Rólegir jóladagar

Eins og einhverjir hafa kannski tekið eftir hef ég verið latur við bloggið síðustu daga og fremur kosið að eyða jóladögunum með fjölskyldunni eða jólabókunum en tölvunni. En kominn er tími til að bæta hér dálítið úr.

Allmörgum síðustu daga höfum við Hlín varið með fjölskyldum annars hvors okkar eða beggja. Þó að jólaboðin séu ánægjuleg, maturinn góður og yndislegt að hitta fjölskyldurnar, er líka gott að slaka á bara tvö heima. Við vorum nú í fyrsta skipti saman á aðfangadagskvöld, hjá mínum góðu tengdaforeldrum í Grafarholtinu. Enginn ágreiningur er um matarmál þetta kvöld okkar á milli þar sem bæði erum við vön hamborgarhryggnum góða. Á jóladag og annan í jólum tóku svo við jólaboð, eitt í hvorri fjölskyldu á dag, og stóð matarlyst mín sig bara nokkuð vel undir þessu mikla álagi! Illar tungur myndu segja að ekki hafi verið við öðru að búast...

Á þriðja degi jóla hélt móðursystir mín, Hjördís Þorgeirsdóttir, upp á fimmtugsafmæli sitt með pompi og prakt. Þau hjónin eru stórtæk þegar þau taka sig til og dugði því ekkert minna en að halda 150 manna veislu í Iðnó af þessu tilefni! Var þetta skemmtilegt kvöld og ekki síst gaman að geta sungið afmælisbarninu til heiðurs með karlasöngflokki nokkrum merkum í fjölskyldunni. Foreldrar mínir komu reyndar mikið við sögu þetta kvöld því auk þess að leiða söng karlahópsins stjórnaði pabbi fjöldasöng og mamma hélt ræðu ásamt þriðju systurinni.

Fjórða í jólum fórum við svo aftur í mat til tengdó og að því loknu hittist gamli bekkurinn minn úr MR aftur eftir of langt hlé. Það er forvitnilegt að heyra, hvar bekkjarfélagarnir úr menntó eru staddir í lífinu nú þremur og hálfu ári eftir útskrift, og telja stigin í "fullorðinsleiknum" eins og ein orðaði það. Flestir eru í einhverju háskólanámi, þar af nokkrir í útlöndum, en aðrir í einhverri vinnu og jafnvel búnir að koma sér vel áfram fjárhagslega. Ég er sá eini gifti en einn er í staðfestri samvist og allmörg í sambúð - en enginn úr hópnum kominn með barn (svo vitað sé) þó að við séum öll orðin 23 ára!

Serafar hittust svo í gær hér á Eggertsgötunni til að elda og borða saman, spila og njóta samveru við árslok. Sólveig stjórnaði gerð dýrindiskjúklingaréttar og var gott að fá eitthvað létt í magann eftir ofmagn af reyktu og feitu kjöti síðustu daga (þó að ég kunni vel að meta slíkan mat í hófi!).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband