Miðvikudagur, 11. júní 2008
Góð ræða biskups
Það er löngum umhugsunarefni, hvert fjölmiðlar beina athygli sinni. Vissulega er það hálfdapurlegt, að á öðrum degi Prestastefnu sé eina fréttin, sem hægt er að finna á vefmiðlunum um stefnuna, þessi frásögn af skrípaleik Vantrúarmanna. Hann dæmir sig sjálfur. Um hann er ekki annað að segja en það, að orðin "Leyfið okkur bara að vera í friði!," sem svo oft hljóma þegar rætt er um heimsóknir kirkjunnar manna í opinberar stofnanir, gilda bara í aðra áttina að dómi Vantrúar. Þannig er nú það - eigum við ekki bara að brosa í kampinn yfir þessu eins og Hólabiskup á myndinni?
Um annað vildi ég ræða: Fyrir ári síðan loguðu fjölmiðlar í umfjöllun um Prestastefnu, en þá var þar rætt um aðkomu kirkjunnar að blessun sambúðar samkynhneigðra. Það mál er allrar athygli vert, og ég vona, að sem flestir séu sáttir við þá niðurstöðu, sem þar hefur fengist. Það er hins vegar ekki annað hægt en að spyrja, hvers vegna Prestastefnan þetta árið vekur jafnlitla fjölmiðlaathygli og raun ber vitni. Þar eru nefnilega mjög áhugaverð mál til umfjöllunar, sem snerta mun fleiri til lengri tíma litið en samvist samkynhneigðra - nefnilega svo nefnd "innri mál kirkjunnar," þ.e. flest allt það, sem lýtur að helgihaldi og athöfnum kirkjunnar í blíðu og stríðu í samfylgd sinni með fólkinu í landinu.
Ekki þykir mér síður áhugaverð setningarræða biskups á Prestastefnu. Hana má lesa eða hlusta á hér og er þeim tíma vel varið að mínum dómi, enda er ræðan einstaklega góð hvatning til starfsmanna kirkjunnar um að láta ekki deigan síga í að sinna því hlutverki kirkjunnar að biðja með og fyrir, boða og þjóna fólkinu í landinu. Sérstaka ánægju og athygli mína vakti áhersla biskups á aukna sókn í barna-, æskulýðs- og fermingarstörfum kirkjunnar. Hann ræddi um, að kirkjan yrði að axla þá ábyrgð, sem fylgdi því að bera börn landsins til skírnar, og sinna því hlutverki sínu að fræða börn og unglinga um trúna og leiða þau til þátttöku í helgihaldinu. Börn eru enginn fylgihlutur í kirkjustarfinu. Þau eru þar ÓMISSANDI - og mikið var ég glaður, að biskup skyldi brýna presta sína og djákna til þess. Það er líka sérstaklega hvetjandi fyrir okkur, sem erum í eða að ljúka guðfræðinámi, og viljum gjarnan gefa okkur að þessu málefni.
Svarthöfði á vegum félagsmanna í Vantrú | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Matthías Ásgeirsson, 11.6.2008 kl. 15:32
Einnig er óskiljanleg (og þó ekki) þessi sífellda ásókn kirkjunnar manna í börn - þeir vita jú best að þar eru þau trúgjörnust fyrir. Hræsnisfullt.
Kristján Hrannar Pálsson, 11.6.2008 kl. 15:36
"Það sem þér viljið að aðrir gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra". Ég held að ég fari rétt með þessa tilvitnun í biblíuna. Félagsmenn í Vantrú lesa kannski ekki þá góðu bók, en í þessu tilfelli er þó meiningin sú að þeir ættu kannski að sýna þjóðkirkjunni og kristinni trú þá virðingu sem þeir ætlast til að við sýnum trúleysi þeirra. Svo mörg voru þau orð.
Sigríður Jósefsdóttir, 12.6.2008 kl. 17:37
Mér fannst einmitt dáldið spes að sjá þetta með svarthöfða á prestastefnunni í fréttunum. Velti fyrir mér hvað væri verið að reyna að áorka í stefnumálum þeirra.
En mér líst vel á það ef það verður lögð meiri áhersla á gott barna- og unglingastarf í kirkjunni.
p.s. takk fyrir commentið um daginn, sérstaklega gott að lesa versið fannst mér.
Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, 14.6.2008 kl. 14:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.