Ganga í próflestri

Próflestur tekur mestallan tíma minn þessa dagana, sem eðlilegt er. Yfirleitt sit ég daginn langan við lestur í V. stofu Aðalbyggingar Háskólans, þar sem guðfræðinemar hafa sitt athvarf á prófatímanum. Það er þó auðvelt að þreytast við langa setu. Því brá ég mér áðan í stuttan göngutúr um miðborgina, í því skyni að anda að mér fersku lofti. Um leið svipaðist ég um eftir jólagjöf fyrir eiginkonuna.

Ég kom við í Eymundsson í Austurstræti, en þar er alltaf notalegt að koma og líta í góðar bækur. Nokkuð margar bækur voru þar á borðum tengdar guðfræði, kristindómi og kirkjusögu og var það ánægjulegt að sjá. Gluggaði ég m.a. í bók séra Ágústs Sigurðssonar um kirkjustaði á Vestfjörðum. Þó að ég hafi nú ekki áhuga á að lesa bók af slíku tagi spjaldanna á milli var gaman að fletta í henni og skoða myndirnar. Athygli mína vakti að í umfjöllun um Staðarprestakall í Súgandafirði var sagt að því hefði þjónað í nokkur ár „síra Sigríður Guðmarsdóttir“ sem nú sé sóknarprestur í „Guðríðarkirkjuprestakalli og sókn í Grafarholti“. Það er greinilegt að séra Ágúst ætlar sér að ákveða nafn óbyggðu kirkjunnar í Grafarholtshverfi áður en íbúarnir fá nokkuð sagt þar um!

Ekki stóðst ég heldur freistinguna að skoða nýútkomna bók Þórunnar Valdimarsdóttur um Matthías Jochumsson, „Upp á sigurhæðir“, þó að ég hafi lúmskan grun um að hún verði meðal jólagjafa minna í ár! Fletti ég strax upp á kaflanum um Þjóðhátíðina 1874, en meðal áhersluatriða í lesefni fyrir próf í Davíðssálmunum, sem ég fer í á fimmtudag, verður einmitt 90. sálmurinn. Er hinn frábæri þjóðsöngur okkar eftir séra Matthías ortur út af hluta þess sálms, sem fjallar um eilífð Guðs og hverfulleika mannsins. Það reyndist þó lítið fjallað um þjóðsönginn í kaflanum en tekið fram að við frumflutning hans við hátíðarmessu í Dómkirkjunni 2. ágúst 1874 hafi séra Matthíasi þótt hann „sem hljómandi málmur og hvellandi bjalla“. Þar vitnar hann til 13. kafla 1. Korintubréfs, þar sem Páll postuli lýsir með þessum orðum hversu innantómt líf kristins manns er án kærleikans. Það var reyndar skemmtileg tilviljun að í hátölurum bókabúðarinnar hljómaði í þann mund sem ég las í bók Þórunnar dægurlag með texta postulans um kærleikann!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lutheran Dude

Og fannstu pakka handa mér?

Lutheran Dude, 13.12.2006 kl. 16:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband