Gagnleg nútímapostilla

Ekki alls fyrir löngu hóf göngu sína nýr vefur á vegum Þjóðkirkjunnar, trú.is, þar sem m.a. birtast reglulega nokkrar þeirra predikana, sem fluttar eru í kirkjum landsins á sunnudögum. Ég hef verið ötull lesandi þessarar síðu á undanförnum mánuðum og það er fróðlegt að kynna sér útleggingar ólíkra kennimanna kirkjunnar á guðspjallstextum kirkjuársins.

Nú rétt í þessu var ég að lesa predikun sr. Arnar Bárðar Jónssonar, sóknarprests í Neskirkju, frá síðasta sunnudegi. Ritningarlestrar annars sunnudags aðventunnar eru helgaðir endurkomu Krists og dómi yfir mönnunum. Þetta er viðkvæmt efni, að margra dómi óþægilegt umfjöllunarefni og kann að láta undarlega í eyrum kirkjugesta nútímans. En Erni Bárði tekst sérlega vel upp í þessari predikun þar sem hann dregur upp mynd af endalokunum og hinum hinsta dómi með skýra sýn á vonarboðskapinn um fyrirgefningu syndanna og miskunn Guðs fyrir Jesúm Krist. Hann hafnar verkaréttlætingunni líkt og Lúther gamli og bendir áheyrendum sínum í því sambandi á tvö lykilorð: að trúa og að vaka. Full ástæða er til að hvetja til lesturs þessarar predikunar.

Örn Bárður er reyndar einn af mínum uppáhaldspredikurum í íslensku kirkjunni og er margt af honum að læra. Ég hef veitt því eftirtekt hvernig hann grundvallar boðun sína á biblíulegri kenningu og kristinni játningahefð en tengir fagnaðarerindið samfélagsumræðunni svo eftir er tekið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband