Stúdent - en þó varla...

Í dag uppgötvaði ég að ég veit ekki lengur hvort ég get skilgreint mig sem háskólastúdent. Það rann ekki upp fyrir mér fyrr en einhvern tíma eftir hádegi hvaða dagur var í dag - fullveldisdagurinn og stúdentadagurinn, 1. desember. Ekki hafði mér sumsé hugkvæmst að kveikja á stúdentamessunni í morgun, sem ég hef þó verið fastagestur í síðustu árin og stundum meira að segja verið virkur þátttakandi í undirbúningi hennar. En hyggst njóta messunnar á Netinu við gott tækifæri.

Ég er nú víst enn í námi, er að ljúka kennsluréttindanámi um áramót og hefja MA-nám í guðfræði eftir áramótin. En námið mitt er ósköp bundið við að sitja yfir bókinni og við tölvuna hér heima. Ég gat fyrir tilviljun mætt í eina kennslustund í haust, en annars er lífstakturinn bundinn vinnu og nærsamfélagi. Þetta er undarlegt eftir fimm ár þar sem lífið snerist meira eða minna um háskólann. Saknaði þess óneitanlega í dag því að ekki hefði verið leiðinlegt að vera í Háskólakapellunni í morgun eða á fiskisúpukvöldi guðfræðinema nú í kvöld. Hins vegar er ég ægilega glaður að þegar heimaprófinu mínu í Unglingsárunum verður lokið á föstudaginn er námsskyldum lokið þetta misserið og hægt að hafa tíma til að njóta aðventunnar. Þetta er svona togstreita.

Óska svo stúdentum og landsmönnum öllum til hamingju með daginn.

Óska einnig foreldrum mínum og sjálfum mér til hamingju með daginn af sérstakri ástæðu, en þennan dag fyrir aldarfjórðungi, 1. desember 1983, gengu foreldrar mínir í heilagt hjónaband og litli guttinn þeirra var skírður. Hvort tveggja gerði biskupinn okkar núverandi og kann ég honum mínar bestu þakkir fyrir Smile

Viðbót 2. desember: Var að uppgötva að stúdentamessunni í gær virðist ekki hafa verið útvarpað, a.m.k. finn ég hana ekki á Netinu. Lýsi furðu minni á þessu - varla er þetta liður í sparnaðaraðgerðum Ríkisútvarpsins því ekki þarf að greiða "dagskrárgerðarfólkinu" sem sér um messuna laun!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Þorgeir

Messunni var ekki útvarpað, mér skilst að RÚV hafi ekki viljað það en veit ekki hvers vegna!  Mjög leiðinlegt.

Þráinn (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 19:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband