Á Þorláksmessu

Þá er prófum lokið og get ég ekki sagt annað en að ég sé bærilega sáttur við frammistöðu mína í þeim. Á fimmtudag gat ég loks farið að snúa mér að jólaundirbúningnum með Hlín, en einnig tókum við tvær vaktir í gær og í fyrradag á sölubás Kristniboðssambandsins í Kringlunni. Það hefur tilheyrt jólaundirbúningnum hjá mér í allmörg ár að standa þar í nokkra klukkutíma og selja jólakort, merkimiða, friðarljós Hjálparstarfs kirkjunnar o.fl. Okkur þótti reyndar ótrúlegt í ljósi veðurs seinustu daga hversu mikið seldist af friðarljósunum að þessu sinni og er greinilegt að Íslendingar láta smámuni á borð við úrhellisrigningu ekki stöðva sig í að kveikja á kertum við leiði ástvina sinna fyrir hátíðina.

Sú hefð hefur myndast fyrir þó nokkru síðan í minni fjölskyldu að soðin er skata 22. desember og síðan hangikjöt á Þorláksmessu - til að losna örugglega við skötulyktina úr húsinu fyrir jól! Hlakka ég alltaf til að borða skötu rétt fyrir jólin, þó að líklega myndi ég ekki vilja borða þennan sérstaka mat oftar en einu sinni á ári. Að þessu sinni var það faðir minn sem tók að sér umsjón skötuveislunnar og var hún því eins og gefur að skilja aðeins fyrir lengra komna, því að eingöngu var á boðstólum vel kæst skata og tindabikkja - enginn saltfiskur eins og mamma hefur yfirleitt soðið með. Tvö systkina minna borðuðu því bara kartöflur og rúgbrauð í kvöldmatnum í gær! Eiginkona mín var því miður á vakt í gærkvöldi og komst ekki í skötuna en ég fékk að taka með smávegis nesti fyrir hana. Reyndar held ég að mamma hafi verið dauðfegin að losna við þennan vel lyktandi mat út úr húsi...

Og nú er líklega ekki rétt að tefja lengur við tölvuna í bili því að lokasprettur jólahreingerningarinnar bíður!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Ómar Gunnarsson

Skatan er órjúfanlegur þáttur af jólahefðinni. Þetta er svo sem ekki besti matur sem til er, en jólaleg er hún. 

Jón Ómar Gunnarsson, 23.12.2006 kl. 14:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband