Miðvikudagur, 28. febrúar 2007
Samkeppni bankanna
Íslenskir bankar hafa verið í umræðunni að undanförnu vegna þess, sem margir vilja kalla skort á samkeppni þeirra á milli og okurkjör á vöxtum og þjónustugjöldum viðskiptamanna. Sá æðsti stjórnandi eins bankans ástæðu til að lýsa því yfir í dagblaði um daginn, að samkeppnin á milli bankanna væri "hörð og grimm." (Bankann, sem þessi maður stjórnar, tekur því ekki að nafngreina, því að eins og fleiri bankar skiptir hann nánast örar um nafn en forstjórinn um sokka.)
Sjálfur hef ég alla tíð verið með reikning í Sparisjóðnum og yfirleitt verið þokkalega sáttur með viðskiptin þar. Ég efast þó um, að ég sé einn af "ánægðustu viðskiptavinum í bankakerfinu", því að slest hefur upp á viðskipta-vinskapinn af og til. - Nú stendur yfir skemmtileg auglýsingaherferð á strætóskýlum, þar sem líkt er eftir forsíðum Séðs og heyrðs, og myndir birtast af brosandi, ungu fólki með stríðsfyrirsögnum á borð við: "LÉT GAMLA BANKANN HEYRA ÞAÐ!" og "FÓR YFIR Í SPARISJÓÐINN!".
Á dögunum fékk ég símtal frá Landsbankanum, þar sem stúlka lýsti fyrir mér, að þjónustufulltrúi bankans hefði gert frábært tilboð í mín bankaviðskipti - hvort ég væri nú ekki til í að hitta fulltrúann og kynna mér málið. Ekki fannst mér saka að reyna það. Ákefðin í að ná tali af mér var þvílík, að daginn fyrir fundinn með fulltrúanum var hringt aftur til að minna á hann, og loks var sent SMS klukkustund fyrir fund.
Í ljósi þessa ákafa bjóst ég við að reyna "hina hörðu og grimmu samkeppni" bankanna á milli á fundinum, og að þjónustufulltrúinn myndi keppast við að lýsa fyrir mér ágæti Landsbankans, sýna mér hvaða þjónustuleiðir hagstætt væri fyrir mig að nýta mér, dæla í mig bæklingum og helst fá mig til að stofna reikning og taka himinhátt lán á staðnum.
Undrun mín var mikil þegar á staðinn kom. Fulltrúinn reyndist hafa ósköp lítinn áhuga á að ræða við mig og mátti ég byrja á að bíða svolitla stund meðan hún lauk við að svara tölvubréfi. Þó mætti ég tveimur mínútum eftir tilsettan fundartíma. Ræða fulltrúans fólst svo í afar almennum orðum um kosti Landsbankans, hún hafði hvorki tilboð, bæklinga né nokkuð annað tilbúið fyrir mig, og þrátt fyrir að ég reyndi að draga upp úr henni með töngum, af hverju í ósköpunum ég ætti að færa bankaviðskipti mín úr Sparisjóðnum til Landsbankans, hafði ég ekki erindi sem erfiði. Við vorum hvort öðru fegnara þegar ég þakkaði pent fyrir mig og fór. Það er ekki víst, að hluthafar bankans hafi verið jafnfegnir þessari frammistöðu starfsmanns síns, sé miðað við hve "hörð og grimm" samkeppni ríkir á milli bankanna um viðskiptavini. - En reyndar er ég svo latur við lántöku enn sem komið er, að kannski er ég alls ekki eftirsóknarverður viðskiptavinur!
Athugasemdir
Ég vil kaupa kvikmyndunarréttinn á þessari frásögu.
Antonio Banderas mun leika þig!
Grétar (IP-tala skráð) 28.2.2007 kl. 22:44
Kvikmyndunarrétturinn er falur fyrir svörin í heimaprófinu hjá Jóni Ma...
Þetta verður örugglega frábær mynd.
Þorgeir Arason, 1.3.2007 kl. 16:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.