti. Það er reisn yfir nafni þessa staðar einu saman, hvað þá yfir staðnum sjálfum, og þangað er gott að koma.
Tilefni ferðarinnar var það, að von var á fermingarbörnum frá Selfossi, úr Flóanum og af Klaustri til daglangrar dvalar þar til náms og menningarauka. Meðal umsjónarmanna barnanna var Stefán Einar, minn ágæti félagi úr guðfræðideild, og fékk hann mig til að vera einnig til halds og trausts á námskeiðinu. Þess má til gamans geta, að Stefán þessi heldur úti bloggsíðu, sem eflaust er í hópi þeirra mest lesnu í landinu.
Það var ánægjulegt að kynnast fyrirkomulagi fermingarnámskeiða í Skálholti, en ég hef starfað á nokkrum slíkum námskeiðum í Vatnaskógi nú seinustu árin. Í Skálholti kynnast börnin m.a. orgeli kirkjunnar og ýmsum hljóðum þess, fornleifasafninu í kjallara kirkjunnar, og vinna með leikræna tjáningu út frá biblíusögu. Stjórnandi námskeiðsins var Gunnar Einar Steingrímsson, BA í guðfræði og æskulýðsfulltrúi, en veg og vanda af skipulagi námskeiðanna hefur dr. Kristinn Ólason, rektor Skálholtsskóla. Var gaman að sjá þennan hálærða mann svo ófeiminn við að grípa í gítarinn og taka þátt í léttum söng með börnunum.
Maturinn í Skálholti var bragðgóður en mjög kunnuglegur úr Vatnaskógi. Ég gæti trúað, að það væri bundið í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar, að fermingarbörn snæddu grjónagraut og flatbökur á námskeiðum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.