Sunnudagur, 31. desember 2006
Dyrnar lokast
Dyrnar lokast í kvöld og aðrar opnast á miðnætti. Tíminn líður og enn eitt árið er að baki.
Árið 2006 hefur verið viðburðaríkt í mínu lífi. Ekki ætla ég að birta hér annál tilveru minnar fyrir árið, en upp úr stendur auðvitað brúðkaup okkar skötuhjúa 29. júlí síðastliðinn, geysilega eftirminnilegur dagur, skínandi gull í minningunni. Og dyrnar halda áfram að opnast, en rétt í þann mund sem ég var að setjast við tölvuna til að rifja upp mitt eigið brúðkaup hringdu góðir vinir okkar Hlínar í okkur til að segja okkur frá trúlofun sinni!
Nýtt ár er fram undan, ný tækifæri og ný fyrirheit. Þó að mitt ár hafi að mestu leyti verið markað gæfusporum og gleðibrosum eru þeir eflaust margir sem minnast gamla ársins - eða gömlu áranna - með sársauka og tárum. Gott er á tímamótum gleði jafnt sem sorgar að minnast orða Krists:
"Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist" (Jóh. 14.27).
Það gladdi mig við morgunmessu í Grafarholti í morgun að sóknarprestur skyldi gerast litúrgískur óþekktarangi og nota þessi orð Krists sem guðspjalls- og predikunartexta en ekki þann texta, sem vefur kirkjunnar gerir ráð fyrir. Þessi orð eru mér sérstaklega hjartfólgin um áramót, enda afi minn vanur að lesa hugvekju út frá þeim fyrir fjölskylduna eftir matinn á gamlárskvöld. Ég vona að ekki verði undantekning á því í kvöld, enda full ástæða til að minnast eilífra fyrirheita Krists um nærveru hans og þann frið, sem ekki er eins og friður heimsins og ekkert megnar frá okkur að taka.
Gleðilegt ár í Jesú nafni!
Athugasemdir
Já gleðilegt ár!
Lutheran Dude, 31.12.2006 kl. 15:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.