Þriðjudagur, 27. febrúar 2007
Trúarbragðaréttur
Þessa vikuna er starfsvika guðfræðideildar. Nafngift þeirrar viku er reyndar frekar villandi, líkt og "starfsdagar" í grunnskólum, en bæði heitin gefa til kynna, að ekki sé starfað nema þessa tilteknu daga eða vikur. Í grunnskólum hygg ég því, að farið sé að tala um "starfsdaga kennara án nemenda" eða eitthvað í þá átt - lesi einhver grunnskólakennari þessar línur væri gaman að heyra viðbrögð!
Og í guðfræðideild starfa bæði nemendur og kennarar að öðru jöfnu hvorir án annarra í starfsviku, þar sem regluleg kennsla liggur niðri. En í starfsviku hefur hins vegar oft verið reynt að fá erlenda gestakennara til að koma til landsins og kenna stutt námskeið á sínu sérsviði við deildina. Hef ég í tvígang sótt slík námskeið og í bæði skiptin verið mjög auðgandi. Þessa starfsvikuna sæki ég svo námskeið í trúarbragðarétti hjá dr. Lisbeth Christoffersen, dönskum lögfræðingi, sem m.a. kennir þá grein við Kaupmannahafnarháskóla. Í námskeiðinu er m.a. trúfrelsishugtakið tekið til umfjöllunar og hvaða merkingu það hefur í reynd, t.d. á Norðurlöndunum, þar sem þjóðkirkjuskipulag er, en öllum í stjórnarskrá tryggður réttur til sinnar trúarsannfæringar.
Tengsl ríkis og kirkju hafa verið ofarlega á baugi í samfélaginu á undanförnum misserum og nú hefur Ásatrúarfélagið höfðað dómsmál vegna þess, sem félagið vill meina að sé mismunun ríkisvaldsins á milli trúfélaga, þ.e. ívilnun í garð Þjóðkirkjunnar umfram önnur trúfélög. Það er í ljósi þessara og annarra deilumála er tengjast trúfrelsisumræðunni, s.s. Vinaleiðarinnar, sérlega áhugavert að fá tækifæri nú til að sitja námskeið hjá sérfræðingi um efnið. Ekki spillir fyrir að á námskeiðinu sitja auk guðfræðinema m.a. prófessorar við guðfræðideild, prestar, djáknar og lögfræðingur, sem eru óhrædd við að taka til máls og ræða stöðuna á Íslandi út frá sinni kunnáttu og reynslu.
Athugasemdir
Blessaður og sæll. Ég mun víst vera grunnskólakennari svo ég bregst við áskorun um að láta heyra frá mér. starfsdagar í grunnskólum hafa um nokkurn tíma heitið því nafni en sums staðar hef ég séð viðbótina 'kennara' til að undirstrika að nemendur eiga frí á starfsdögum. Annars má oft deila um nafngiftir. T.d. er 7 ára dóttir mín ósátt við tíma á föstudögum í skólanum sem heitir 'Val' en þar sem aðeins þrennt er í boði finnst henni þetta rangnefni því hún vill fá frjálst val því annars sé ekki hægt að kalla þetta val. Ég get ekki mótmælt þessum rökum hennar þó svo ég reyni að malda í móinn.
Jóhann Þorsteinsson, 28.2.2007 kl. 10:07
Sæll Jóhann Hjaltdal og þakka þér viðbrögðin. Ég er sammála dóttur þinni um misvísandi nafngift valstundanna í skólanum, þú sem kennari ættir að láta í þér heyra á opinberum vettvangi um þessa nafnaklípu.
Þorgeir Arason, 28.2.2007 kl. 19:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.