5 dagar til jóla

Ekki er veðrið upplífgandi í dag. Eftir afar fallegt og jólalegt veður um helgina tók að hlána og rigna og nú minnir gegnvot háskólalóðin fremur á skólabyrjun að hausti en jólapróf. En til áminningar um árstímann er dagurinn með alstysta móti, vart orðið bjart um hádegisleytið þegar tekur að skyggja að nýju. Svona er að búa á Íslandi og óhætt að segja að maður njóti sumarblíðunnar og sólarhringsbirtunnar betur þegar vetrarmyrkrið er um garð gengið. Eins og gjarnan hefur verið bent á eiga spádómsorð spámannsins Jesaja um fæðingu frelsarans sérlega vel við á Íslandi um þetta leyti árs: „Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá, sem búa í landi náttmyrkranna, skín ljós“ (Jes. 9.2). Þessi orð tilheyra helgihaldi aðfangadagskvölds og vekja trúarvonina um ljósið frá Betlehem - hið eilífa ljós Krists. En skyldi íslenska þjóðin hafa gleymt því ljósi? Skyldu margir hér lifa í því eilífa myrkri, að þekkja ekki Krist? Eflaust er það svo. Góð kirkjusókn á Íslandi á aðventu og jólum vekur þó vonir um, að þjóðin okkar vilji leita ljóss heimsins.

Við hjónin fórum í bíó í gærkvöldi og sáum fallega mynd um atburði jólaguðspjallsins, "Nativity Story" eða „Fæðingarsaga“. Það var þó leiðinlegt, og kannski til marks um hve Íslendingar eru farnir að taka jólin út snemma, að sex dögum fyrir jól var þessi jólamynd komin í minnsta salinn í Háskólabíó. Mér þykir myndin að mörgu leyti trúverðug lýsing á fæðingu Jesú og aðdraganda hennar og fylgir hún að mestu frásögnum Biblíunnar. Er það mikill kostur, enda þarf þar engu við að auka né nokkuð frá að draga. Sérstaklega kunni ég vel að meta hvernig kvikmyndin forðaðist að draga upp glansmynd af þessum atburðum. Hún lýsir glímu Maríu og Jósefs við þau óvæntu straumhvörf, sem verða í lífi þeirra við boðun engilsins, hinu erfiða ferðalagi til Betlehem og frumstæðum aðstæðum þar, og einnig grimmd Heródesar og hermanna hans. Þannig fá áhorfendur að sjá mynd af andstæðunum milli illsku og drottnunarfýsni hins veraldlega valds Rómverja annars vegar, og þeim kærleiksríka mætti Krists hins vegar, sem opinberast í veikleika nýfædds barns - en er þó hið endanlega vald á himni og á jörðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dagný Guðmundsdóttir

Já ég fór á The Nativity Story fyrir örugglega 2 vikum síðan og þá var hún í pínkulitlum sal í regnboganum...

En myndin var rosalega góð, þar er ég þér alveg sammála! :)

Dagný Guðmundsdóttir, 20.12.2006 kl. 01:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband