Skemmtilegur félagsskapur

Ég hef verið svo lánsamur þrátt fyrir - og að hluta til einmitt vegna þess - að vera í miðjum próflestri, að eyða síðustu tveimur kvöldum í afar skemmtilegum félagsskap.

Á þriðjudagskvöldið sótti ég söngæfingu hjá litlum karlasönghóp í fjölskyldu minni, en þar syng ég með frændum mínum og frænkumökum undir styrkri stjórn föður míns. Hópurinn kallar sig „Vini Hjördísar“, en Hjördís þessi er móðursystir mín, Hjördís Þorgeirsdóttir, konrektor MS, sem verður fimmtug á þriðja í jólum og er stefnan sett á að syngja þá henni til heiðurs. Það er skemmtilegt að syngja með þessum hópi og söngæfing reyndist ágæt upplyfting í próflestri, enda fór ég þangað með góðri samvisku eftir að hafa lesið vandlega fyrir siðfræðiprófið í gærmorgun.

Í gærkvöldi hittist svo góður hópur úr námskeiðinu um Davíðssálmana heima hjá mér á Eggertsgötunni til að fara yfir nokkra sálma, svara gömlum prófspurningum og ræða almennt um námsefnið. Var það bæði gagnlegt og ánægjulegt enda þeir Grétar Hrafn, Jón Ómar, Stefán Einar og Þráinn, mínir ágætu félagar og vinir úr deildinni, allt sérlega ljúfir og skemmtilegir drengir, auk þess að vera vel lesnir í fræðunum. Nú eftir hádegið tekur svo ritskýringarprófið við og treystum við á að prófspurningarnar verði sanngjarnar hjá kennara okkar, dr. Gunnlaugi A. Jónssyni, prófessor í Gamlatestamentisfræðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband