Á lokaspretti prófanna

Í fyrramálið fer ég í mitt síðasta próf á þessu misseri, í Trúfræði I hjá dr. Arnfríði Guðmundsdóttur. Það er áhugavert fag og hef ég haft býsna gaman af lestrinum fyrir það þó að vissulega sé slæmt að vera í prófum nánast fram undir jól. Viðfangsefni trúfræðinámskeiðsins hafa m.a. verið spurningar á borð við þessar: Hverjar ættu að vera heimildir kristinnar guðfræði? Hvernig getum við talað um Guð eða þrenninguna? Hver eru tengsl heimspeki og guðfræði? Og hvert er framlag kvenna til guðfræðinnar á seinustu árum? Það er gaman að glíma við spurningar af þessum toga og lesa um leiðir ólíkra guðfræðinga í þeirri glímu. Sjálfur er ég hrifnastur af áherslu Karls Barth á sjálfsopinberun hins handanverandi Guðs í Kristi fyrir tilstilli Ritningarinnar og tel okkur eiga að leggja allar kenningar á vogarskálar þeirrar opinberunar. Jólin eru einmitt rétti tíminn til að íhuga þá opinberun, nefnilega að „sá Guð er hæst á himni situr/ er hér á jörð oss nær“ eins og Valdimar Briem segir í mínum uppáhaldsjólasálmi, Í dag er glatt í döprum hjörtum. - En þó að trúfræðin sé spennandi viðfangsefni hlakka ég til að ljúka prófunum á morgun og geta einbeitt mér að jólaundirbúningnum heima fyrir, sem fram að þessu hefur mest lent á eiginkonunni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með að vera búinn í prófum.  Þetta er augljóslega svindl að menn þurfi að vera svona lengi í próflestri

Grétar (IP-tala skráð) 21.12.2006 kl. 15:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband