Guðsþjónusta og messa

Ég vil þakka Jóhanni Þorsteinssyni fyrir athugasemd sína um færslu mína hér að neðan um óhefðbundna útvarpsmessu fyrir viku síðan. Ég vil þó vekja athygli hans og annarra lesenda á því, að ekki er alls kostar rétt, að altarisganga þurfi að fara fram í guðsþjónustu, til að hægt sé að tala um messu. Sú hefð hefur reyndar myndast, en í Embættisgjörð Einars Sigurbjörnssonar (s. 165) segir engu að síður:

"Messa er athöfn, þar sem saman fer prédikun orðsins og þjónusta við Guðs borð. Af sögulegum ástæðum fer ekki alltaf fram altarisganga innan lútherskra kirkna. Samt sem áður hefur orðið messa festst við höfuðguðsþjónustu safnaðarins á sunnudegi, sem byggð er upp af hinum sígildu messuliðum vestrænnar messu... Óhætt er því að auglýsa messu, enda þótt altarisganga fari ekki fram."

Þá segir í Handbók kirkjunnar frá 1981, s. 7 (Til aðgæslu við messugjörð): "Messan er samfélag um orð Guðs og borð ásamt tilbeiðslu og bæn... Messa er, þótt þriðja þætti hennar sé sleppt (messa án altarisgöngu)."

Okkur Jóhanni og öðrum ætti því, héðan í frá sem hingað til, að vera óhætt að tala um fjölskyldumessur, æskulýðsmessur og ýmsar aðrar messur, jafnvel þó að ekki fari þar fram altarisganga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhann Þorsteinsson

Það var með ákveðnum trega sem ég lét það eftir mér að setja inn þessa athugasemd. Ég hef hitt þá presta sem eru óhressir með að talað sé um messu þegar ekki er brotning brauðsins. Þess vegna vildi ég fá fram þitt sjónarmið vegna þess að ég var viss um að þú myndir leggja það fram með rökstuðningi. Ég læt mér þetta að kenningu verða og messa ekki frekar yfir þér Þorgeir minn.....Enda hef ég ekki til þess tilskilin leyfi. 

Jóhann Þorsteinsson, 11.3.2007 kl. 23:32

2 Smámynd: Pétur Björgvin

Mín skoðun er sú að fólk eigi rétt á að fá að vita um hvers konar athöfn er að ræða. Því ættum við að stefna að því að auglýsa aðeins messur ef um altarisgöngu er að ræða. Það er góður siður sem margir hafa tekið upp og óskandi að fleiri feti í þau spor.

Hins vegar skal ég alveg kyngja því að vel geti verið að hinn almenni borgari hafi aldrei pælt í muninum á guðsþjónustu og messu. Hef hins vegar ekkert í höndunum þ.a.l.

Pétur Björgvin, 12.3.2007 kl. 09:06

3 Smámynd: Þorgeir Arason

Ég er nú aldeilis glaður að einhver skuli sýna þessum hugtökum og umfjöllun um þau áhuga! Tek undir hjá Pétri Björgvini að fólk eigi rétt á að vita hvort altarisganga fari fram, en það er nú hægur vandi að venja sig á að auglýsa t.d. "Messa kl. 11. Altarisganga fer fram" eða eftir atvikum "Messa með altarisgöngu kl. 14."

Svo mætti líka segja að þessi umræða sé óþörf þar sem altarisganga eigi einfaldlega alltaf að fara fram í guðsþjónustum! Það er göfugt markmið í sjálfu sér, en messuform án altarisgöngu, t.d. fjölskyldumessa og æskulýðsmessa, eiga einnig rétt á sér að mínum dómi - og eru fullgildar messur í mínum huga.

Þorgeir Arason, 12.3.2007 kl. 10:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband